Skötuselurinn brosir

29. mars 2010

Hann brosir breitt, enda kjafturinn glæsilegur, hvernig sem á er litið, víður og vel tenntur og hentar einkar vel til síns brúks. Það hafði aldrei að honum hvarflað, þar sem hann lúrir og bíður eftir næringunni að frægðarsól hans ætti eftir að skína svo skært og sterkt sem raun ber vitni. Hvernig hefði honum svo sem átt að detta í hug, að hann ætti eftir að verða bæði frægur og vinsæll.

 

Líklega veit hann minnst um það sjálfur, hve frægur hann er orðinn og eflaust hefur hann enga hugmynd um hve tilvera hans hefur megnað að hækka blóðþrýsting mannveranna. Satt að segja snýst líf hans fyrst og fremst um það að lifa af og líklega veltir hann því ekki fyrir sér hve yndislegt og göfugt það er, að vera étinn í endalausum matarveislum. Þaðan af síður leiðir hann hugann að því hve gaman það verði að vera fluttur út eftir að hafa  verið drepinn. Nei, hann spekúlerar ekki svo mjög í þessu, enda heimur hans allmjög frábrugðinn heimi þeirra sem á yfirborðinu búa, svo frábrugðinn að hann hefur ekki hugmynd um að til sé LÍÚ., né nokkur önnur hagsmunasamtök. Það hefur nefnilega ekki verið til siðs að stofna til bandalaga þarna niðri og peningar hafa ekki verið innleiddir og samfélagið er fremur fábrotið.

 

Samt er svo komið, að líf þessa munnstóra og brosmilda náunga hefur öðlast algjörlega nýjan tilgang, göfugan og að mörgu leyti merkan. Það hefur komið í hans hlut að kollvarpa tilveru kvótagreifa og gefa lífi ráðherra á eyjunni aukið gildi. Viðkomudugnaður skötunnar, sem ekki er skata og selsins, sem ekki er selur, hefur fært ráðherranum vopn í hendur í baráttunni við greifana og aldrei þessu vant eru ráðherrar, þingmenn ríkisstjórnarinnar, fylgismenn og margir fleiri sammála. Sammála um að drepa hið brosmilda dýr, éta það síðan og það sem ekki verður komist yfir að éta, verður flutt til annarra landa.

 

Svona geta nú vegir lífsins verið óútreiknanlegir. Af því að fiskur í sjónum gerist duglegur við að eðla sig og fjölga - þrátt fyrir að hafa aldrei átt þess kost að bregða sér á súlustað til upplyftingar og örvunar -, þá fer nánast allt á annan endann. Fram til þessa hefur hann stólað á að hans stóri og allt að því sjálfstæði kjaftur sæi til þess að tryggt verði að hann komist af og verði ekki étinn. Kjafturinn gagnast honum best til að éta aðra. Allt er í heiminum hverfult og hann sem hefur verið svo duglegur við að éta og fjölga sér, sér nú fram á að það verði til einskis. Hinum nýju þjóðfélagsþegnum verður útrýmt af dýrategund, sem býr ekki einu sinni í hafinu og aldrei hafði honum dottið í hug að það væri aðalatriði málsins hver fengi að njóta þess heiðurs að veiða hann, drepa og éta.

 

Einfaldur og saklaus skötuselur getur ekki alltaf skilið hve lífið er flókið. Kannski eins gott. Hann unir nefnilega glaður við sitt þrátt fyrir og kannski vegna þess að hann þekkir ekki LÍÚ og SA, né önnur samtök mannskepnunnar. Það þykir gott að vera vinsæll, en hvort það er gott að vera vinsæll til þess að verða drepinn og étinn er ekki víst og líklega kemur það út á eitt fyrir skötuselinn hver það verður sem náðarinnar nýtur. Hann bara brosir sínu blíðasta og bíður eftir næstu bráð og það gera þeir vafalaust líka sem vilja fá að veiða hann, það er að segja: Bíða eftir næstu bráð, en ekki eins öruggt með brosið.

