Ráðherraraunir

19. ágúst 2010

  Jón flýr allt og alla og sérstaklega fréttamenn sem spyrja leiðinlegra spurninga, en Gylfi flýr engan enda munurinn sá, að Jón Bjarnason hefur vondan málstað að verja en Gylfi er í björgunarsveitinni sem er að reyna hvað hún getur til að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl. Aðförinni að Gylfa virðist vera lokið, a.m.k. í bili, en ekki er eins víst að Jón sé sloppinn, enda ekki ástæða til.

  Annars hefur það verið dálítið fræðandi um mannlegt eðli, að eftir að reynt var að taka upp opnari stjórnsýslu og hafa meira uppi á yfirborðinu þegar ákvarðanir eru teknar af stjórnvöldum, þá gerist það æ oftar að ráðist er að þeim sem eru að gera sitt besta til að bæta og laga íslenskt samfélag. Samt virðast allir, a.m.k. í orði, vera þeirrar skoðunar að full þörf sé að breyta til og langflestir sakna ekki þeirra tíma þegar Davíð og Halldór fóru með völdin í bókstaflegum skilningi þess orðs.

  Núna þegar þeir eru blessunarlega farnir frá, þá hafa þeir hæst sem lægst höfðu á stjórnartíma þeirra félaga. Nú er fundið að nær öllu sem gert er, flest allt er ómögulegt, ef ekki af illum hvötum gert. Hvernig liti það út ef að í hvert sinn sem kalla þyrfti til slökkvilið og lögreglu þá streymdi að hópur fólks, líkt og við Héraðsdóm Reykjavíkur á dögunum þegar réttað var í máli níumenninganna svokölluðu, og gerði allt til bölvunar sem hægt væri.

  Gagnrýni er vissulega bæði góð og þörf, en henni þarf að beita á sanngjarnan hátt til að ekki missi marks og er þá komið að upphafsorðum þessa pistils.

  Jón Bjarnason hefur að mati ritara komið afar illa fyrir í viðtölum sem fréttamenn hafa lokkað hann í þar sem þeir hafa gripið hann á förnum vegi. Frægast er líklega þegar hann hentist eins og einhverskonar manngert jójó til og frá þegar rætt var við hann fyrir utan Ráðherrabústaðinn og umræðuefnið var fækkun ráðuneyta. Auðséð var og heyrt að maðurinn átti í mestu erfiðleikum með að ræða efnið sem til umræðu var, þ.e. fyrirhugaða fækkun ráðuneytanna. Flestum sem á heyrðu var vitanlega ljóst að óþægindi umræðuefnisins fyrir Jón voru þau, að hann sér fram á, að ef fækkað verður, þá er líklegast að ráðherraferli hans sé þar með lokið.

  Hitt tilfellið, sem er mun nýlegra, er þegar verið var að ræða við hann um kvótafrumvarpið varðandi mjólkurframleiðsluna. Það þótti Jóni ekki gott að ræða og ekki nema von. Ráðherrann sem hefur það á sinni könnu að koma fyrir kattarnef kvótakerfi því sem er í sjávarútvegi, var þarna kominn í þá lítt öfundsverðu stöðu að verja og reyndar herða til muna helsið sem komið var á af Framsóknar og bændaklíkunni á sínum tíma. Kerfi sem á einu augabragði hlóð undir valda aðila í bændastétt, en kippti eins snögglega grundvellinum undan öðrum sem ekki voru í náð klíkunnar.

  Jón Bjarnason getur nú tekið gleði sína að nýju, þ.e. hafi hann á annað borð, áttað sig á því að skugga hafi á hana fallið, því nú er hann búin að fá stuðning, sem kemur alls ekki úr óvæntri átt. Formaður Framsóknarflokksins ruddist fram á ritvöllinn á dögunum til þess eins að berjast fyrir og ,,rökstyðja” að í raun væri frelsi íslenskra bænda mest þegar það væri minnst. Framsóknarlegra getur það víst ekki orðið og minnir á söguna af manninum með kaffibollann: Hann gat alls ekki skilið af hverju bollinn datt sífellt ef hann sleppti á honum takinu og fannst alls ekki gefið að þó hann hefði dottið einu sinni, eða oftar, þá væri víst að slíkt henti næst þegar hann sleppti takinu.

  Já, það er ekkert einfalt mál að vera Framsóknarmaður.   

