Shangri-la

28. maí 2010

  Svandís, Lilja, Ögmundur, Atli, Ásmundur, Jón, Álfheiður, Steingrímur… Svandís er ráðherra, það er Álfheiður líka og svo vitanlega Steingrímur, en ekki er víst alveg öruggt að Jón verði ráðherra til lengdar, þó hann sé það í dag. Landbúnaðar- Jón og sjávarútvegs er ekki alveg öruggur með að fá að halda stöðu sinni í ríkisstjórninni og víst er að eftirsjá verður að honum fyrir þau sem gaman hafa af uppákomum allskonar. Jón hefur nefnilega haft alveg einstakt lag á að vekja á sér athygli, en hvort það hefur verið honum og málaflokkum þeim sem hann fer með til framdráttar er annað mál, en íslenska þjóðin hefur alltaf gaman af sérkennilegum einstaklingum og kann því vel að meta þá takta sem Jón hefur tamið sér. Jón brosir ævinlega í viðtölum, líkt og Skötuselurinn sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, segir oft eitthvað skondið og furðulegt og þjóðin skemmtir sér.

  Forveri hans, sá sem var á undan Einari vestfirðingi, hafði það fyrir sið að kyssa bæði kýr og strúta til að vekja athygli á hve yndislegar þessar skepnur eru; fékk að vísu í magann af kossaflensinu við þá síðarnefndu, en það jafnaði sig allt saman. Jón gæti allt eins tekið til við að gera eitthvað í þessu líkt og er þá alveg öruggt að engum mun leiðast sem á horfir. Hver gæti t.d. ekki hugsað sér að horfa á Jón í faðmlögum við sætan og krúttlegan hrút sem ekki er búið að súrsa, nú eða þá gölt sem ekki er orðinn að beikoni. Huggulegur geithafur með laglegt hökuskegg tæki sig líka ábyggilega vel út í víðum faðmi Jóns, en ekki er víst að við fáum nokkurn tíma að njóta þessa og það er miður.

  Nú mun vera komið að því að hagræða í Stjórnarráðinu og finnst mörgum að það megi ekki seinna vera. Til stendur að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt og því er það að styttast mun í ráðherratíð Jóns, þessa uppáhalds allrar þjóðarinnar, en Jón getur þó alltaf gengið í Besta flokkinn hjá nafna sínum og þar á hann heima. Ekki vegna þess að hann sé svo góður í að segja aulabrandara, því enginn kemst með hælana þar sem Jón besti hefur tærnar í því efni, heldur vegna þess að Jón græni gæti dempað nafna sinn niður með súru þegar Jón besti gengur of langt í glöðu (sem hann náttúrulega gerir aldrei).

  En ef Jón gengur í Besta flokkinn, eða það sem betra væri, stofnar Besta flokksdeild fyrir norðan, hvað verður þá um félaga hans? Ásmundur gæti náttúrulega stofnað Bestu flokksdeild í Dölunum og auðvitað er bara sjálfsagt og eðlilegt að Svandís stofni mannasiðadeild á vegum Besta flokksins í Reykjavík. Álfheiður gæfi svo öllu liðinu heilbrigðisvottorð (ekki áminningu), Lilju, Ögmundi og Atla, ekki mun af veita. Ekki er gott að segja hvað verður um Steingrím ef þetta gengur eftir, hann hefur jú eiginlega ekki gert annað en reyna að vera til friðs eftir að hafa klúðrað Icesave- inu, en hugsanlegt er að finna mætti honum hlutverk í Brussel.

__ __ __

 

  Fyrrverandi útvarpsmaður steig fram og kvað upp úr með að samflokkskona hans, sem ekkert hafði til sakar unnið annað en vera dugleg við að afla fjár til að standa straum af kosningabaráttu sinni, skyldi útlæg úr pólitíkinni vera og segja af sér. Þáttagerðarmaðurinn telur sér greinilega trú um að sviðið verði hreinna fyrir framabrölt hans í pólitíkinni þegar borgarstjórinn fyrrverandi er farinn úr þeirri sömu tík. Vonandi er ekki verið að kasta steinum úr glerhúsi, tíminn mun leiða það í ljós. Lausir ganga hins vegar á eftirlaunum, kreistum undan nöglum almennings í landinu, vitringarnir þrír sem höfðu það af með snilli sinni að setja Seðlabankann á hausinn. Enginn nefnir þá og greinilegt er að ekki á við þeim að hrófla.

