Enn um lánamál

25. júní 2010

Þann 23. júní skrifaði undirritaður hugleiðingar vegna dóms hæstaréttar varðandi svokölluð gengistryggð lán. Pistillinn var ritaður í hálfgerðum galsa, en nú skal reynt að bæta um og bæta nokkru við.

 

Á þeim tíma sem liðið hefur frá því pistillinn ,,Lán í óláni” var ritaður hefur ýmislegt verið að ljóstrast upp sem ritari vissi ekki  um áður. Nú liggur t.d. ljóst fyrir, að það var ekki bara Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi viðskiptaráðherra sem vissi allan tíman að lánin voru ólögleg. Alls ekki. Það vissu líka þingmennirnir sem enn sitja á þingi og greiddu á sínum tíma atkvæði með setningu laganna þann 19. maí 2001 þeir: Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson og Pétur Blöndal. Það vissu líka margir burt flognir þingmenn s.s. Davíð Oddson, Halldór Ásgrímsson og Kristinn H. Gunnarsson.

 

Það vekur athygli að Kristinn H. Gunnarsson skuli vera á þessum lista yfir menn sem vissu, en þögðu þunnu hljóði og furðuleg grein hans í ,,Fréttablaðinu” á dögunum þar sem hann leggur til að dómurinn verði að engu hafður hlýtur að skoðast í því ljósi, að þar tjáði sig maður sem vissi meira en hann lét uppi.

 

Er hinn almenni neytandi fer í verslun til innkaupa, hvort sem verslunin er greiðasalan á horninu, viðskiptabanki hans eða allt þar á milli, þá gerir hann ráð fyrir að verið sé að höndla með löglega vöru. Því er það, að þau sem ginntust til að taka gengistryggðu lánin og í langflestum tilfellum eru ekki lögfrótt fólk, reiknuðu vitanlega með því að um væri að ræða löglega gjörninga. Flestir hafa eflaust hugsað sem svo, að gera mætti ráð fyrir að krónan gæti hugsanlega sveiflast ca. 10% eða svo til eða frá, en það er algjör ofætlan venjulegu fólki að reikna með því að krónugarmurinn allt að því hyrfi, sem hún hefði líkast til gert ef ekki hefði verið gripið inn í.

 

Ábyrgð þeirra sem að lagasetningunni stóðu er mikil, en mest er hún þeirra sem allan tímann vissu, að á hverjum einasta degi var verið að gera ólöglega og stórvarasama lánasamninga, en sátu hjá og þögðu. Þeir þrír sem hér voru áður nefndir eiga vitanlega ekki nema einn kost í stöðunni, þ.e. segja af sér þingmennsku og hafna öllum eftirlaunum frá þjóð sinni. Hinir 33 fyrrverandi þingmenn, ráðherrar og seðlabankastjórar verða vitanlega einnig að víkja úr núverandi embættum, ef einhver eru og afsala sér eftirlaunum. Ekki er hægt að ætlast til að þjóð sem enn á ný stendur frammi fyrir því að þurfa að endurfjármagna bankakerfi sitt geti sætt sig við neitt annað.

 

Hinir, þ.e. þeir sem stýrðu lánastofnununum af blindri græðgi og einskis svifust, brutu lög og vissu að þeir voru að gera það, koma ekki til með að eiga sjö dagana sæla. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að allir sem ábyrgð bera á hinum ólöglegu lánum verði látnir fara þegar í stað og í þeirra stað fengið til starfa fólk sem ekki hefur stundað brotastarfsemi svo vitað sé.

 

Þau sem vissu en þögðu og ekkert sögðu, voru á þingi þegar umrædd lög voru samþykkt, en sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, þurfa að skoða hug sinn vel. Hvers vegna sátu þau hjá? Það veit ritari ekki, en gott væri að fá það upplýst.

 

Það er að koma æ skýrar í ljós að reikningurinn sem þjóðin þarf að borga eftir stjórnarár Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks verður stór. Afar stór. Einungis vextirnir af lánunum sem virkjuð voru á dögunum frá Norðurlöndunum og Póllandi er 12 milljónir á dag. Viðskilnaður flokkanna tveggja á sér engin dæmi í Íslandssögunni og verður vonandi lengi í minnum hafður.

Lán í óláni

23. júní 2010

Hvenær tekur maður lán og hvenær tekur maður ólán? Að taka íslenskt verðtryggt lán er ólán vegna verðtryggingarinnar, að taka óverðtryggt íslenskt lán er líka ólán vegna okurvaxta sem koma í stað verðtryggingar og að taka erlent lán, sem er raunverulega erlent, er líka ólán ef maður er íslendingur með tekjur í furðumyntinni ísl. krónur.