Ráðherra á flótta

10. ágúst 2010

  Þrír af fagráðherrum ríkisstjórnarinnar hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu og hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með því, en misjafnlega komast þeir frá þeirri raun. Þegar þau Katrín Júlíusdóttir iðnaðar og orkumálaráðherra og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra gera sér lítið fyrir og taka Helga Seljan í netta kennslustund í almennum mannasiðum, þá leggur Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra á flótta undan fréttamönnum og veit eflaust að hann hefur slæman málstað að verja.

  Fram til þessa hefur margur litið svo á að hagsmunagæsluflokkarnir væru tveir, þ.e. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, en nú hefur staðan breyst og þeir eru greinilega orðnir þrír þar sem Vinstri grænir eru augljóslega komnir í þann hóp. Þegar svona er komið þá er kannski ekki nema von að ritstjóri ,,Fréttablaðsins” ákalli flokk sinn með svohljóðandi orðum: ,, Og hvað með sjálfstæðismenn… […]…Geta þeir kannski kreist upp lítið, hugrakkt tíst í þágu neytenda?”.

  Já, er nema von að örvæntingin geri vart við sig hjá fylgismönnum flokkanna þriggja, horfandi á, að öll fyrirheit um að tekin yrði upp hagsmunagæsla fyrir almenning, en ekki bara fyrir hagsmunahópa, eru vegin og metin og léttvæg fundin. Engum kemur á óvart að Framsóknarflokkurinn telji sitt helsta hlutverk vera að gæta hagsmuna kvótaaðalsins í bændastétt. Það kemur heldur ekki mörgum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn líti svo á að hans helsta hlutverk sé að gæta hagsmuna kvótaaðalsins í útgerðinni, sem og auðstéttarinnar í landinu almennt.

  Það sem kemur frekar á óvart, er að Vinstri grænir skuli telja það sitt æðsta hlutverk í stjórnmálum, þegar flokkurinn er loksins kominn til valda, að gæta þessara hagsmuna framar öðrum. Þjóðrembingsafstaða þeirra varðandi ESB málið er vitanlega vel kunn, svo og hin alkunna útlendingafælni sem þeir eru haldnir, en það hefur ekki legið fyrir skýrt og klárt fyrr en nú að þjóðrembingurinn, er þegar betur er að gáð, ekkert annað en yfirskin. Afstaðan byggist greinilega fyrst og fremst á því að stunda hagsmunagæslu fyrir fyrrnefndan aðal.

  Skipan togaraskipstjórans Björns Vals Gíslasonar sem varaformanns í nefnd um endurskoðun um stjórn fiskveiða, manns sem launaður er af Brimi hf., þrátt fyrir að sitja á alþingi, sýnir vel hvernig VG ætlar að móta stefnu sína í þeim málum. Greinilega er litið svo á, á Vinstri græna bænum, að hagsmunir flokksins fari þrátt fyrir allt saman með hagsmunum útgerðaraðalsins í landinu.

  Og nú liggur fyrir að Vinstri grænir telja hagsmunum þjóðarinnar best borgið með því að vernda kvótaaðalinn til sveita. Jón Bjarnason fer að vísu undan í flæmingi þegar reynt er að ræða við hann um málið, en það sama verður ekki sagt um formanninn Steingrím J., sem af alkunnri rökfimi tekur undir málflutning félaga síns án þess að roðna meira en venjulega.

  Framsóknarflokkarnir eru sem sagt orðnir tveir og kemur víst ekki mörgum á óvart, hitt er öllu óljósara, hve margir Vinstri grænu flokkarnir eru, en fróðlegt verður að fylgjast með hvernig málin þróast hjá þeim.

  Ætla má að einhverjir úr hópnum fylgi Ögmundi í eyðimerkurgöngu hans meðal fallinna frumbyggja Ameríku og kvalara þeirra. Ekki er að efa að femínistar allra heima munu fylkja sér um Atla, meðan einkaeigendur umhverfisins hópa sig um Svandísi og lýðskrumarar allra landa mynda flokk með Lilju Mósesdóttur.  

Tillaga að lausn

4. ágúst 2010

  Mikill og kröftugur hvellur hefur orðið að undanförnu vegna ráðningar á Umboðsmanni skuldara. Auglýst var eftir umsækjendum, tveir voru metnir hæfir og annar þeirra ráðinn.

Það sem hins vegar hafði farið framhjá þeim sem um ráðninguna sáu var, að auk annarra kosta, þá hafði sá hæfasti einn kost sem ótalinn var, s.s. að hann var einnig sérfræðingur í því sem kalla mætti skuldahvarf.