   Það hefur stundum þótt skynsamlegt að velja sér andstæðinga við hæfi og ekki mun vera verra ef þeir finnast innan eigin raða.

 Eftirfarandi grein birtist í ,,Sunnlenska fréttablaðinu” fimmtudaginn 20. maí 2010:

Í ,,Sunnlenska fréttablaðinu” þann 12. maí er haft eftir Ólafi Sigurjónssyni að …stór hópur [manna] sé agndofa og ævareiðir… og ekki er annað af textanum að skilja en að hinn ævareiði hópur tilheyri Flóahreppi. Þetta geta ekki talist góðar fréttir, ef sannar eru, því vitað er að þegar reiðin er komin á þetta stig getur svo farið að rökrétt og skipuleg hugsun fari forgörðum. En hvers vegna eru menn svona reiðir?

  Jú, ástæða reiðinnar er, að sögn Ólafs, að sveitarstjórn hreppsins hefur loksins tekið á sig rögg og ráðist í að finna lausn á viðvarandi vatnsskorti í hreppnum. Hún felst í því að gerður var samningur við Sveitarfélagið Árborg um að þaðan verði veitt vatni inn á dreifikerfi Flóahrepps og yfir þessu eru þeir reiðir, að sögn Ólafs. Reiðin sem um er rætt snýr ekki að því að svo illa sé komið málum Vatnsveitu Flóahrepps vegna skeytingarleysis fyrrverandi sveitarstjórna að grípa þurfi til neyðarúrræða til að leysa málin, enda væri reiðin þá búin að vera kraumandi um mörg liðin kjörtímabil.

  Til upplýsingar er rétt að geta þess að vatnsveitu þeirri sem er til umræðu, var komið upp á áttunda áratug síðustu aldar og var hún á þeirrar tíðar mælikvarða allmikið framtak. Hvernig að framkvæmdunum var staðið mætti margt um segja, en ef til vill réði þar meira kapp en forsjá, enda þörfin fyrir vatn afar brýn. Neysluvatn á svæðinu hafði frá öndverðu verið bæði lítið og gæði þess léleg, misjafnt eftir bæjum, en víða var ástandið ekki gott, einkum þar sem engar uppsprettulindir var að finna. Ráðist var í að virkja lindir sem koma upp undan holtunum við Hurðarbak og Þingdal svokallaðar ,,Ruddakróks- og Samúelslindir”. Þó vatnið í þeim sé talið koma undan holtunum, þá er málum svo háttað að lindirnar eru í mýri neðan við holtin. Engar raunhæfar ráðstafanir virðast hafa verið gerðar til að fyrirbyggja að mýrarvatnið renni saman við uppsprettuvatnið og því er það þannig að gæði vatnsins hafa verið afar lítil. Þar að auki eru lindirnar á svæði þar sem nær engar líkur eru á miklu og góðu neysluvatni, þó vissulega sé um mikla bót að ræða frá því sem áður var. Nú er þó rennandi vatn að öllum bæjum, þó gæði þess séu engan vegin nægjanleg. Auk þess hefur borið á því að lindirnar afkasti ekki lengur eins og áður og kenna menn undanförnum jarðhræringum um, auk þurrkakafla sem gengið hafa yfir.

  Fyrrverandi sveitarstjórnir í Villingaholtshreppi hundsuðu allar ábendingar um að gæði vatnsins væru ekki nægjanleg og gerðu ekkert til að rannsaka vatnssvæðið í Bitrulandi. Slík rannsókn tekur tíma þó Ólafur telji svo ekki vera og nú er svo komið að málið þolir enga bið. Lausnin sem gripið hefur verið til er vitanlega engan vegin nægjanleg og sjálfsagt hlýtur að vera, að kannað sé hvort gott og mikið vatn sé að hafa í Bitru. Lausnin sem undirritaður hefði viljað sjá, hefði falið það í sér að mýrarlindirnar sem nú eru í notkun hefðu verið lagðar niður, en samkvæmt lýsingu sveitarstjórnar stendur ekki til að gera annað en tryggja vatnsmagnið, með því að dæla vatni undan Ingólfsfjalli saman við sullið úr fyrrnefndum lindum.