 

Líf hins skuldþyrsta íslendings er sem sagt fremur flókið, eða réttara sagt var það, þangað til hæstaréttardómurinn féll á dögunum og nú liggur það fyrir að ef maður er svo lánsamur að geta fundið einhvern lánfúsan og sem er nógu illa að sér í lögum, þá getur allt farið vel. Ólán verða að láni, svo er hinum vísu dómurum fyrir að þakka sem sáu villuna í lánasamningunum níu árum eftir að farið var að lána ólánin, sem nú virðast vera að breytast í lán fyrir lántaka, en að sama skapi martröð fyrir lánveitendur. Sannast þar hið fornkveðna að sá hlær best sem síðast hlær. Íslenskt peningakerfi er svo vitlaust, vanþróað og glært að ekki er til annars en hlæja að.

 

Stórasta land í heimi er þá bara það fáránlegasta þegar betur er að gáð, hafandi haft viðskiptaráðherra til margra ára sem fátt vissi kannski um viðskiptamál, en vissi þó að ekki mætti lána ólán sem tryggð væru í erlendri mynt og gætti þess vandlega að segja engum frá. Vafalaust rétt af Valgerði að þegja þunnu hljóði yfir vitneskjunni, því eflaust hefði enginn trúað framsóknarkonunni ef hún hefði opinberað sannleikann. Reynslan af stjórnsnilli framsóknarmanna enda slík, að fæstum hefði komið til hugar að taka mark á, ef varúðarorð hefðu komið úr þeirri áttinni - framsóknarmönnum fer víst flest annað betur en skynsamleg hagstjórn.

 

Deilt er um hver skuli borga. Lánveitendur vilja fá sitt og benda á Ríkið, sem eins og allir vita nema Vinstri grænir, er blankt. Gamall þingmaður og kunnur flokkaflakkari bendir á lánþegana og finnst þeir réttir til að borga, en þeir eru líka blankir og þar að auki nýbúnir að vinna málið fyrir hæstarétti. Það virðist hafa farið framhjá Kristni, enda ekki alltaf ljóst hvert hann er að fara í málflutningi sínum og er vorkunn þó hann ruglist dálítið í málinu, því hver gerir það ekki. Hundruð hámenntaðra lögfræðinga hefur í áranna rás legið yfir lánasamningunum sem til umræðu ertu og ekkert séð athugavert.

 

Merkilegt hve glögg Valgerður hin norðlenska er, að hafa tekið strax eftir veilunni og líklega eins gott að hún gætti þess að segja engum frá, því þá hefði þjóðin ekki getað sukkað eins verklega og raun ber vitni. Framsóknarmenn hafa haft þá skoðun að lán skuli ekki greiða heldur velta þeim yfir á aðra með alkunnum millifærslum. Hins vegar hafa þeir verið þeirrar skoðunar að ólán væru allt annarrar gerðar og því væri rétt og skylt að ólántakendur greiddu þau og því var það að þeir fundu upp hina alræmdu verðtryggingu sem enginn skilur, ekki einu sinni framsóknarmenn, sem þó hafa einstaka hæfileika til að greina kjarnann frá hisminu. Þeir sjá oft einfalda lausn á flóknum vandamálum og er tuttugu prósenta síbyljan gott dæmi þar um.

Frá því er greint í nýjasta tölublaði ,,Bændablaðsins” að nú sé því dreift með ,,Morgunblaðinu” og er það við hæfi.  Blað Bændasamtakanna styður að mestu sömu sjónarmið og blað sjávarkvótagreifanna og er gefið út af Bændasamtökunum. Rekstur þeirra er kostaður af þjóðinni og þau gefa út blaðið sem sent er inn á flest þau heimili landsins sem í dreifbýli eru, að öðru leyti liggur blaðið víða frammi og er fríblað. Minna má á að í landbúnaði ríkir kvótakerfi sem í flestu er jafn fáránlegt og óréttlátt og það sem er í sjávarútvegnum, þannig að sjónarmiðin í Hádegismóum og við Hagatorg falla eflaust í flestu saman.

  Morgunblaðinu er haldið úti til að berjast fyrir hagsmunum kvótagreifanna í sjávarútvegi og Bændablaðið er málgagn kvótagreifanna í landbúnaði og því er ekkert eðlilegra en að blöðunum sé slegið saman í eitt. Hagsmunirnir eru þeir sömu, kostunaraðilarnir eru einnig að hluta þeir sömu (þ.e. almenningur), þannig að í raun væri bara eðlilegast að blöðin rynnu saman í eitt og gæti nafn hins nýja blaðs þá t.d. Morgunbændablaðið eða kannski væri betra Bændamorgunblaðið. Hér með er lagt til að einhver hagur maður finni gott nafn á ritið, en vegna þess að gera má ráð fyrir að höfuðstöðvar hins nýja blaðs verði í Hádegismóum - ekki er svo líflegt í Bændahöllinni eftir að ráðstefnan góða var blásin þar af um árið - þá má hugsa sér að leggja til eitt nafn enn s.s.: Móabændablaðið.

