Hinir kusklausu

20. apríl 2010

,,Skýrslan” kom þá út á endanum. Risavaxið plagg sem margir voru búnir að bíða eftir. Undirritaður hafði allt eins búist við því að útgáfu hennar yrði frestað að minnsta kosti fram að næstu jólum og hefði svo farið, þá hefðu ekki aðrar bækur við hana keppt. En hún er sem sagt loksins komin út; mikið verk, vel unnið og merkilegt að sögn þeirra sem lesið hafa og reyndar er ekki alveg laust við að grunur læðist um að ef til vill hafi ekki allir þeir sem lýst hafa aðdáun sinni á verkinu, lesið það spjalda á milli.

 

Útgáfan hefur orðið ýmsum hvatning til að grýta steinum og eflaust gera það margir út glerhúsi. Það standa nefnilega yfir nornaveiðar í íslensku samfélagi. Krafan er að helst allir sem nálægt því komu að stjórna þjóðfélaginu víki og gildir þá einu hvort umrædd persóna hefur í raun gert eitthvað af sér eða ekki. Svo dæmi sé tekið voru í boði lán til starfsmanna í Kaupþingi sem þeir gátu fengið til að kaupa hlutabréf í bankanum. Fáránlegur gerningur, settur á svið til þess eins að skrúfa upp bréf bankans langt umfram raungengi. Glæpur vissulega, en glæpurinn var þeirra sem stjórnuðu bankanum, en varla almennra starfsmanna sem í mörgum tilfellum létu vafalaust einungis undan þrýstingi yfirboðara sinna.

 

Hinir kusklausu og vammlausu geysast, berja sér á brjóst og benda hneykslaðir á þá sem í peningafenið féllu, en sést yfir að í mörgum tilfellum var það kannski ekki annað en heppni sem bjargaði þeim sjálfum frá því að lenda í því sama.

 

Ekki svo að skilja að hægt sé að mæla græðginni bót. Vitanlega fór hún langt framúr hófi og afleiðingarnar blasa við hvert sem litið er, en innantómar nornaveiðar bæta ekki neitt. Hvað gerði svo sem Þorgerður Katrín rangt? Ekki tók hún lánið, heldur maður hennar og því er dálítið hæpið, svo ekki sé meira sagt, að dæma hana svo hart sem gert hefur verið og er ekki að vita nema bjálkar leynist í glyrnum sumra hinna dómhörðustu.

 

Og hvað gerði Björgvin G. sem réttlætir það að hann segi af sér sem ráðherra, þingflokksformaður og síðan víki af þingi. Hver var glæpurinn? Jú hann var fyrst og fremst sá að sitja í ríkisstjórn sem var í skugga fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og rétt er það að þar hefði hann líkast til ekki átt að vera frekar en aðrir Samfylkingarmenn. Ýmislegt er óupplýst í því máli og verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig því framvindur.

Sökin hlýtur að vera fyrst og fremst þeirra sem mótuðu regluverkið í samfélaginu þannig að í raun var ekki um neinar reglur að ræða. Frumskógarlögmálið eitt var látið gilda og þess eins gætt að ,,réttir” aðilar sætu við kjötkatlana. Það eru vitanlega formennirnir tveir sem stjórnuðu hrunflokkunum, Framsókn og Sjálfstæðis, sem mesta ábyrgðina bera, að ógleymdum hinum hundtryggu og fylgispöku þingmönnum þeirra sem nær allt létu yfir sig ganga gagnrýnislaust. Þessir flokkar breytast ekkert til batnaðar þótt Þorgerður sé hrakin af vettvangi og mun  líklegra er að Sjálfstæðisflokkurinn batni ekki við það.

 

Hinir kusklausu VG- ingar berja sér á brjóst og dáðst að hreinleika sínum. Telja sig óspjallaða með öllu en óspjöllun þeirra er vitanlega fyrst og fremst komin til af því að þeir gerðu ekki neitt, komu hvergi að neinu nema því þá helst, að stunda hina alþekktu íslensku fjósbitapólitík er hrunið var orðið. Er þeir voru komnir í ríkisstjórn að loknum kosningum tóku síðan aðrir að sér dvölina á fjósbitanum og sannaðist þar, sem svo oft áður ,,að maður kemur í manns stað” þó ekki sé það alltaf til gagns.

