Samkvæmt því sem lesa má um í Fréttablaðinu verður hið íslenska landbúnaðarkerfi sett í frysti, þar til svo er komið að þjóðin er búin að samþykkja inngöngu í Evrópusambandið. Inngangur fréttar Vísis er svohljóðandi: ,,Samninganefnd Íslands kynnir íslenskt landbúnaðarkerfi og sérstöðu þess fyrir samninganefnd ESB á rýnifundi í Brussel í dag”. Ástæður þessa eru sem kunnugt er afstaða Bændasamtaka Íslands til ESB- umsóknarinnar, ásamt einlægri hrifningu landbúnaðarráðherra á því millifærslukerfi sem við líði er í landbúnaðinum.  Á sínum tíma þótti það nokkuð sérstakt þegar Framsóknarflokkurinn fór fram með þá stefnu að rétt væri að Ísland gengi inn í ESB, en þó með því skilyrði að það yrði í raun þannig að Evrópusambandið gengi inn í Ísland. Nú er stefnan tekin á að Evrópusambandið tileinki sér íslensku peningaveituna sem fundin var upp fyrir íslenskan landbúnað.

Ómissandi ráðherra

  Ögmundur Jónasson hélt því fram í viðtali á Bylgjunni síðastliðinn laugardag að Jón Bjarnason væri ómissandi sem ráðherra og því mætti ekki halda áfram þeirri tiltekt sem hafin er í æðstu stjórnsýslu með fækkun ráðuneyta. Í sama viðtali hélt Ögmundur því einnig fram að úrganga hans úr ríkisstjórninni á sínum tíma, þegar hann var heilbrigðisráðherra, hefði verið gerð til að bjarga stjórninni. Þar með liggur það ljóst fyrir að allar hugmyndir um að skýringin hafi verið sú að hann hafi ekki haft kjark til að takast á við þau niðurskurðarverkefni sem við blöstu í hinu útgjaldaafreka ráðuneyti standast ekki. Jafnframt hlýtur að mega draga þá ályktun af þessum yfirlýsingum ráðherrans að endurkoma hans í ríkisstjórnina sé hreint ekki til þess gerð að koma henni til bjargar og líklegra verður að teljast að endurkoma Ögmundar sé alls ekki til þess hugsuð.

   Það er kunnara en frá þurfi að segja að ástandið í Vinstri græna flokknum er óbeysið og á stundum engu líkara en að flokkurinn sé aðeins regnhlífarsamtök fyrir fólk sem ekkert á sameiginlegt annað en að geta ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana vilja tveir þriðju hlutar flokksmanna ljúka viðræðum við ESB, samt er það stefna flokksins að þangað höfum við ekkert að sækja. Formaðurinn flokksins sér ekki sólina fyrir íslensku krónunni og á það sameiginlegt með Heimssýnarhópnum. Hvorki hann, né hópurinn sá, vill Ísland í ESB og hafa þau helst bent á þá lausn á augljósum vanda í íslenskri hagstjórn, að landið verði einhverskonar fylgiríki Noregs. Framsóknarforingjar hafa verið talsvert hallir undir þessar hugmyndir og ógleymanlegur er betlileiðangur þeirra Sigmundar Davíðs og Höskuldar til Noregs á sínum tíma. Frá Noregi berast þær fréttir að ríkidæmið sé búið að
gera þessa nágranna okkar svo viti firrta að þeir telji að hamingja og velferð norsku þjóðarinnar felist helst í níðingshætti gagnvart þeim sem ekki eru fæddir undir norskri sól. 

Framtíð þjóðar

  Forseti íslenska lýðveldisins hefur hins vegar þann háttinn á, á milli þess sem hann dundar sér við að hengja krossa á fólk fyrir að vinna vinnuna sína og tala af sér í viðtölum við erlenda fjölmiðla, að mæna bláeygur til Kína. Þangað vill hann sækja framtíð þjóðar sinnar enda eru kínversk stjórnvöld, eins og alkunnugt er, fremst í flokki þeirra sem virða mannréttindi og tjáningarfrelsi. Sannaðist það vel við afhendingu Nóbelsverlaunanna á dögunum þar sem stóll Nóbelsverðlaunahafans stóð auður, vegna þess að kínversku mannvinirnir sáu sér ekki fært að leysa hann úr haldi.

  Þeir eiga sitthvað sameiginlegt fjandvinirnir Davíð og Ólafur, þegar að er gáð. Báðir eru t.d. einlægir andstæðingar inngöngu í ESB. Hádegismóabóndinn virðist vilja að þjóðin loki sig af frá samfélagi þjóðanna en félagi hans frá Bessastöðum vill, sem fyrr segir, helst af öllu flytja Ísland til Asíu. Báðir eiga þeir það svo sameiginlegt að þekkja ekki sinn vitjunartíma, annar búinn að leika klappstýru fyrir útrásarvíkinga, en hinn yfirgaf sem kunnugt er Seðlabanka Íslands gjaldþrota.Lokað er fyrir ummæli.