  Reiði Ólafs og félaga virðist vera algjörlega óþörf. Hún beinist aðallega að því að Flóahreppur komi ekki til með að rísa undir kostnaði þeim sem af framkvæmdunum hlýst. Hér er um einhvern misskilning að ræða því umræddur kostnaður fellur ekki á hreppinn þar sem Landsvirkjun kemur til með að greiða hann, verði Urriðafossvirkjun að veruleika.

  Ólafur og félagar þurfa ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af því máli, það er ekkert sem bendir til annars en að af virkjuninni geti orðið og óskandi að ekkert komi fyrir sem hindri það. Nægar eru náttúruhamfarirnar búnar að vera að undanförnu, þó ekki komi til þess að Þjórsá hætti að renna í farvegi sínum.

  Einhvern tíma kemur samt að því, en vonandi er að þá verði virkjunin löngu búin að borga sig upp, landi og þjóð til heilla.      

Á Ríkissjónvarpinu hafa verið sýndir Breskir lögregluþættir sem ganga undir nafninu ,,Barnaby leysir gátuna” og fjalla þættirnir um lögreglumann á einni af Ermasundseyjunum.  

Við Íslendingar erum svo heppnir að eiga okkar útgáfu af slíkum snillingi, mann sem leysir hverja þraut, hræðist ekkert, gengur í verkin og nær árangri. Að vísu barst sú frétt á dögunum að til stæði að innkalla ,,leikbrúðuna”, eins og þeir leifðu sér að kalla Jón Bjarnason okkar á fréttastofu Baggalúts. Vitanlega kemur ekki til greina að heimila slíkt, svo mikla lukku sem Bjarnason vekur hér á landi. Hver vill missa af því þegar Bjarnason lendir í sjónvarpsviðtali, eða ræðir málefni súrmetisins á Búnaðarþingi?

 

Ráðherra kvótagreifa í sjávarútvegi og landbúnaði hefur enda staðið sig nokkuð vel í því að vekja furðu og kveikja þá tilfinningu í hrundum brjóstum Íslendinga að þeir séu nú þrátt fyrir allt mestir og bestir, ef ekki í því að gera eitthvað af viti, þá að minnsta kosti í því að gera hið gagnstæða. Þetta tekst ekki hverjum sem er og því er það, að ómetanlegt er að hafa slíkan vormann í Stjórnarráðinu. Mann sem veit og getur flest öðrum betur, hefur ráð undir rifi hverju og leysir málin.

 

Þjóðin hrundi sem sagt niður í það að kjósa til valda afl þar sem hver höndin er upp á móti annarri, kannski sem betur fer, því ekki er gott að segja hvaða óskunda þeim VG-ingum tækist að fremja, ef þau slysuðust til að standa saman. Fyrirmyndin að Bjarnfreðarsyni, sem búið var að gera að ráðherra, hrökklaðist úr embætti við lítinn orðstír og sú sem við af honum tók vekur litla lukku, það gerir umhverfisráðherrann ekki heldur og fjármálaráðherrann hljómar eins og rispuð plata sem hrekkur alltaf í sama farið aftur og aftur.

 

Nú er upplýst, ef eitthvað er að marka fréttir, að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrann hefur a.m.k. tvær mismunandi skoðanir varðandi forréttindastéttirnar sem búnar voru til í íslensku samfélagi þegar úthlutað var svokölluðum ,,kvóta” í atvinnugreinunum sem undir hann heyra. Annars vegar er um að ræða kvótagreifana í sjávarútvegnum, sem ráðherrann segist vilja innkalla kvótann frá á heilum tuttugu árum, hins vegar eru kvótagreifar landbúnaðarins sem ekki stendur til að hrófla við. Bæði kerfin bera keim af spillingu hins gamla samfélags, sem óskandi væri að stjórnmálamenn frá vinstri hefðu kjark til að breyta.

 

Svo virðist ekki vera, því annars vegar á til málamynda að gaufa við kvótainnköllun á aldarfimmtungi og í hinu tilfellinu ekki að gera neitt, en það virðist reyndar vera hið leynda kjörorð Vinstri grænna. Það er ekki svo að sjá, að stjórn hinna sundruðu og klofnu Vinstri grænu og Samfylkingarinnar hafi burði til að leiðrétta eina stærstu svívirðuna í íslensku samfélagi, kvótasukkið. Það er miður, því flokkarnir verða m.a. dæmdir af árangri í leiðréttingu þessara mála og það hlýtur að vera hverjum hugsandi manni ljóst hve gengdarlausir fjármagnsflutningar hafa átt sér stað út úr atvinnugreinunum báðum með kvótasölu og kvótaleigu.

