Hver er sínum gjöfum líkur

4. nóvember 2010

  Ríkisútvarpið greindi frá því í vikunni að Bændasamtökin hefðu látið dálítið fé af hendi rakna til félagsskapar sem kallar sig ,,Heimssýn”. Félagsskapur þessi er forustumönnum bænda frekar kær og það er bóndi úr Dölunum sem veitir félagsskapnum forstöðu. Í pistli sem undirritaður sendi frá sér á dögunum og birtist m.a. í Fréttablaðinu, var sagt að mörg væri hún matarholan sem leyndist í styrkjakerfi landbúnaðarins. Nú er staðfest af Haraldi Benediktssyni  formanni Bændasamtakanna, eftir viðtal í Ríkisútvarpinu, að það var ekki orðum aukið.

  Kærleikurinn sem félagið Heimssýn nýtur af hálfu Bændasamtakanna virðist stafa af því að félagsskapur þessi á það sameiginlegt með forustumönnum bænda að vilja ekki að Ísland verði ekki eitt af aðildarlöndum Evrópusambandsins. Þar falla hugir saman, að vilja halda Íslandi utan samfélags þeirra þjóða sem því standa þó næst. Um það sameinast kvótahafar til lands og sjávar, ásamt öldruðum pólitíkusum sem finna hjá sér hvöt til að taka þátt í leiknum og berjast gegn því sem líklegt er að geti orðið þjóðinni til hagsbóta. Ekki rekur ritara minni til að nokkur þessara aðila hafi lagt það á sig að benda á einhverja aðra og betri leið til lausnar á þeim vanda sem augljóslega blasir við þegar litið er til framtíðar. Með þeirri undantekningu þó, að formaður Heimssýnar virðist telja að hjálpræðið sé helst að sækja til Bandaríkjanna, ekki ólíkt forseta lýðveldisins, að því frátöldu að hann sér sólina helst rísa í Kína.

  Heimsýnarsamtökunum ætti að vera þokkalega borgið með svo traustan bakhjarl sem Bændasamtökin eru. Samtök sem virðist ekkert muna um að rétta félagsskapnum ómælda styrki, bæði hrein peningaframlög og óbein. Frétt Ríkisútvarpsins upplýsti að styrkurinn til Heimssýnar hefði verið í þrennu lagi, þ.e. fimm hundruð þúsund til félagsins til almennrar starfsemi, önnur fimm hundruð þúsund til að greiða auglýsingastofu og að síðustu ókeypis ótilgreint auglýsingapláss í Bændablaðinu. Ekki er að efa að það á eftir að koma sér vel, þar sem Bændablaðinu er nú dreift með Morgunblaðinu, sem þrátt fyrir myndarlegan taprekstur, gefur líklega ekki auglýsingaplássið þó málstaðurinn sé eflaust eigendum þess hjartfólginn.

  Formaður Bændasamtakanna gerði sér tíðrætt um ,,aðréttur” í leiðara Bændablaðsins fyrir nokkru og nú liggur loks fyrir hvað raunverulega var átt við: Bændasamtökin taka ekki við ,,aðréttum” heldur er það þannig að það eru þau sem stunda það að veita ,,aðréttur”, því ekki var annað hægt að skilja, af orðum formannsins, en að styrkveitingin til Heimsýnar væri einungis lítið brot af þeirri rausn sem iðulega hryti af nægtaborði Bændasamtakanna til hinna ýmsu félagasamtaka sem þeim væru þóknanleg.

  Almennir bændur, sem margir hverjir hafa ekki of miklu úr að moða, hljóta að furða sig á því að slík sé gnóttin af óþörfu fé í fórum samtaka þeirra, að hægt sé að spreða því að geðþótta í alls kyns verkefni sem engin grein er gerð fyrir, eða að minnsta kosti er ekki á lofti haldið.

  Það hlýtur að vera hægt að ætlast til að Bændasamtökin geri grein fyrir hvernig þessum málum hefur verið háttað á liðnum árum. Hverjir hafa fengið framlög og hvenær? Til hvers er ætlast af hálfu Bændasamtakanna, ef einhvers, af þeim félagasamtökum sem formaðurinn vísaði til að styrki hefðu fengið og hvaða sjónarmið hafi ráðið því hverjir fengu þessa styrki?