__ __ __

 

Ráðherra súrmetisins og sjávarútvegs hefur nýlega tekið þá ákvörðun að aldrei þessu vant verði kvótagreifum Íslands ekki færður aukinn veiðiréttur á skötuselnum á silfurfati. Þess í stað verði væntanlegir veiðendur  að greiða fyrir réttinn og í framhaldi af því hrína greifarnir líkt og frekir dekurkakkar og telja illa með sig farið. Hér stígur ráðherrann skref í átt til breytinga á íslensku samfélagi sem ástæða er til að styðja. Það er löngu tímabært að afnema núverandi kerfi og hvert eitt skref sem stigið er á þeirri leið er í rétta átt. Átt frá forréttindasamfélaginu.

Á árunum 1873 til 1905 flutti 1/5 hluti þjóðarinnar til Vesturheims í leit að betri lífsskilyrðum. Fólkið flúði allsleysi og örbyrgð sem var slík, að nútímafólk á ekki gott með að setja sig í þau spor. Flest hefðu eflaust kosið að eiga áfram heima á Íslandi ef upp á það hefði verið boðið, en það var ekki gert. Hið niðurnjörvaða, aldagamla bændasamfélag hafði enga burði til að taka á vandanum, atvinnulífið var fábreitt og hafði sáralítið þróast frá landnámi.

 

Því er oft haldið fram að íslenskt samfélag sé stéttlaust. Þannig er það vitanlega ekki og hefur aldrei verið og kjörorð Sjálfstæðisflokksins ,,stétt með stétt” og ekki síður slagorð málgagns flokksins „blað allra landsmanna”, eru ekkert annað en ómerkilegar blekkingar til þess eins ætlaðar að slá ryki í augu fólks.  Í lok 19. aldar hugsaði íslensk eignastétt fyrst og fremst um eigin hag – gat kannski lítið meira – og því var það að hin snauða lágstétt átti nær engan annan kost en að flytja úr landi.

 

Samfélagið var, rétt eins og nú, byggt var upp á því að arðræna hina eignalausu og niðursettu með illa launuðum þrældómi og lítilsvirðingu. Til eru óteljandi sögur af því hvernig hinir betur settu svo sem  jarðeigendur, klerkar, hreppstjórar og embættismenn, níddust á þeim sem minnimáttar voru, bæði í orði og æði. Nauðganir, barsmíðar og vinnuharka voru daglegt brauð, veruleiki sem ekki varð undan vikist. Því var það að fjölmargir tóku þann eina kost sem í boði var að leggja út í óvissuna, flýja eymdina og finna sér stað í öðru landi í von um betra líf.

 

Þannig var staðan þá og þó ýmislegt hafi breyst, þá er æði margt líkt með því sem nú er. Eignastéttin og meðreiðarsveinar hennar eru til dæmis söm við sig og hugsar fyrst og fremst um að raka til sín þeim verðmætum sem til eru í þjóðfélaginu. Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt dæmi, þar vilja þau engu breyta. Hvers vegna? Vitanlega vegna þess að aðgangur og einokun þeirra á auðlindinni er ein undirstaða auðsins. Fyrirhugaðar breytingar á stöðu skuldara gagnvart eignastéttinni fara örugglega ekki vel í þau heldur og hvers vegna skyldi það vera? Getur verið að þeim finnist að ógn stafi af því að alþýðan fái betri stöðu gagnvart þeim, líkt og bændaaðlinum forðum?

Í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins kemur þetta nokkuð vel fram og augljóst er að skjálfti er kominn í eignaelítuna og kvótagarkana. Þeim finnst að sér sótt og því þétta þau raðirnar og Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með um 40% fylgi. Þessu ættu menn að veita athygli. Annar hagsmunagæsluflokkurinn er að þjappa sér saman, líkt og hjörð sem er ógnað af utanaðkomandi hættu. Hitt vekur furðu, að hinn  hagsmunagæsluflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, stendur í stað og raunar mun gert ráð fyrir að hann tapi einu þingsæti samkvæmt þessari talnaleikfimi. Yfirstétt landsins finnst að stöðu sinni sé ógnað, að ekki sé tryggt að hér eftir sem hingað til verði samfélagið sérstaklega sniðið að hennar þörfum.