Kvótakerfið hefur  orðið til þess að nær ómögulegt er fyrir nýja aðila að hasla sér völl, þar sem kvótinn er orðinn verðmæti í sjálfu sér og ekki bætir úr, að Lánasjóður landbúnaðarins, sjóður sem byggður var á félagslegum grunni, var lagður í rúst af ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Það var reyndar gert undir því yfirskini að efla ætti Lífeyrissjóð bænda, en svo er að sjá sem peningarnir sem fyrir sjóðinn fengust, ef hann var þá í raun greiddur, hafi að mestu farið í að byggja reiðhallir vítt og breitt um landið.

Pollapólitík

17. maí 2010

Þátturinn ,,Á Sprengisandi” var á dagskrá á útvarpsstöðinni Bylgjunni sunnudagsmorguninn 16. maí. Í þeim hluta þáttarins sem undirritaður varð áheyrandi að tóku þátt þau Valgerður Bjarnadóttir alþingismaður, Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður og Örn Arnarson blaðamaður. Sigurjón M. Egilsson stýrði þættinum og hóf umræðuna með því að taka fyrir Evruna og vandamál Grikkja sérstaklega í því samhengi. Sneri hann málinu að Valgerði og vildi fá hennar skoðun á málinu, s.s., hvort samstarf Evrópuþjóða væri að fara í hundana, Evran ætti undir högg að sækja o.s.frv..

 

Valgerður svaraði vel og málefnalega að vanda, ræddi málið á mannamáli, benti á að fjármálakreppan herjaði á allan heiminn og minnti á að vandræði Grikkja væru þeim sjálfum að kenna. Þeir hefðu hegðað sér á óábyrgan hátt í fjármálum, hegðað sér eins og ,,bavíanar”, rétt eins og Íslendingar, en öfugt við okkur þá kæmi ESB til hjálpar þar sem Grikkir væru aðilar að því samstarfi.

 

Örn tók það fremur óstinnt upp að Grikkir væru kallaðir bavíanar og kom í framhaldinu með þá bráðsnjöllu kenningu að það væri nú munur á að við hefðum blessaða krónuna okkur til bjargar og því þyrftum við ekki að lækka launin (svo!), öfugt við aumingja Grikkina sem ekki ættu völ á öðru vegna Evrunnar. Alveg hafði farið framhjá blaðamanninum að laun hefðu lækkað á Íslandi; ef ekki í krónum þá hafa víst flestir tekið eftir því að kaupgetan hefur stórlega minnkað.

 

Það var síðan Unnur Brá sem toppaði bullið, þegar hún fór að halda því fram að það eitt að sótt hefði verið um inngöngu í Evrópusambandið hefði valdið því að tvíhliða samningar við Kínverja væru í uppnámi. Það er sem sagt framtíðarsýn hinnar ungu sjálfstæðiskonu að íslenskur verkalýður skuli keppa við kínversk starfssystkin sín. Á þessu tuðaði konan á milli þess sem hún gaspraði um að nú væri komið að því að horfa þyrfti til framtíðar!

 

Það verður að segjast eins og það er, að varla getur framtíðin verið björt þegar vonarstjörnur, þess sem einu sinni var stærsti flokkur þjóðarinnar eru gjörsamlega ljóslausar og kunna ekki annað fyrir sér en að láta eins og ærslafullir krakkar sem stampa í vatnspolli. Það er auðveldlega hægt að skilja að barnið hafi gaman af leiknum, en hlýtur að mega ætlast til að fólk sem búið er að láta kjósa sig til þingmennsku og er vel að merkja ekki í Vinstri- grænum, láti af barnaskapnum og fari að hugsa málin í alvöru. Ekki kom fram í umræðunni af hálfu blaðamannsins né þingkonunnar að ástæða þess hvernig komið er fyrir íslensku samfélagi mætti rekja til galla í samfélagsgerðinni; hafi þau tæpt á því þá fór það framhjá hlustanda. Vitanlega er svo sem ekki við því að búast að þingkona Sjálfstæðisflokksins, flokks kvótagreifa, hermangs, helmingaskipta og hagsmunagæslu vekti athygli á slíkum hlutum, en blaðamaðurinn hefði hugsanlega getað leitt hugann að því.