Í fljótu bragði lítur út fyrir að á þingi Íslendinga starfi fjórir stjórnmálaflokkar, en ekki er alltaf allt sem sýnist og draga má í efa að svo sé í raun. Hlutverk þeirra er að minnsta kosti æði misjafnt og undanfarna áratugi hefur það verið þannig að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur eru fyrst og fremst í hagsmunagæslu á meðan hinir – Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag að ógleymdum ýmsum minni flokksafbrigðum voru aðallega í því að rótast í hugsjónaeldi, sem að mestu gekk út á að þar plokkaði hver augun úr öðrum. Á þessu hefur á síðustu árum orðið breyting með tilkomu Samfylkingarinnar sem stofnuð var gagngert í þeim tilgangi að binda enda á þá gjörningahríð sem ríkt hafði meðal vinstri manna.

 

Eftir sat hins vegar hópur fólks sem ekki telur sig geta átt samleið með öðrum jafnaðarmönnum. Þau virðast telja að hinn eini sanni rétttrúnaður felist í afstöðu þeirra og að aðrir fari villu vegar. Vegna þessa tóku þau það til bragðs að stofna sérstakan flokk um sjónarmið sín og til að flokkurinn höfðaði sem best til þeirra sem sérstaklega bera hag náttúrunnar fyrir brjósti var flokknum valið hið furðulega nafn: Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

 

Ekki er auðséð að flokkurinn hafi risið undir nafni, a.m.k. ekki varðandi „vinstri” hlutann í nafninu. Það felst ekki neitt sérstaklega mikil vinstrimennska í því að vera alltaf og ævinlega á móti hugmyndum sem skapað geta atvinnu fyrir vinnandi alþýðu, en sú afstaða hefur verið gegnumgangandi í málflutningi þeirra. Nú eru þau komin í ráðherrastólana og ef einhver hefur haldið að þá myndu þau sýna ábyrgð, fer hinn sami villur vegar eins og sést vel á vinnubrögðum umhverfisráðherranns. Hann hefur sýnt, með vinnubrögðum sínum, að hjá hinum Vinstri- grænu - hvað svo sem það stendur fyrir - er allt við það sama og þar situr allt fast í kreddufestunni.

 

Þessu hafa þau kynnst sem unnið hafa að skipulagsmálum í hreppunum við neðanverða Þjórsá og þau hafa einnig kynnst því sem hafa verið að reyna að þoka áfram framkvæmdum á Suðurnesjum. Örlítil glæta virðist þó hafa smogið inn í hugarheim ráðherrans síðustu daga, því nú hafa borist fréttir af að hún hafi samþykkt vegaframkvæmdir sem tengjast virkjununum og væri svo sem ekkert nema gott um það að segja, ef  ekki kæmi annað til. Þannig er nefnilega að framkvæmdirnar sem um ræðir, tengjast fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum og skipulagið er kostað af framkvæmdaraðilanum. Kostunarþátturinn var það sem ráðherrann setti svo mjög fyrir sig er hún hafnaði skipulagi því sem tók til virkjanaframkvæmdanna, en nú virðist það ekki lengur fara fyrir hið vinstri græna brjóst ráðherranns.

 

Hinn kusklausi flokkur VG, hreykir sér af því að hafa hvergi nálægt komið stjórn landsmálanna undanfarin ár og landsmenn mega þakka forsjóninni fyrir það. Framkoma flokksins, eftir að hann komst illu heilli í ríkisstjórn, bendir ekki til að það kunni góðri lukku að stýra að hafa hann við stjórnvölinn. Dæmin blasa við. Hér var drepið á stjórnsýsluafrek ráðherrans sem fer með umhverfismálin, en stóra málið var ekki nefnt: Icesave. Flokkurinn hefur reynst vera fullkomlega ófær um að afgreiða það mál og kemur víst fáum á óvart.   

 

Að VG hreyki sér af kuskleysi varðandi bankahrunið er í besta falli ódýrt. Þeir sem ekkert gera, ekkert geta hugsað sér að gera og jafnvel geta ekki látið sér detta neitt í hug að gera. Gera vitanlega ekkert rangt, eða hvað? Afstöðuvilla þeirra til lífsins felst einmitt í því að þora aldrei að stíga skrefin sem stíga þarf, af ótta við að taka röng skref. Þeim sést yfir þá einföldu staðreynd að afstaðan felur í sér stöðnun eins og æ betur er að koma í ljós.