 

Þau sem settu þjóð sína á höfuðið vilja nú samt sem áður ekki finna á eigin skinni fyrir afleiðingunum. Peningamarkaðssjóðunum var á sínum tíma ,,bjargað” í þágu hinna ríku, því ekki getur það hafa verið gert fyrir þá sem ekkert í þeim áttu, en auðvitað er það ekki nóg. „Mikill vill meira” og gera má ráð fyrir að stríðið sé rétt að byrja, að nú muni eignastéttin gera það sem hún getur til að ná vopnum sínum og þó ekki væri nema vegna þess, þurfa fulltrúar hinna, þeirra sem ekki velta sér í skuldlausum stóreignum, né liggja með fúlgur fjár í Tortólum heimsins, að standa saman. Ekki gengur að hlaupa eftir villuljósum, né vefjast í valkvíða og ákvarðanafælni. Það er enn í fullu gildi hið fornkveðna: að þegar íhaldið skjallar skyldu menn vara sig og hugsa sinn gang.

 

Það þurfa þau að hafa í huga sem flaðra upp um þjóðrembingsfólkið í Heimsýn og það þurfa þau líka að hafa í huga, sem ekki hafa kjark til að taka einarða afstöðu í Icesave málinu. Að telja sér trú um að sjálfstæðismenn- eða framsóknar taki heiðarlega afstöðu í því máli er ekkert annað en blekking, sem haldið er uppi af þeim sem bjuggu vandann til og eiga sér þá einu ósk, að komast aftur til valda í stjórnarráðinu, til þess eins að geta tekið til við að hylja slóð sína.

 

Gömlu hermangs og helmingaskiptaflokkarnir vilja engu breyta sem verður til þess að skerða  forréttindin sem þeir hafa skapað sér á umliðnum áratugum. Því er það að gera verður ráð fyrir að tillögur ríkisstjórnarinnar séu í raun eitur í þeirra beinum, þó ekki væri nema vegna þess, að þær miða að því að skapa samfélag þar sem forréttindum hinnar gömlu eignastéttar verða settar skorður.

 

Máltækið segir „að þangað leiti klárinn sem hann er kvaldastur” og ef niðurstaðan verður sú að hrunflokkarnir komast aftur til valda má til sanns vegar færa að það sé rétt.

Einn helsti fréttaskýringaþátturinn í fjölmiðlaflórunni mun teljast ,,Silfur Egils” og þar er iðulega tekið tali fólk  sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu. Ýmist er um það að ræða að fólk skiptist á skoðunum, á því sem Egill kallar ,,vettvang dagsins” , eða fólk er tekið tali og fjallað um sérstök mál sem það hefur sérþekkingu á. Oftar en ekki tekst Agli að velja saman til skoðanaskipta hópa sem túlkað geta ýmis sjónarhorn á því sem um er rætt og verður þá stundum snörp orðræða sem út úr því kemur.

 