 

Valgerði og Sigurjóni var nánast vorkunn að þurfa að láta sem svo að fram færi vitræn umræða um málið, en þau héldu út og eiga heiður fyrir það. Þau sem á heyrðu vita enn betur en áður hvernig Heimssýnarhópurinn hugsar, horfir á naflann og virðir veröldina fyrir sér í gegnum örgrannt rör.

Þórðargleði

13. maí 2010

Þessa dagana ríkir gleði í íslensku samfélagi, en sú gleði er ekki einlæg og fölskvalaus. Það er komin út skýrsla sem rekur hvernig svo fór sem fór, að spilling, græðgi, sérhygli og skeytingarleysi um hag náungans varð alls ráðandi meðal svo alltof margra. Ekkert sem þar er fram dregið hefur komið þeim verulega á óvart sem fylgst hafa með í samfélaginu undanfarna áratugi.

 

En Skýrslan er ekki ein á ferð, síður en svo. Á sínum tíma var skipaður ,,Sérstakur saksóknari” til að fara yfir málin og sækja til saka þá sem við ætti og árangurinn af störfum hans er óðum að koma í ljós. Jakkafataklæddir ,,peningamenn” eru hver af öðrum leiddir í tukthús til að vera þar í geymslu á meðan mál þeirra eru til frekari skoðunar.

 

Skilanefndir eru einnig að störfum og frá þeim berast fregnir smátt og smátt og ekki allar fagrar frekar en við er að búast. Skilanefnd Glitnis virðist vera komin einna lengst, að minnsta kosti er svo komið að búið er að stefna einum aðalleikaranum á sviði peningaleikhússins og er þetta er ritað vantar það helst að finna heimilisfang hins fræga manns til að hægt sé að birta honum stefnu. Fjölmiðlum hefur hins vegar tekist að hafa samband við manninn og ef eitthvað er að marka það sem eftir honum er haft, þá er þetta allt saman runnið undan rifjum Davíðs ritstjóra og fyrrum borgarstjóra, alþingismanns, forsætisráðherra og Seðlabankastjóra m.m..  Afreksmaðurinn í Hádegismóum ber sem sagt ábyrgð á þessu öllu ef marka má Bónusbóndann. Ekki gott um að dæma fyrir oss óinnvígða, armur bláu handarinnar mun vera langur og kannski er lengd hans næg til þess að framvegis megi henni kenna um allt illt sem hendir.

 

Hvort sem armur hinnar bláu handar er langur eður ei, þá er hitt víst að armur laganna er það og því munu flestir vera fegnir, en greinilega ekki allir. Til eru þeir sem vilja fá að hegða sér eins og þeim sjálfum sýnist. Virðast telja að þeir séu á einhvern hátt yfir það hafnir að þurfa að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Reynt var að rétta yfir slíkum hóp í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur og gekk það heldur stirðlega vegna skrílsláta sem hópur fólks hafði uppi þar á staðnum. Ekki er annað vitað en þetta sama fólk vilji að réttað sé yfir fjárglæframönnunum, yfir þá á réttvísin að ná, en ekki þau sem svívirtu Alþingi. Lögin eiga að því eð virðist að ná einungis yfir suma en ekki aðra. Hvert er stefnt?

 

Hetjurnar hugprúðu, sem létu öllum illum látum við Alþingishúsið og víðar, eru þá ekki hugprúðari en svo, að þegar kemur að því að taka afleiðingum gerða sinna telja þær sig vera á einhvern yfirskilvitlegan hátt hafnar yfir lög og rétt. Er það sem þau vilja þá þannig að lög landsins gildi bara um suma en ekki aðra og er það framtíðarlandið sem þau sjá fyrir sér?