Hringavitleysa

9. apríl 2010

Frá því er greint á vef Mbl.is að búið sé að finna upp kindur sem rýi sig sjálfar og hlýtur það að teljast góð nýjung í allri kreppunni. Næsta skref verður eflaust að ræktaðar verði upp kindur sem éti sig sjálfar og verður þá varla lengra komist í að fullkomna landbúnaðinn. Ekki ónýtt, ef vel tekst til, því þá geta bankar landsins í framhaldinu átt von á að svínaræktin fylgi í kjölfarið og svínin éti sitt eigin beikon, hamborgarahrygg og svínarif.

Þegar landbúnaðurinn verður kominn á þetta stig verður ,,offramleiðsla” fortíðarhugtak sem afar og ömmur framtíðarinnar þurfa að skýra út fyrir barnabörnum sínum með mikilli fyrirhöfn. Bankastarfsemi verður hins vegar vafalaust áfram jafnvitlaus og oftast áður og þar á bæjum geta menn dundað sér við að framleiða svín fyrir svín – eins og kannski hefur alltaf verið gert – án þess að nokkur von sé um að framleiðslan skili hagnaði. Áfram verður hægt, sem ávallt áður, að halda starfseminni gangandi með naglakreistum á almenningi meðan hinir útvöldu tútna út.

Þegar hér verður komið, verður málum landbúnaðarins best komið undir viðskiptaráðuneyti, enda svínaríið hvort eð er komið til bankanna. Hinn hugumstóri og vopnfimi súrmetisaðdáandi í landbúnaðarráðuneytinu getur þá ásamt meðreiðarsveini sínum úr Dölunum snúið sér að öðru, flestum til léttis, nema vitanlega framsóknarmönnum allra flokka, þeim sem ætíð vilja hafa allt eins og það hefur verið frá fornu fari. Hinum, þeim sem léttir við breytinguna, mun líða betur sem því nemur að forneskjan minnkar og hagkvæmni eykst í rekstri samfélagsins.

Atvinnuleysi mun, svo dæmi sé tekið, hverfa mjög auðveldlega og ef eitthvað skyldi nú fara á því að bera, þá er ekki annað að gera en skella mannskapnum í svínarækt eða kinda og allir munu una glaðir við sitt. Hvað getur svo sem verið göfugra en að framleiða svín fyrir svín og prjóna flíkur úr sjálfprjónandi ull af sjálfrúnum kindum?

Fyrirmyndin að þessum starfsháttum liggur fyrir. Bankastarfsemi á Íslandi varðar veginn. Þar hefur ætíð verið haft að leiðarljósi að sem minnst vit sé í því sem gert er, því er hægt að sækja sér þangað ómældan fróðleik um hringavitlausa starfshætti ef á þarf að halda.

Ef það dugar ekki til þá má bregða á það ráð að koma á samsteypustjórn Sjálfstæðis, Framsóknar og Vinstri grænna, því slík samsuða leysir allan vanda með því að búa til annan verri og þá verður allt gott, eða er það ekki?

_ _ _

Fréttir berast nú af því að haustmaður Íslands sé flúinn úr landi og að ekki sé von á honum heim aftur alveg í bráð. Hvort hinn sérkennilega og fylgispaka málpípa hans og einn einarðasti talsmaður frjálshyggju og einkavinavæðingar er farinn líka hefur ekki spurst.

Er kannski komið að því, að aðrar og stærri þjóðir fái nú að njóta hæfileika íslensku  snillinganna?

Er annar þáttur útrásarinnar kannski að hefjast?

Fyrrverandi dýramálaráðherra, sem nú orðið talar mest til landa sinna af Klörubar á Kanarí, talar fyrir því að stofnuð verði „sérstök öldungadeild fyrrverandi alþingismanna”. Telur Guðni heppilegt að hinir afdönkuðu stjórnmálamenn komi saman með reglubundnum hætti til að miðla af reynslu sinni. Líkast til er ætlunin að miðlað verði kunnáttu í: Hermangi, helmingaskiptum, einkavinavæðingu, þjóðrembu (d: öryggisráðið og innrásin í Írak), undirlægjuhætti við herraþjóðina, ráni á eigum almennings með gengisfellingum og margt fleira mætti telja. Hvernig framkalla skuli algjört hrun á hagkerfi heillar þjóðar verður eflaust ofarlega á listanum og af því sést að hugmyndin er algjörlega ómissandi og verður að komast í framkvæmd sem allra fyrst eða hitt þó heldur. Guðni áttar sig ekki á því að íslenska þjóðin þarf á öllu öðru að halda en gamaldags íslenskri pólitík, hagsmunagæslu og fyrirgreiðslu. Það er löngu komið nóg af slíku.