Að undanförnu hefur Egill lagt sig fram um að fá til viðtals ýmsa spekinga utan úr heimi og er svo að sjá sem hann telji þá því betri, því minna sem þeir kunna í Íslensku. Nú er það auðvitað þannig að gott getur verið að leita út fyrir landsteinana – glöggt er gests augað – og allt það, en óneitanlega er stundum dálítið pínlegt að horfa uppá Egil er hann ræðir við þetta fólk, þegar það bunar út úr sér almæltum sannindum sem engum ættu að koma á óvart og ekki síður þegar bunan stendur útúr viðkomandi og augljóst virðist að um algjöra firru er að ræða. Hér verða einungis tekin til tvö dæmi, annað þegar stillt var upp við hlið Evu Joly náunga sem taldi sig hafa samið lög sem samþykkt voru sex árum áður en að hann kom til sögunnar. Hitt tilfellið sem ég tiltek er þegar Egill fékk ,,sérfræðing”, - því allt eiga þetta að vera miklir sérfræðingar - til að upplýsa það að ekki væri gott að taka meiri lán en menn þyrftu á að halda, né gætu staðið í skilum með. Óhætt mun að álykta sem svo að íslenska þjóðin viti fátt betur eftir þær hremmingar sem gengið hafa yfir undanfarna mánuði, en að ekki er gott að taka of mikil lán. Engin þörf er á að flytja inn ,,sérfræðinga” til að upplýsa það. Það hlýtur að vera jafn vitlaust að telja allt vit koma að utan eins og að líta svo á að ekkert vit sé að hafa nema innanlands, Meðalhófið hlýtur að vera best í þessu efni sem öðru og engin þörf er að flytja inn útlendinga til að segja okkur almælt sannindi, en hins vegar full þörf á að leita þekkingar. Vandinn er að velja og hafna.

 

Annað tilfelli af furðulegum fréttaflutningi (eða átti það að vera tilraun til fréttaskýringar), var þegar Sigmar tók Árna Pál félagsmálaráðherra, í viðtal í Kastljósi Sjónvarpsins. Viðtalið átti samkvæmt kynningu að fjalla um fyrirhuguð áform um að koma skikk á innheimtuaðferðir fjármögnunarfyrirtækja vegna bílakaupa landsmanna. Svo sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum hafa þau, mörg hver, gengið afar hart fram í innheimtunni og það svo, ef fréttir eru sannar, að dæmi munu vera um að fólk sé krafið um margfalt andvirði bílanna þegar svo er komið að þeir eru teknir af skuldurunum. Ekki var annað að heyra á Sigmari en að helsta áhyggjuefnið væri að, ef farið væri í aðgerðir til að taka á þessum málum, þá væri hætta á að þeir sem hann kallaði ,,auðmenn” gætu hagnast á gjörningnum. Það mætti sem sagt ekki gera neitt í málinu af ótta við að einhverjir óskilgreindir auðmenn gætu hugsanlega grætt á öllu saman og þá var svo að skilja, að engu skipti þótt hinir væru margfalt fleiri sem ekki teldust til auðmanna sem hefðu hag af að umræddum reglum væri breitt.

 

Stundum er það svo að ,,maður sér ekki skóginn fyrir trjám” og hér er þörf að staldra við. Hvað hefur Sigmar fyrir sér í því að umræddur hópur muni hagnast svo  á gerðinni að ástæða sé til að hafa slíkar áhyggjur? Getur ekki alveg eins verið að þeir, sem hann nefnir ,,auðmenn”, hafi í mörgum tilfellum einfaldlega snarað út fyrir kaupverði lúxusbílanna? Er ekki komið í ljós að þeir höfðu að því eð virðist ótakmarkaðan aðgang að lánsfé hjá bönkunum sem þeir þóttust eiga? Að lokum hverju skiptir það fyrir heildardæmið þótt einhverjir ,,auðmenn” kunni að hagnast? Er ekki aðalatriðið að koma þeim til hjálpar sem hjálpar eru þurfi og er það eitthvað nýtt að með í slíkum aðgerðum fljóti þeir með sem ekki þurfa. Undirritaður hefur til dæmis horft uppá það alla tíð að tryggingakerfið hefur verið misnotað af óvönduðum. Engum hefur samt dottið í hug í nokkurri alvöru að leggja það niður. Þannig er það og hefur alltaf verið, að þegar komið hefur verið upp kerfi/kerfum til aðstoðar þeim sem hjálpar eru þurfi, þá koma ýmsir á eftir og finna sér leið til að misnota aðstöðuna sér til hagsbóta. Það hins vegar réttlætir ekki að gefist sé upp og látið skeika að sköpuðu, verkefnin eru endalaus og mannskepnan breysk. Þannig er það og hefur alltaf verið og mun vafalaust alltaf verða.     

Og fúleggin springa..

