Velferð dýra

28. maí 2011

Grein sem birtist í Bændablaðinu 26. maí.

Að undanförnu hefur farið fram mikil og að mörgu leiti þörf umræða um velferð dýra. Þar hafa farið fremst í flokki, eftir því sem ritari hefur náð að fylgjast með, fólk frá samtökunum Velbú og ýmsir aðrir sem hafa inn í umræðuna dregist. Vonandi eru helst allir þeirrar skoðunar að ekki skuli slakað á varðandi dýravernd og að eftirlit með því að vel sé hugsað um þau dýr sem menn hafa sér til nytja eða ánægju sé í góðu lagi. Þó að umræðan að undanförnu hafi bæði verið þörf og góð, verður að segja það eins og er, að þar hefur einnig borið talsvert mikið á öfgafullum málflutningi og ekki er laust við að firringar hafi að nokkru gætt í framsetningu sumra þeirra sem fremstir hafa farið.

 

Það hlýtur, svo dæmi sé tekið, að teljast firring, þegar því er haldið fram að dýrin sem slík séu höfð á ,,boðstóli neytenda”, að fuglar bæði ,,kúki og pissi” (haldið fram af konu sem titlar sig dýralækni) og að kjúklingar sofi fjórar klukkustundir á sólarhring til að hámarka afköst. Gera má ráð fyrir að um sé að ræða vanþekkingu á því sem til umfjöllunar er. Væri vafalaust betra að viðkomandi kynntu sér málin betur áður en slíkar fullyrðingar eru settar fram. Þær eru ekki til þess fallnar að vinna þeim málstað sem barist er fyrir gagn.

 

Einnig er æskilegt að raunsæi komi að einhverju leiti við sögu þegar verið er að fjalla um þessi málefni. Er það til að mynda raunhæft að gera því skóna að alifuglaungar gangi lausir í íslenskri náttúru og ef menn gefa sér að svo sé: Hvernig á það að koma heim og saman, að fuglarnir tíni upp í sig bakteríur eins og salmonellu og Campylobacter, frjálsir  úti í náttúrunni  og ætlast svo til þess, að þær sömu bakteríur, gufi síðan á óútskýrðan hátt upp þegar fuglunum er slátrað. Vissulega má hugsa sér að íslenskum reglugerðum verði breitt á þann veg að þessar óværur verði heimilaðar í íslenskum vistvænum og lífrænum matvælum, en ef það er það sem menn vilja, þá er best að það komi skýrt og greinilega fram í umræðunni. 

 

Sá sem þetta ritar hefur dálitla reynslu af eldi og ræktun kjúklinga, en hefur auk þess fengist við annan og ,,hefðbundnari” búskap. Var öll sumur í sveit frá sex ára aldri og hefur átt þar heima frá því hann var unglingur. Ekki minnist hann þess að hafa kynnst á þessum tíma bændafólki sem vildi, eða ætlaði sér að fara illa með skepnur, þó auðvitað hafi gerst óhöpp og slys. Ekki hefur það þó verið vegna þess að bændur eða búalið, sem hann hefur kynnst, hafi að yfirlögðu ráði valdið þar um og í þau skipti sem hann man eftir að slíkt hafi gerst hefur viðkomandi venjulega tekið það afar nærri sér.

 

En að því raunhæfa, vistvæna og góða. Það er einlæg skoðun undirritaðs að það sé mannúðlegra, meira í ætt við dýravelferð og almenna skynsemi að sleppa nýklöktum kjúklingum inn í upphituð, rúmgóð, björt, loftræst, hrein og trygg hús, til að ala þá upp í, heldur en að sleppa þeim út harðneskjulega íslenska náttúru þar sem þeir væru berskjaldaðir fyrir nær öllu því sem má hugsa sér að geti orðið þeim að fjörtjóni. Það er ekki velferð, Velbú, né þaðan af síður lífrænt, þar sem ganga má að því vísu, að umrædd dýr, myndu ekki lifa slíka tilraunastarfsemi af. Það er heldur ekki raunhæft að reikna með því að kýr séu ekki hafðar í fjósum, eða a.m.k. við þau og sauðfé verður að reka í réttir að hausti og draga í dilka hvort sem mönnum líkar betur eða ver.

 

Höldum okkur við hið raunhæfa. Það er ekkert sem bendir til þess að mannskepnan hætti í náinni framtíð að halda búfé sér til nytja. Það hefur verið gert frá örófi alda og verður gert um langa framtíð. Förum vel með þann fénað sem haldinn er í þessum tilgangi og búum sem best að honum. Þau sem vilja ekki leggja sér kjöt til munns verða ekki neydd til þess og ekki er vitað til þess að nokkur hafi áhuga á að þröngva þeim til slíkrar neyslu.

 

Við hin sem viljum neyta afurða sem koma af húsdýrahaldi, vitum það afar vel, að bestu afurðirnar koma af fénaði sem vel hefur verið búið að og munum því með vali okkar að nokkru stuðla að góðri meðferð húsdýranna.