 

Hvernig halda menn að hefði farið ef lögreglan og síðan almennir borgarar hefðu ekki gripið í taumana þegar skrílslætin stóðu sem hæst? Gera má ráð fyrir að Alþingishúsið og Hótel Borg væru rústir einar að viðbættu Stjórnarráðinu og eflaust fleiri stofnunum. Ef svo illa hefði tekist til, gætu hin hugdjörfu í sakborningastúku Héraðsdóms líklega glaðst yfir vel unnu verki og  drægi það væntanlega ekki úr ánægjunni, að gera má ráð fyrir að samfélagið væri að mestu orðið samfélag ómennskunnar. Var Hrunið ef til vill ekki nóg fyrir þetta fólk?

 

Gott er til þess að vita að þessi sjálfskipaði her alþýðunnar skuli eiga sér aðdáendur og stuðningsmenn hjá Vinstri- grænum. Það er ekkert sem kemur á óvart. Þau vilja sjá um sína, gæta þeirra og vernda. Ást þeirra á skrílnum er eins og við var að búast, því sagt er: að sækist sér um líkir. Það hefur þá sannast.     

Þau okkar sem horfðu á sjónvarpsfréttir á sunnudagskvöldið urðu vitni að allsérstæðum atburði þegar fréttamaður gerði tilraun til að eiga vitrænt samtal við ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Atburðurinn átti sér stað á planinu fyrir framan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu, en þar var ráðherraliðið að koma saman til fundar á óvenjulegum tíma og því var það, að fundurinn hafði vakið áhuga fréttamanna.

 

Þar kom að ráðherra sá sem kynnt hefur sig til sögunnar sem sérlegan fulltrúa súrmetisins að því viðbættu að vera bæði titlaður landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra mætti á staðinn og er ekki að orðlengja að þar upphófst ein pínlegasta sýning á taugaspennu sem sést hefur í sjónvarpi. Ýmsar hafa þær verið uppákomurnar, en þessi slóg þeim flestum við, því maðurinn sem öllum þessum titlum er hlaðinn virtist vera gjörsamlega úti á túni ef ekki bara - í súru.

 

Í stuttu máli gekk leikritið þannig fyrir sig að fréttamaðurinn spurði sem svo hvernig ráðherranum litist á hagræðingu í stjórnarráðinu, þá sem felur það í sér að fækka ráðherrum um þrjá og sameina ráðuneytin. Svar ráðherranns var eitthvað á þá leið að hann hefði verið að spjalla við bændur á öskusvæðunum og ekki hefði nú veitt af að hressa þá dálítið upp. Þar hefði nú verið mikil aska o.s.frv.. Eftir að hafa fimbulfambað í þessum dúr, gerði maðurinn sig líklegan til að skunda í burtu, en furðu lostinn fréttamaðurinn krafði svara við spurningu þeirri sem upp hafði verið borin og eins og ýtt hefði verið á takka stóð bunan út úr ráðherranum að nýju. Sýningunni lauk síðan á því að ráðherrann gekk afturábak í átt að bústaðnum og mátti öllum ljóst vera að þar fór maður sem ekki var í góðu jafnvægi.

 

Hvað skyldi það hafa verið sem kom hinum virðulega ráðherra út af sporinu?  Eldgosið, kreppan, icesave? Nei, ekkert af þessum smámálum hvíldi svo þungt á honum þessa stundina, það var allt annað sem á honum hvíldi. Það sem hafði komið manninum svo algjörlega úr jafnvægi, var sú þungbæra staðreynd að líkast til væri ráðherradómur hans senn á enda og öllum væri sama, nema honum sjálfum og þeim sem vörpuðu öndinni léttar hugsandi sem svo: Að senn væri einni forneskjunni færra í íslenskri stjórnsýslu.

_ _ _

 

Ráherrann sem ekki þorði að láta sjá sig á auglýstum fundi daginn áður var flokkssystir Jóns, umhverfisráðherrann, sú sem uppnámi hefur valdið með framkomu sinni í garð Flóahrepps. Konan hafði boðað komu sína á fund í hreppnum, en þegar til kastanna kom þorði hún ekki að mæta og sendi flokksbróður sinn Atla Gíslason í staðinn. Atli reyndist vera of önnum kafinn til að mega vera að því að sinna slíkum erindum, en fór þó örstutt í pontu og lét sig síðan hverfa eftir að hafa svarað einni eða tveimur spurningum sem að honum var beint.

 

Þegar þarna var komið var Flóabúum ljóst að mikil og þung ábyrgð hvílir á hinum vinstri grænu fulltrúum umhverfisins og er engu líkara en að þeir séu við það að sligast undan þunganum og erfiðinu sem á þau hefur hlaðist.