10. mars 2010

Rétt um þrjár vikur eru til páska og því ekki seinna vænna að fúleggin springi framan í þjóðina. Það er þá meiri von til, að á hátíðinni sjálfri verði friður fyrir slíkum uppákomum. Það var látið heita svo að kosið væri um Icesave málið í kosningunum sem fram fóru um síðustu helgi. Hið rétta í því máli mun vera að kosningin hafi verið sjónarspil til þess eins að Bessastaðabóndinn gæti náð vopnum sínum gagnvart þjóð sinni, enda kom ekki annað út úr atburðinum en það, að Icesave-ið er áfram í sínu gamalkunna frosti sem aðferðafræði VG- foringjans kom málinu í. Þangað fór það og ekkert útlit er fyrir að þaðan muni það fara eitt eða neitt á næstunni. Fyrir því eru ýmsar ástæður og sú helsta: að nú liggur viðsemjendum Íslendinga ekkert á lengur, önnur er að Vinstri grænir geta ekki gert upp við sig hvaða skoðun þeir vilji hafa á málinu og sú þriðja er að stjórnarandstaðan spilar á þá líkt og púkinn á fjósbitanum í fullkomnu ábyrgðarleysi þeirra sem enga ábyrgð bera, né vilja bera.

 

Og nú berast þær fréttir, að til að koma á friði innan VG, standi til að taka Ögmund Jónasson inn í ráðherralið stjórnarinnar og sýnir það hve illa málum er komið. Össur svaraði því til í viðtali á dögunum að hann væri nú bara ráðherra á plani. Skondið svar, sem vísar í þekkta þáttaseríu er gengið hefur í sjónvarpi, en ekki átti undirritaður von á að svona stutt væri í að Bjarnfreðarson gengi inn á sviðið. Því ef Össur er starfsmaðurinn á plani, þá er Ögmundur augljóslega hin fræga aðalpersóna þáttanna, það er hinn títtnefndi Bjarnfreðarson. Samlíkingin er, ef að er gáð, ekki svo fráleit þar sem persóna þessi lítur á sig sem hreinræktaðan komma af gamla skólanum, er fastur fyrir og stendur á sínu. Þá er hann með þrætubókina á hreinu og algjör snillingur í því að firra sig ábyrgð.

 

Þannig eru málin þá að þróast. Þegar flestum finnst sem kominn sé tími á að endurnýja og fríska upp á ríkisstjórnina, hressa hana upp og gefa ferskari blæ, þá er það gert með því að víkja til hliðar einni forneskjunni fyrir aðra, þ.e. Jóni fyrir Ögmund. Nokkuð sem mun hressa bæta og kæta þá sem barist hafa í því að styðja stjórnina til góðra og nauðsynlegra verka, eða hvað? Halda menn ekki að það sé gaman að geta bent á það sem dæmi um hve bjart sé yfir ráðherraliðinu að Ögmundur Jónasson sé aftur orðinn ráðherra. Hvort menn hefi ekki tekið eftir því og nú verði allt gott: Vinstri grænir verði ljúfir sem lömb og muni ganga einhuga til þeirra verka sem gera þurfi, ekki þurfi fólk lengur að óttast sundurlyndisfjandann sem þar heldur til, því Ögmundur hafi nefnilega troðið kvikindinu ofaní skúffu og læst henni vel og vandlega.

 

Góð saga og ekki mikið verri en ýmsar aðrar sem ganga meðal þjóðarinnar, skemmtisaga en annað ekki. Fólki finnst nefnilega ekki lengur að stjórn landsins sé, né eigi að vera skopleikur í fáránleikastíl. Það er komið að því að almenningur er búinn að fá nóg og með fullri virðingu fyrir Ögmundi Jónassyni, þá er það bara þannig að flestir eru búnir að fá nóg af tuðinu, þrætubókarstaglinu og flaðrinu upp um stjórnarandstöðuflokkana.

