Ekki af baki dottinn

6. apríl 2011

Grein sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í dag.

  Fjöregg íslensku þjóðarinnar er á flugi, líkt og bolti í blaki. Kastast af einum á annan í einhverskonar óreiðukenndum leik sem enginn veit nákvæmlega hvernig byrjaði né heldur hvers vegna er stundaður. Þeir vita það ekki heldur leikmennirnir, sem keppast við að halda egginu á lofti, en vita þó, að ef þeim tekst ekki að halda fjöregginu á flugi, þá fer illa. Þeir vita þetta allir sem leikinn stunda utan einn, þ.e. sá sem  ekki virðist mega til þess hugsa að honum ljúki. Vegna þess, að hann telur sér trú um að ef svo fer að eggið falli mjúklega til jarðar óskemmt og óbrotið muni ljósið - sem hann telur sér trú um að á hann skíni - dofna. Að hans áliti snýst tilveran nefnilega um, að hinn stórkostulegi og einstæði persónuleiki hans njóti sín. Annað skiptir máli.

 

Oft hefur hann lent í hremmingum og stundum fallið, en ávallt staðið upp aftur. Beðið um tilfinningalegt svigrúm og fengið, en nú þarf hann ekki á neinu slíku að halda. Nú er það þjóðin sem kaus hann sem þarf á svigrúmi að halda, því það er jú fjöreggið hennar sem leikmennirnir eru að basla við að halda óbrotnu eftir að þessi eini varpaði því í loft upp. Nú fylgjast þegnarnir með því - ekki í tilfinningalegu svigrúmi - heldur tilfinningalegu losti; hvort takast muni að halda fjöregginu óbrotnu.  

Á ýmsu hefur gengið og þrisvar hefur hann sagt nei og alltaf hefur hann fundið jafn mikið til sín. Fundið fyrir því að hann getur enn látið til sín taka. Á sínum tíma gerði hann á sér fáheyrða persónuleikabreytingu til þess að komast þangað sem hann er. Honum var það svo ótrúlega auðvelt og ekki spillti fyrir að keppinautarnir voru ekki æfðir í slíkum umskiptum.  Ekki spillti það heldur fyrir að mesti andstæðingur þess að hann kæmist þangað sem hann er núna kunni sér ekki hóf í baráttunni. Kannski hefði sá með hrífuna (eða var það sópur), haft hann í slagnum, ef hinn voðalegi fyrrverandi þetta og hitt og núverandi ritstjóri blaðs sem er við það að hverfa, hefði ekki beitt sér eins og hann gerði. 

Örlögin hafa sem sé hagað því svo, að nú eru þeir orðnir samherjar, félagar í andanum, á móti framtíðinni en ekki fortíðinni. Fortíðin er nefnilega að beggja áliti bara nokkuð góð, enda báðir komnir af léttasta skeiði og farnir að sjá liðna tíð í ljóma. Ekki er þó víst að þeir deili með sér ást og hrifningu á þjóð drekans. Þannig er að annar dýrkar drekann í austri en hinn í vestri og þannig bítur hvor í skottið á öðrum, svona líkt og hvernig fólk getur sameinast í félagsskapnum Heimsýn, sem nær víst er að báðir hafa hlýjar taugar til. 

En hann er ekki af baki dottinn, öðru nær, enda nóg komið af slíku og nú er stefnan tekin á að halda sig á baki þjóðarinnar og hún er nú þekkt af öðru en því, að hrista af sér sína bestu syni. Annað hvort væri það. Þjóðin sem þolað hefur móðuharðindi, hafísár og frostavetur fleiri en tölu verður á komið. Að ógleymdum landflótta sem hún hefur svo mikla reynslu af, bæði fyrr og nú. 

Það er reynsla kemur þjóðinni vel núna, þegar hin ólíku og þó svo undarlega líku öfl taka höndum saman og þá ríður á að tekin sé ábyrg afstaða í alvarlegu máli sem snertir framtíð þessarar þjóðar. Á hún að skríða inn í skel og neita að horfast í augu við raunveruleikann, eða takast á við tilveruna eins og hún kemur fyrir. Reisa skjaldborg, bíta í skjaldarrendur og segja nei, eða horfa fram á veginn, byggja upp framtíð fyrir komandi kynslóðir og segja ,,JÁ”.

Hvort ætli sé nú betra, að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og stefna fram á við, eða gera ráð fyrir að hægt sé að éta skildina, sem er hvort eð er búið að bíta í, þegar búið er að valda tjóni með gömlu íslensku þrjóskunni.       Lokað er fyrir ummæli.