_ _ _

 

Vinstri- græn vilja af algjörlega óútskýrðum ástæðum losna við ópólitísku ráðherrana úr ríkisstjórninni. Nema skýringin sé sú að þeim standi af þeim ógn. Ógn þess sem finnur til vanmáttar, er hann ber sig saman við þann hæfileikaríka. Vonandi tekst þeim ekki að hrekja þau á braut og óskandi að Samfylkingin hafi getu til að standa gegn slíkum hugmyndum.

Ef ekki getur farið að styttast í núverandi stjórnarsamstarfi.   

Meira um traust

7. maí 2010

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um traust, hvernig það verði til, hvernig best sé að byggja það upp og láta það endast. Sitt sýnist hverjum sem vonlegt er, því um er að ræða fremur þokukennt hugtak sem ekki er gott að festa hendur á. Sumir treysta á mátt sinn og megin, meðan aðrir telja öruggara að treysta á guð almáttugan, en víst er að flestir verða að treysta á eitthvað, en hvernig verður traust til?

 

Kannanir hafa sýnt að traust er fremur lítið á alþingismönnum, en svo annað dæmi sé tekið þeim mun meira á lögreglunni og er svo að sjá sem traustið á henni hafi aukist mjög eftir að hún tókst á við lýðinn fyrir utan Alþingishúsið í búsáhaldabyltingunni. Ekki er samt alveg öruggt að óhætt sé að álykta sem svo, að ef þingmenn hefðu mannað sig upp í að stíga fram og ganga til liðs við lögregluna, að þá hefði traustið á þeim aukist að sama skapi. Hreint ekki því öruggt má telja að við það hefði lýðurinn espast upp um allan helming og skeytt skapi sínu bæði á lögreglunni og þingmönnum og í framhaldinu hvorugum aðilanum treyst.

 

Hins vegar virðist sem pottberjendur hafi kunnað nokkuð vel að meta framgöngu þeirra þingmanna sem gengu út úr þinghúsinu til að blanda sér í hóp búsáhaldahersins. Að minnsta kosti er ekki annað að sjá en stuðningur við V.G. hafi aukist í beinu hlutfali við ábyrgðarleysi þeirra og nú er það talið þeim helst til tekna, að aldrei hafi þeir gert neitt misjafnt vegna þess að þeir gerðu vitanlega aldrei neitt og sá sem ekkert gerir, gerir ekkert rangt, eða hvað?

 

Hvort er betra aðferð til að skapa sér traust, að puða daginn langan við að leita leiða til að breyta og lagfæra regluverkið um meðferð skuldamála í þeim tilgangi að bjarga almenningi út úr feninu, eða að stökkva fram eins og köttur á bráð, í hvert sinn sem tækifæri gefst til að vinna sér stundarvinsældir og frægð eins og Lilja Mósesdóttir hefur hvað eftir annað gert sig seka um undanfarið. Á meðan ráðherrar ríkisstjórnarinnar einkum Árni Páll félagsmálaráðherra, streða í raunheimi við að finna lausnir á vanda heimilanna slær hún um sig með eilífum og draumkenndum einleikstilburðum, eins og til að sanna að samlíkingin um VG og Kattholt sér rétt, sem hún vissulega er.

 

Hefði þjóðin borið gæfu til að fá ekki fjármálaráðherra sem er með Evrópufælni, landbúnaðarráðherra sem fastur er í súrmetinu, umhverfisráðherra sem sér ekki út fyrir naflann á umhverfisofstæki sínu og heilbrigðisráðherra sem þjakaður er af valdhroka, væri eflaust öðruvísi um að litast í íslensku samfélagi. Gera mætti ráð fyrir að icesave þvælan væri leyst, þjóðin væri á hraðferð inn í Evrópusambandið og atvinnulífið farið að mjakast af stað.

 

Á meðan fréttamennirnir eru uppteknir við að velta sér upp úr því hvort Seðlabankastjórinn hefur 400 þúsundunum meira eða minna blæðir þjóðinni, m.a. vegna þess að enn er verið að greiða fyrrverandi Seðlabankastjórum, sem samkvæmt Skýrslunni reyndust vanhæfir til starfa, himinhá eftirlaun. Enginn talar um það nema Þorvaldur Gylfason og er það ekki í fyrsta skiptið sem hann er eins og hrópandinn í eyðimörkinni.

