Dýralíf

6. janúar 2011

  Að undanförnu hefur verið hægt að fylgjast með sálarástandi vinstri- grænna nánast í beinni útsendingu, bæði í útvarpi allra landsmanna, sem og öðrum fréttamiðlum. Undanfari þessarar einstöku opinberunar á þrætubókarsnilli og þvergirðingshætti hefur verið miklu lengri en kemur fram í fréttum, það er allar götur aftur til þess þegar nokkrir vinstri flokkar voru sameinaðir í þeim sem í dag heitir Samfylkingin. Eftir sátu þau sem töldu sig vera það langt til vinstri að þau gætu ekki undir nokkrum kringumstæðum tekið þátt í að starfa í stórum flokki þar sem sjónarmið jafnaðarmanna væru ríkjandi.

  

Hápunkti hinnar vinstri- grænu sálarkreppu virðist hafa verið náð á fundi í gömlu Morgunblaðshöllinni við Aðalstræti (hvar annarstaðar!). Fundi þar sem allir fimmtán þingmenn flokksins, eða flokkanna eftir því hvernig er á það litið, komu saman til að ræða það sem þau kalla skoðanaágreining. ,,Ágreiningur” er reyndar sérgrein Vinstri- græna flokksins eins og flestum mun vera kunnugt um sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum. Þar á bæ virðist það vera þannig að ef einhver mál koma upp sem taka þarf afstöðu til, að þá er fyrst af öllu kannað hvort ekki sé hægt að finna einhvern góðan flöt á því að ,,vera á móti” í málinu. Síðan er lagst í allskyns umræður og vangaveltur um málið og ekki linnt látum fyrr en gott ráð finnst til að geta verið því algjörlega andsnúinn.   

Það mun hafa verið vegna þessara eiginleika samstarfsflokksins sem  forsætisráðherra greip til þess að líkja því við ,,að smala köttum” að fá þingmenn VG til að taka þátt í atkvæðagreiðslu á ábyrgan hátt. En eins og flestum er ljóst þá hefur ábyrgðartilfinningin þróast upp í andhverfu sína hjá æði mörgum hinna vinstri- grænu hugsjónaberserkja. Því er það, að það sem flestum öðrum finnst sjálfsagt og rétt að gera, verður í þeirra huga það sem alls ekki má með nokkru mögulegu móti taka þátt í.  

Hér er um að ræða gamlan og gróinn kvilla sem margur hefur þurft að fást við. Hefur lausnin oft á tíðum falist í því að koma því inn hjá viðkomandi: að eitthvað þurfi að gera á þennan veginn eða hinn, hætta síðan ekki fyrr en hann er farinn að halda að honum hafi sjálfum dottið þetta í hug og er þar með orðinn heltekinn af hugmyndinni og í framhaldinu berst fyrir henni af mikilli elju. Þetta getur á stundum verið afar tímafrekt ferli eins og allir þekkja sem tekið hafa þátt í, en er oftar en ekki farsælt þegar átt er við einstaklinga sem eru haldnir þöngulhugsun og þvergirðingshætti.  

Vitanlega er ekki raunsætt að gera ráð fyrir að í ríkisstjórnarsamstarfi geti hlutirnir gengið fyrir sig með þessum hætti að öllu leyti, þó stundum geti þurft að grípa til slíkra ráða. Það verður þó að vera í algjörum undantekningartilfellum, því gera verður þá kröfu, að fólk sem situr á Alþingi og heldur um stjórnartaumana, sé að mestu leyti í þokkalegu standi.  

Af þessu má auðséð vera að stjórnarsamstarf við stjórnmálaflokk af þeirri tegund sem VG er getur ekki gengið nema í afar stuttan tíma, því eftir alveg ótrúlega stutta setu fara böndin að trosna. Þau bönd sem í raunverulegum stjórnmálaflokkum halda fólki saman þó ágreiningur komi upp um einstök atriði: hina sameiginlegu sýn flokksmanna á hvert stefna skuli. 

Þessu er ekki fyrir að fara hjá VG og því má ljóst vera að á þau verður ekki hægt að byggja stjórnarsamstarf til lengri tíma. Það nöturlega við stöðuna í íslenskum stjórnmálum nú um stundir er hins vegar það, að ekki er svo að sjá að hinir þverklofnu stjórnarandstöðuflokkar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur séu í nokkru standi til að koma að stjórn landsins.

  Af þeirri ástæðu situr þjóðin uppi með það að hafa í ríkisstjórn fólk sem engin sanngirni er að líkt sé við húsdýr, því þau eiga það bara alls ekki skilið.    Lokað er fyrir ummæli.