  Þeir sem hrífast af íslenskri þröngsýni eins og hún gerist verst, nú eða best, eftir því hvernig á það er litið, geta nú glaðst yfir að hafa eignast málgagn sem stendur undir nafni, þ.e. þegar búið verður að finna því nýtt nafn. Í Sovétríkjunum sálugu var gefið út blað, sem reyndar kemur enn út og kallaðist ,,Rödd sannleikans” þegar einhver, sem taldi sig vera góðan í rússneskunni, fjallaði um ritið á gömlu Gufunni fyrir margt löngu. Hvort sú þýðing á nafninu ,,Pravda” er rétt ætlar ritari ekki um að dæma, en hins vegar var það haft fyrir satt að blað þetta væri ekki neitt sérstaklega góður fulltrúi fyrir sannar og áreiðanlegar fréttir á þeim tíma þegar Bréfsnef og  aðrir slíkir fulltrúar manngæsku og góðra gilda réðu ríkjum austur þar.

  Gera verður ráð fyrir að hið nýja sambræðslublað kvótahirðarinnar íslensku verði engu síðra en hið rússneska á sínum tíma og því er ekki neitt nema gott um það að segja að blöðin tvö renni saman. Það er vitanlega þægilegt að ganga að hlutunum á einum stað. ,,Einhvers staðar verða vondir að vera”, var víst sagt í eina tíð og alltaf er gott að geta gengið að hlutunum vísum. Þeir sem hafa hingað til talið sér trú um að ,,Bændablaðið” væri faglegt og hlutlægt blað, sem fjallaði um málefni landbúnaðarins á málefnalegan hátt sjá nú í gegnum grímuna. Það stendur nakið og rúið trausti líkt og keisarinn forðum.

  Hitt blaðið, hið gamla Morgunblað, hefur engu að tapa. Það traust, sem blaðið hafði þrátt fyrir allt skapað sér, fór forgörðum þegar blaðið komst í hendur kvótagreifanna og víst er að traustið jókst ekki við hin alræmdu ritstjóraskipti. Til að endurreisa blaðið þurfti að afskrifa nokkra milljarða sem að mestu féllu á íslensku þjóðina. Hefði blaðið haldið áfram að þróast í átt til víðsýns fjölmiðils eins og það hafði gert í mörg ár, hefði hugsanlega verið þess virði að endurreisa það, en svo fór ekki og ekki er því að treysta að vegur blaðsins aukist við samruna við Bændablaðið.

Unni Brá: Brá.

9. júní 2010

  Gott er til þess að vita að á Alþingi skuli sitja þingmenn sem alltaf og ævinlega eru tilbúnir að taka upp hanskann fyrir íslenska þjóð og ekki spillir að viðkomandi sitji á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Unnur Brá Konráðsdóttir er ein af þeim sem stendur á verði og gætir þess að ekkert það sé gert hérlendis né erlendis sem hrukkað eða gatað getur huluna sem breidd er yfir raunveruleikann, nefnilega þann að nákvæmlega engu máli skiptir hvort rætt er um hugsanlega aðild Íslands að ESB 17. júní eða hvern þann annan dag sem mönnum dettur í hug. Það er hins vegar einkar athyglisvert að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli finna fyrir ónotum af slíkri umræðu, flokksins sem ekkert á skylt við umræddan dag nema nafnið eitt.

  Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega alltaf verið flokkur ósjálfstæðisins, daðursins og hermangsins, að ógleymdri hagsmunagæslunni. Flokkurinn sem flaðraði af þvílíkum dugnaði upp um heimsveldið  í vestri að sárafá dæmi eru um annað eins í heimssögunni. Þegar Bandaríkin voru að murka lífið úr saklausri bændaþjóð í Asíu á síðustu öld, þá þótti Sjálfstæðisflokknum það bara gott. Þegar sama heimsveldi ruddist inn í Dóminíkanska lýðveldið var það líka bara gott og þegar fasistar steyptu löglegri stjórn Chile af stóli, þá var það Sjálfstæðisflokknum hreinasta ánægjuefni. Nýjast er svo það að flokkurinn styður og hefur alla tíð stutt hið ofbeldisfulla leppríki Bandaríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs og ekki er vitað um eitt einasta fólskuverk sem yfirvöld þar hafa framið sem Sjálfstæðisflokknum hafi ekki þótt afsakanlegt.