 

Það eru víst ekki miklar líkur til að á hann verði hlustað nú fremur en endranær, því það er íslenskri þjóð margt annað betur gefið en að hlíta góðum ráðum, eins og sannast hefur svo rækilega.   

Traust

2. maí 2010

Eftir að hrun bankakerfis þjóðarinnar hófst á haustdögum árið 2008 hefur svo brugðið við að ólíklegasta fólk er farið að ræða um stjórnmál. Um nokkuð langan tíma fram að því hafði það ekki verið vel séð að rætt væri um pólitík og hafði jafnvel þótt bæði hallærislegt og gamaldags.

Allt var svo yfirmáta gott í ,,stórasta” landi í heimi að ekki var talin þörf á að fólk, svona almennt talað, væri að fimbulfamba um málefni sem betur væru komin í faðmi alvitringa eins og t.d. Davíðs Oddssonar. Þeir sem ekki kunnu að haga sér hvað þetta varðar voru svo einfaldlega lagðir niður, eða að minnsta kosti stofnanir þeirra, samanber Þjóðhagsstofnun og hafðir voru uppi tilburðir til að þagga niður í öðrum, sem ekki voru tilbúnir til að fylgja hinni ,,réttu” línu. Hver man t.d. ekki eftir því hvernig reynt var að þagga niður í forstöðumanni Félagsvísindastofnunar H.Í. er hann sýndi fram á með vísindalegri úttekt að skattbyrði hefði aukist á lágtekjufólki á sama tíma og skattar á hinum betur megandi hefðu lækkað.

Alþingismaðurinn Pétur Blöndal lét, svo eitt dæmi sé tekið, hafa sig í það að koma fram í Kastljósi til þess að halda því fram að svart væri hvítt hvað þetta varðar og gott ef hann notaði ekki tækifærið til að mæra enn einu sinni eignabóluna með því að segja sem svo: Sjáið þið ekki hvað þetta er gott, þó skuldirnar hjá fólki séu alltaf að aukast þá er það bara af hinu góða vegna þess að eignirnar eru alltaf að hækka í verði…  Spóla sem réttast væri að spiluð væri við upphaf hvers fundar hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Og nú er talað um traust.

Hver spekingurinn eftir annan kemur fram og segir sem svo að það sé ekki neitt traust eftir í samfélaginu, traustið sé farið og einkanlega það traust sem fólk hafi borið til stjórnmálamanna. Það var og. Hér er eitthvað málum blandið, því bæði er að það er nokkuð óljóst hve mikið traustið var sem borið var til þeirrar stéttar fyrir Hrun og eins hitt að svo er að sjá sem traust það sem borið er til Hrunflokkanna sé bara nokkuð bærilegt þessa dagana.

Hrunflokkur númer eitt hlýtur að teljast vera Sjálfstæðisflokkurinn og ekki er að sjá að það vefjist neitt fyrir formanninum að halda um það bil 30% fylgi. Það hlýtur að mega túlka sem svo að þrír af hverjum tíu telji flokkinn traustsins verðan. Viðhengið Framsóknarflokkurinn, sá sem lék hlutverk rakkans í tólf ár er síðan með um og í kringum 10%, sem vitanlega er ekkert sérstaklega langt frá því sem hann hefur haft, þó það hafi stundum verið meira.

Með öðrum orðum: Tæplega helmingur þjóðarinnar telur þá sem leiddu hana inn á veg glötunarinnar vera traustsins verða! Svipað hlutfall telur að vandinn sé útlendingum að kenna, þeir sitji um hina einstöku íslensku afburðaþjóð og vilji koma henni á kaldan klakann. Þar fer  Bessastaðabóndinn fyrir, gefandi í skyn að ef allt um þrýtur, þá sé nú alltaf góður möguleiki á að Katla gamla vakni af dvalanum og sendi umheiminum þá kveðju sem mikilmennskubrjálaðir Íslendingar geti ekki sjálfir komið frá sér. Lengra verður tæpast komist í því að kalla á Kölska sér til fulltingis.

Sagt er að hver þjóð fái þá stjórn sem hún á skilið, ætli það geti ekki verið tilfellið?