 

Einkastríð Ögmundar er í besta falli pínlegt, kjánalegt og lyktar af falsi. Ef ætlunin er að ganga í að leysa málin þá verður að hafa dug og kjark til að gera það, en ekki vísa því stöðugt yfir á þá sem í raun hafa engan áhuga á að lausnin finnist.  

Hnykill í flækju

9. mars 2010

Haft hefur verið á orði að flækjustig Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sé með hærra móti. Ekki að ófyrirsynju, því a.m.k. þeim sem ekki eru þar lausmúraðir og innblessaðir sýnist sem svo að þar sé hver höndin upp á móti annarri. Steingrímur J. hefur fremur litla stjórn á liði sínu, enda er það örugglega ekki auðvelt verk, þó ekki sé nema vegna þess að svo virðist sem flokkurinn samanstandi af þeim einum sem allt vita best. Flokki þar sem allir vilja ráða en enga ábyrgð bera. Hugsjónaeldurinn brennur á hverri sál í flokknum, kreddufestan er algjör og af því leiðir að getan til að stunda málamiðlanapólitík er afar lítil.

Þessu hafa þeir áttað sig á bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og nýtt sér afar vel. Þeir hafa leikið sér að VG líkt og tveir kettir væru að leika sér með bandhnykil og nú er svo komið að hnykillinn sá er allur kominn í flækju og vandséð hvort úr því verður hægt að greiða. Ögmundur Jónasson hefur til að mynda verið í afar sérkennilegum leiðangri, svo ekki sé meira sagt. Ekki síst eftir að hann hrökklaðist út úr ríkisstjórninni eftir að hafa ekki getað horfst í augu við hin ömurlegu verkefni sem við honum blöstu sem heilbrigðisráðherra. Eftir flóttann virðist sem hann hafi þá hugsjón helsta að koma foringja sínum í sem mest vandræði og þar með ríkisstjórninni. Þetta gerir hann undir því yfirskini að efnt skuli til samstöðu, einkanlega í Icesave málinu og um þetta tuðar hann í tíma og ótíma og lætur sem hann trúi því að stjórnarandstaðan muni vera tilkippileg í því efni.

Auðvitað veit Ögmundur jafnvel og allir aðrir að á þeim bæjum er ekki neinu slíku til að dreifa. Þar eru menn fyrst og fremst með hugann við hvernig hægt sé að koma ríkisstjórninni fyrir kattarnef. Þau sömu kattarnef sem að undanförnu hafa hamast í flokknum hans með þeim árangri að hann er nú orðinn tættur og togaður þannig að nánast engin mynd finnst á honum lengur. Þar hefur þeim gengið vel, aðferðin hefur lukkast að þeirra mati svo sem best má verða og því telja þau best að halda áfram á sömu braut og Ögmundur og félagar leggja þeim lið með framkomu sinni.

Allt er þetta gert undir því yfirskini að vanda þurfi til verka: Icesave þvælan skuli rædd út í það óendanlega væntanlega í þeirri auðtrú að með nógu miklum kjaftagangi muni koma að því að það takist að kveða drauginn niður. Sumir hinna Vinstri grænu trúa þessu vafalaust, en hrunsmiðirnir vita betur. Þau vita vel að Hollendingum og Bretum liggur ekkert á. Þeir eru hvort eð er ekkert að fá aurana neitt á næstunni. Hrunsmiðunum  gengur það eitt til að halda ríkisstjórninni í gíslingu Icesave-málsins og til þess eru VG-ingar einkar heppilegir. Þrátt fyrir að formaður þeirra hafi valið að fara þá leið að gefa Brussel viðmiðunum langt nef í þeim tilgangi að gera málið lystugra í augum félaga sinna, þá dugar það ekki til, þar eru svo margar skoðanir á lofti og undir þeirri sundrung kyndir stjórnarandstaðan.

