Um síðustu mánaðarmót dvaldi ritari með konu sinni í góðum hópi nokkurra landa í vikutíma í dal í Austurríki. Ánægjuleg dvöl sem lengi verður minnst. Nær engar fréttir bárust af Íslandi og nöfn eins og  Jón Bjarnason, Steingrímur J., Ögmundur, Lilja Móses., Bjarni Benidiktsson og Sigmundur Davíð heyrðust aldrei nefnd. Óneitanlega var það mikill léttir að vera laus við Íslandsvilluna.

 

Í sveitinni þarna suður frá var dvalið innan um frjálsa bændur sem ekki eru þjakaðir af kúgunarkerfi eins og því sem tekið var upp fyrir margt löngu hér á landi til að koma Korpúlfsstaðabúinu fyrir kattarnef. Kerfi sem hefur verið haldið vel og vandlega við síðan. Fróðlegt var að verða vitni að því hve frjálsir bændurnir þarna eru og hve gott þeir hafa það – Austurríki er jú í ESB. 

 

Málflutningur íslensku Bændasamtakanna hefur gengið út á, að með inngöngu í Evrópusambandið væri það sjálfgefið að íslenskir bændur kæmust umsvifalaust á vonarvöl, heftir í helsi hins evrópska reglugerðarbákns og ekki nóg með það, heldur yrðu barnungir afkomendur þeirra skráðir í hulduher sambandsins, þannig að eftir eina kynslóð yrði búskaparbasli á Íslandi sjálfhætt, þó ekki væri nema vegna nýliðunarvanda! Her þennan hefur að vísu enginn heyrt né séð aðrir en bændur, en það sannar bara betur en flest annað tilveru hans og voðalega ætlan!

 

Hótelið sem við dvöldum á keypti kjöt, kartöflur, mjólk, egg og hvaðeina af bændum í nágrenninu og ekki var annað að sjá en öllum heilsaðist vel af þeirri vöru. Ekkert bar á því að maturinn stæði þversum í mannskapnum þó sölumeðferðin væri eins óíslensk og hugsast gat. Allt eins víst að sú hafi verið skýringin: að frjáls matvæli séu bara ágæt og  ekki verri en íslenskt reglugerðarfóður.

 

Þarna var húsdýraáburður borinn á tún og akra eftir að hafa brotið sig í hrúgum sem næst fyrirhuguðum notkunarstað og það án þess að nokkur fengi hland fyrir hjartað vegna lyktar eða sjónmengunar, enda gerir fólk á þessum slóðum sér eflaust grein fyrir því, að í því sem dýrin leggja af sér felast verðmæti sem rétt er og sjálfsagt að nýta. Sannindi sem á allra síðustu tímum hafa verið að renna upp fyrir æ fleiri landbúnaðarköppum íslenskum.

 

Á slóðum þeirra Heiðu og Péturs er náttúrufegurð afar mikil. Fjöllin eru feikihá og skógi vaxin nær upp á tinda, lækir renna, vatnið ferskt og gott beint úr krana og snyrtimennskan er allsráðandi. Helst að rekast mætti á eina og eina bjór eða gosdollu, sem gos og bjórþambendur höfðu vegna sljóvgunar ,,misst” út um bílgluggann í vegarkanti hraðbrautar. Lá við að Íslendingurinn yrði feginn að rekast á tengingu sem vísaði heim. Þeir eru þá sem sé ekki alfullkomnir þarna frekar en annarsstaðar.

 

Er heim var komið tóku við gamalkunnug stef:

 

Forseti lýðveldisins sér framtíðina fyrir sér í Kína. Mannréttindafrömuðirnir og hálaunagreiðendurnir sem þar sitja að völdum, munu fátt vita æskilegra til að taka í kjöltu sér en Ísland, enda kunna þeir eflaust vel að meta framlag þjóðarinnar til eflingar hagkerfis Evrópu. Það framtak kostaði íslensku þjóðina að vísu efnahagslega sjálfstæðið, en það finnst risanum í austri eflaust ekki verra. Á Alþingi ræðir fólk um það mest og lengst og í sem flestum orðum, hvernig ,,lögum” verði komið yfir þá stjórnmálamenn sem stóðu vaktina þegar Hrunið hvolfdist yfir. Árna og Geir, Ingibjörgu og Björgvin, en að sjálfsögðu  ekki Davíð og Halldór, né Valgerði og ekki heldur Finn Ingólfs, né þau önnur sem bjuggu til það umhverfi sem gerði það að verkum að íslenska Hrunið varð svo afdrifaríkt sem raun varð.

 

Miklir menn erum við Mörlandar og aldrei munum við verða í vandræðum með að finna réttlætinu góðan farveg.