_ _ _

Ísland er ekki skógi vaxið land og því er víst að leikritið um dýrin í skóginum hefur ekki verið skrifað með það í huga. Það er hins vegar annað mál, að hrifning Íslendinga af hinum ýmsu dýrategundum er slík að með ólíkindum hlýtur að teljast. Örstutt er síðan að Skötuselurinn var á allra vörum og gullfiskar og hænsn hafa notið mikillar hylli í umræðunni undanfarna mánuði.

 

Það fer eftir ýmsu í hvaða sambandi þessir félagar okkar úr lífríkinu eru nefndir og hefur það bæði verið til hóls og niðrunar. Þannig þykir frekar gott að vera við ,,hestaheilsu”, en hins vegar þykir ekki nein sérstök upphefð í því að vera sagður ,,vera með gullfiskaminni” og þó hundinum sé hampað í tíma og ótíma fyrir tryggð og góðar gáfur er víst ekki mjög fínt að vera ,,hundslegur”. Steininn tekur þó úr hvað varðar rangsleitnina í líkindamálinu þegar komið er að vinsælustu jólasteikinni, því ef virkilega þarf að úthúða einhverjum þá er hann sagður ,,svínslegur” og ekki nóg með það, því ekki þykir verra ef hægt er að segja um hann: að viðkomandi sé sóði sem svín. Svínin eru, eins og flestir vita, einhverjar hreinlegustu skepnur sem mannskepnan hefur valið sér til samneytis, þannig að ósanngjarnari getur samanburðurinn ekki orðið. Ekki er þó vitað til að svínin hafi kallað saman fund til að fjalla um málið, en líklega fer að koma að því.

 

Á dögunum komst forsætisráðherra þjóðarinnar svo að orði, að það að hóa saman þingmönnum samstarfsflokksins ,,væri eins og að smala köttum”. Smellin samlíking sem nær allir áttuðu sig samstundis á hve rétt er, því nær ómögulegt er að smala kvikindunum. Ein leið er að vísu fær því hægt er að skelfa kisurnar svo mjög að þær hlaupi endanlega á dyr og leggist út og verði eftir það útigangskettir, en það telst víst ekki vel lukkuð smölun að tapa öllu út í veður og vind. Þegar svo er komið er talið sjálfsagt, að það sem einu sinni voru malandi kisur, séu réttdræpir útlagar og jafnvel gerðir út sérstakir leiðangrar í þeim tilgangi.

_ _ _

 

Jóhönnu er vandi á höndum. Ekki vill hún að svo illa fari að órólega deildin í samstarfsflokknum gerist urðarkettir og því á hún ekki annan kost en að strjúka þeim og klóra í þeirri von að þeir gerist samstarfsfúsir, láti malið nægja og vinni að öðru leiti vinnuna sína.

 

Yfirfressinu í þessu vinstri græna Kattholti er einnig vandi á höndum því það er að honum sótt. Þar fer fyrir gamall þrætubókarkisi sem ekki má vanmeta, en hann er ekki einn á ferð; einn er úr Dölunum og annar úr höfuðborginni og marga fleiri mætti telja. Foringinn þarf því að gæta að sér og halda þeim í hæfilegri fjarlægð, án þess þó að slík styggð komi að þeim að þeir hrökkvi í burtu og komi sér upp sínum prívat kisuhóp.

 

Vinstri grænir héldu fund um ummæli forsætisráðherrans, ekki hefur mikið spurst út, um hvað var malað, en málið er greinilega tekið alvarlega, því hvatamaður fundarins var dýramálaráðherrann sjálfur. Orð forsætisráðherrans vega að vonum þungt í dýraríkinu sem annars staðar og því er ekki að undra að þeir hafi komið saman til malfundar félagarnir í flokki vinstri grænna.

 

Vitanlega er öllum nema vinstri grænum löngu orðið ljóst, að flokkur þeirra er ekki samstarfshæfur í ríkisstjórn, vandinn er bara sá að aðrir kostir hafa ekki verið í stöðunni. Nú er kominn tími til að málin verði skoðuð að nýju og til dæmis kannað hvort Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að átta sig nægjanlega mikið til þess að hann geti talist samstarfshæfur. Hugsandi sjálfstæðismenn eru vissulega til og nú þarf að koma í ljós hvort þeir eru nægjanlega margir til þess að flokkurinn virki.