Nýjasti bandamaður þeirra sem öllu vilja halda í frosti í íslensku hagkerfi er svo hesta- og skíðamaðurinn, bóndinn á Bessastöðum, sem farinn var að finna fyrir vinsældatapi vegna tengingarinnar við útrásarvíkingana svokölluðu, sem fékk alveg kjörið snilldartækifæri til að snúa taflinu sér í hag. Það gerði hann og vísaði bullinu til þjóðarinnar sem vitanlega sagði nei, þ.e. meirihluti þeirra sem á annað borð nenntu á kjörstað til að taka þátt í vitleysunni. Annað en nei kom tæpast til greina af ýmsum ástæðum: Nei við að borga óreiðuskuldir annarra, nei við að borga vexti, nei við að borga eftir samningi sem í raun var ekki lengur til, nei við Steingrímsleiðinni og síðast en ekki síst: Nei við stjórnarandstöðunni svo órökrétt sem það kann að virðast að reyna að nota tækifærið til þess.

Ekki er allt rökrétt sem sagt er og gert er nú um  stundir, til dæmis berast þær fréttir að nú sé svo komið að ekki nema þriðjungur þjóðarinnar æski inngöngu í ESB. Einkennileg afstaða í meira lagi þar sem samningaviðræður við Sambandið eru ekki einu sinni hafnar, en tónar vel inn í hugmyndarheim Heimssýnarliðsins. Þeirra hugarheimur virðist fyrst og fremst ganga út á að annað hvort einangra Ísland frá umheiminum, eða breyta því í heimsveldi. Hvorug hugmyndin er sérstaklega geðsleg, báðar hafa verið reyndar áður, sú seinni á afar ómarkvissan hátt til forna, en sú fyrri kom til af kringumstæðum sem enginn kærði sig um aðrir en hið erlenda vald sem þá ríkti.

Það innlenda vald sem sækist eftir því nú, er síst betra en það vald sem þá var ríkjandi. Ef eitthvað, þá er það einungis enn undirförlara, ósvífnara og óþjóðhollara og mun ekki geta makað krókinn á hermangi og helmingaskiptum nú eins og áður fyrr. Hvert halda menn að næringin verði þá sótt annað en til alþýðu landsins og því ríður á að hún láti ekki hafa sig að leiksoppi enn einu sinni.  

Jón á röngu róli?

4. mars 2010

 

Þessi pistill birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í dag.

 

 

Lengi hef ég haft grunsemdir um að eitthvað væri bogið við tilveruna, að ekki sé allt sem sýnist og að jafnvel margt það sem við göngum að sem gefnu sé alls ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera. Það þykir alveg sjálfsagt að halda því fram að klukkan sé þetta eða hitt, að það sé þessi eða hinn dagurinn. Vikan er svo sögð vera hér eða þar í röðinni af vikum ársins og síðan er því haldið blákalt fram að í ár sé, svo dæmi sé tekið árið 2010. Undantekning á því er sú, að gefinn er kostur á að í ýmsum öðrum samfélögum geti árið hugsanlega verið eitthvað annað.

 

Nú er svo komið að efasemdir mínar í þessu efni hafa aukist til muna og það svo að nú geng ég að því sem gefnu að tíminn sé mun margslungnara fyrirbrygði en haldið hefur verið að manni til þessa. Ýmislegt hefur nýlega komið upp sem bendir til að staðreyndin sé sú að tíminn standi í stað á vissum sviðum og eigi það jafnvel að fara afturábak ef svo ber undir. Hvernig þetta er í raun og veru veit ég vitanlega ekkert um, en nú skal greint frá hvernig á því stendur að ég er farinn að trúa þessu.

 

Það gerðist um daginn þegar ég átti leið um Selfoss að mér datt í hug að ég hefði lent í einhverskonar tímaflökti. Ég var þar á ferð og hafði ekki langt farið þegar ég mætti Lödu Sport bifreið, sem ekið var eftir veginum eins og ekkert væri eðlilegra, en stuttu seinna fylgdi á eftir Lada Topas, gamall kunningi, því ég átti einu sinni eina slíka, og rétt á eftir henni kom gamall Rússajeppi þeirrar gerðar sem yfirbyggðir voru af Íslendingum með tréhúsi. Allar voru þessar rennireiðar í venjulegu brúksstandi að sjá og því alls ekki um það að ræða að hér væru á ferð uppskveraðar dekurdrossíur frá Fornbílaklúbbnum.