  Þingmaður sem situr fyrir Sjálfstæðisflokkinn er sem sé viðkvæmur fyrir 17. júní! Í hvaða heimi lifir konan? Veit hún ekki í hvaða stjórnmálaflokki hún er? Ef svo illa er komið fyrir henni, verður að gera þá kröfu til formanns Flokksins að hann hnippi í viðkomandi þingmann og vísi honum veginn, því ekki er gott ef þingmenn hins eðla flokks fara að brölta eftir mjóa veginum. Eins víst að á þeim vegi finnist ekki styrkir og vafningar svo sem þurfa þykir og því væntanlega best að vera ekkert að álpast á slíkar slóðir.

Sólin skín björt og fögur dag eftir dag, Eyjafjallajökull heldur í sér og hitastig daganna er sem um miðjan júlí sé á góðu ári, en sólin skín ekki alls staðar. Hún skín ekki í hjörtum fulltrúa spillingarflokkanna á alþingi, þeim líður illa og það svo að einn helsti fulltrúi Morfís- blaðursins er farinn að tala um smjörklípu og finnst þá sumum að verið sé að snúa faðirvorinu upp á andskotann.

  Enginn þarf að vera hissa á að hinn dagvistaði fyrrverandi Seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri málgagns kvótagreifanna, hafi áhuga á að fjalla um allt það sem að þeirri stofnun snýr, nema vitanlega gjaldþrotið sem snilli ritstjórans leiddi yfir bankann og þar með þjóðina. Hitt vekur meiri furðu að ,,önnum” kafnir alþingismenn, sem vel að merkja eru fulltrúar þeirra sömu afla og ritstjórinn þjónar, skuli hafa tíma til að gaspra um ekkert í tíma og ótíma.

  Bankastjórar sem ekki höfðu staðið sig voru látnir taka pokann sinn (ekki einu sinni sviptir svimandi háum eftirlaunum) og í staðinn var ráðinn maður sem getið hafði sér gott orð með störfum sínum erlendis. Maðurinn var ráðinn til starfans á mun lægri launum en hinir brott viknu höfðu haft hver um sig, þannig að allir sjá að hagræði af mannaskiptunum er talsvert. Ekki bara vegna þess að fjármunir til launa viðkomandi sparist þegar fram líða stundir, því einhvern tíma kemur að því að þeir losni af spena ríkissjóðs, heldur ekki síður vegna þess að gera má ráð fyrir að bankanum verði betur stjórnað hér eftir en hingað til.

  Glæpur forsætisráðherra á að vera sá að hún hafi hlutast til um að laun hins nýja seðlabankastjóra yrðu það sæmileg að hugsanlegt væri að hann fengist til starfans. Hefði hún gert það væri það ekki annað en gott og blessað, fyrst hin ringlaða þjóð vill endilega vera að montast við að reka sjálfstætt hagkerfi, sem reyndar er fullreynt að hún ræður ekkert við.

  ,,Hagkerfi” íslensku þjóðarinnar hefur ekki verið neitt annað en prívat hagkerfi spillingarflokkanna tveggja Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Því þarf ekki að koma neinum á óvart hve mikinn áhuga flokkarnir hafa á að halda óskapnaðinum við. Það kemur vitanlega ekki til af öðru en áhuga á að halda við hinu rotna kerfi spillingar og sérhagsmuna.

  Eyðimerkurganga Samfylkingar með hið ráðvillta og allt að því galna VG lið verður helst réttlætt með því að hugsanlega verði hægt að höggva örlítið í rætur spillingaraflanna, en vegna þess hve ráðvilltir græningjarnir eru og fljótir til að flaðra upp um spillinguna – sbr. Heimsýnardaðrið - , þá er ekki nokkur minnsta von til að hægt verði að uppræta allt það illgresi sem plantað hefur sér niður í íslensku samfélagi.

  Spillingaröflin sem fyrrverandi formaður flokksins sem kennir sig við sjálfstæði var búinn að koma auga á áður en lýðveldið var stofnað, áður en flokkarnir tveir voru farnir að helmingaskipta á milli sín hermangi og kvóta. Áður en þeir fundu upp á að ræna þjóðina öllum helstu stofnunum til þess að gefa þær flokksgæðingum.

  Ekki furða að styrkþegunum finnist þeir hafa efni á að gapa og reyna  að níða skóinn niður af heiðarlegu fólki sem er að reyna að uppræta óþverrann sem þeir sáðu.