  Ekki ónýtur eiginleiki fyrir þann sem ætlar að taka það að sér að semja um skuldahvörf við peningastofnanir fyrir umbjóðendur hins nýja embættis. En ekki er allt sem sýnist. Þannig er, að á tímum hinnar nýju siðbótar í íslensku samfélagi, þá er ekki pláss fyrir hvað sem er og skuldahvarf er einmitt eitt af því sem ekki má, a.m.k. ef hvarfið fer fram úr öllu hófi. Vegna þessa varð niðurstaða málsins að hafna þeim aðila sem býr yfir umræddri reynslu og reyna að finna einhvern til starfans sem ekki hefur kunnáttu í skuldahvarfagaldri.

 

Af þessu öllu hefur spunnist mikil umræða og eins og staðan er á þessari stundu þá er ekki annað að sjá en auglýst verði að nýju eftir hinum títtnefnda Umboðsmanni, því sá sem hæfastur var talinn er farinn og sú sem næsthæfust var talin vera, er að því eð virðist farin í fýlu og þar sem aðrir umsækjendur voru ekki taldir hæfir, hlýtur að þurfa að finna einhverja nýja til starfans. 

Blaðurfulltrúi VG, Björn Valur Gíslason, fer mikinn í yfirlýsingum og telur ráðninguna hafa verið pólitíska og af gamla tímanum. Nokkuð athyglisverð yfirlýsing frá VG þingmanni og vissulega verð allrar skoðunar og kannski rétt í leiðinni að skoða sitthvað fleira. 

Skemmst er að minnast frekar sérkennilegs tölvupósts sem lak út frá aðstoðarmanni menntamálaráðherrans, en í póstinum kom fram að manninum var ákveðinn líkamspartur kvenna svo ofarlega í huga að hann gat ekki um annað hugsað er hann var í raun að fjalla um Magma málið. Líklega vill þingmaðurinn að menn séu nútímalegir og ef til vill er þankagangur af þessu tagi bara í takt við tímann og við hin sem ekki kunnum að meta orðbragðið bara gamaldags. Þær eru líkast til safaríkar umræðurnar á fundum hinna Vinstri grænu ef talsmátinn er í takt við þetta og gott ef hormónastarfssemi flugunnar á veggnum á fundum þeirra fer ekki úr skorðum, svo ekki sé nú talað um hina náttúrulegu og frjóu Vinstri grænu fundarmenn. 

Tillaga að lausn í málinu gæti verið þessi: Björn Valur verði ráðinn umboðsmaður, en þar sem ekki er vitað til að hann sé sérfræðingur í skuldahvarfi, þá verði honum útvegaður aðstoðarmaður sem sitthvað kann fyrir sér í þeim efnum, fyrrverandi Borgarstjóri, þingmaður, forsætisráðherra, Seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri, svo fátt eitt sé talið. Björn gæti tekið að sér að vera blaðurfulltrúi embættisins á meðan Davíð Oddson tæki að sér skuldahvörfin og þá ættu báðir að geta fundið sig í hlutverkunum. 

Davíð er eins og alþjóð veit bæði röskur og fylginn sér, lögfræðingur að mennt (eins og hann hefur margbent á) og sannkallaður reynslubolti í því að vinna menn á sitt band ef á þarf að halda. Minnast má peningaúttektarinnar úr Kaupþingi forðum, einkavinavæðingu bankanna og snöfurmannlegrar stjórnar á Seðlabankanum þar sem honum tókst með undraverðum hætti að láta peninga hverfa. Því þá ekki skuldir líka? 

Einn er sá kostur við þessa lausn sem ótalinn er og það er að báðir mennirnir eru á launum frá hinu opinbera þannig að kostnaður ætti að verða lítill sem enginn. Annar kostur er að báðir færu við þetta að vinna þjóð sinni gagn í stað ógagns. Björn Valur gæti hugsanlega farið út með ruslið í stað þess að vera sífellt að gaspra um ekki neitt á alþingi. Davíð yrði hins vegar í skuldahvarfinu, þaulvanur maðurinn og allir gætu unað glaðir við sitt, nema náttúrulega kvótagreifarnir sem stæðu frammi fyrir því að þurfa að finna nýjan ritstjóra.  

Það er þó alls ekki víst, því allt eins má gera ráð fyrir að Davíð gæti skrifað Staksteina og leiðara í hjáverkum milli þess sem hann slægi óþæga bankastjóra í  kollinn með reglustikunni.