Satt að segja taldi ég þetta bara skemmtilega tilviljun sem gaman hefði verið að verða vitni að, en það sem kippti mér niður á jörðina kom úr óvæntri átt, þaðan sem menn eru ekkert sérstaklega mikið að velta fyrir sér Afstæðiskenningunni né öðrum eðlisfræðilegum fyrirbrigðum. Það sem gerðist var að Búnaðarþing var sett með pompi og prakt, prúðbúnir bændur og ýmsir minni spámenn eins og Forsetinn, alþingismenn, ráðherrar og fleiri mættu á staðinn og það var einmitt ráðherra sem kippti mér niður á jörðina, nefnilega landbúnaðarráðherrann. Hann var þarna kominn í öllu sínu veldi, fullur af nútímalegum hugmyndum, visku og þroska og þar kom að hann tók til máls og leiddi þjóð sína í allan sannleikann um hvernig hún ætti að hugsa og ekki síður á hverju rétt og skylt væri að nærast.

 

Ráðherrann, Jón Bjarnason, hafði sem sagt tekið eftir því, að fjórir karlar sem staddir voru í einhverjum fjallakofa höfðu ekki nægjanlega löngun til að eta nestið sitt sem samanstóð af hinum margvíslegasta súrmeti, því er til verður eftir viðeigandi meðhöndlun á íslensku sauðkindinni. Niðurstaða karlanna fjögurra verður eftir nokkra umhugsun sú, að rétt sé að nota sér nýjustu samskiptatækni og panta sér pitsu til að seðja hungrið. Gengur það allt fljótt og vel, þökk sé hinu fullkomna dreifikerfi Símanns. Taka nú karlarnir gleði sína að nýju og hlakka  til að snæða bökuna með íslenskum osti, skinku, hakki, pepperoni og grænmeti, en vara sig ekki á því að þetta háttaleg hafði þeim alveg láðst að bera undir ráðherrann. Það er nefnilega þannig að ekki er sama súrt íslenskt og ósúrt íslenskt, því að hans áliti er súrmeti íslenskara en það sem ósúrt er og ætti kannski ekki að koma á óvart, svo súrir sem þeir geta verið félagarnir í Vinstri- grænum.

 

En hér er komin enn ein sönnunin fyrir því að það er ekki sama tími og tími og ekki er að efa að hinn röggsami ráðherra mun sjá til þess að íslensk þjóð haldi sig framvegis á hans tíma, sem augljóslega er ekki sá sami og þorri þjóðarinnar telur sig vera á. Spennandi verður að fylgjast með hvernig þessi mál koma til með að þróast í framtíðinni, það er að segja ef hún verður þá leyfð: Framtíðin.  

100 krónur íslenskar

1. mars 2010

Fyrir rétt rúmum 40 árum gerðust þau undur í lífi ritara að hann komst í fyrsta skipti yfir hafið sem skilur að Ísland og Evrópu. Það gerðist þannig að hann réði sig til starfa á íslensku flutningaskipi sem var í eigu SÍS níutíu og eitthvað prósent sáluga og fyrsta erlenda höfnin sem farið var til var í Danmörku, nánar til tekið Svendborg. Lítið sem ekkert var til af peningum er upp var lagt, en spurst hafði að danskir bankar væru tilkippilegir með að kaupa íslenska peninga ef þeir væru þannig formaðir að greyptir væru í hinn undursamlega eitt hundrað krónu seðil, sem í þá daga taldist allnokkur aur hjá mörlandanum.

 

Siglingin með hinu gamla flutningaskipi gekk nokkuð vel, blíðuveður alla leið og til Svendborgar vorum við komnir fyrr en varði. Gekk nú kotroskinn piltur í land í leit að dönskum banka til að skipta nokkrum íslenskum hundrað köllum fyrir danskar krónur. Bankinn fannst nokkuð vandræðalítið og var erindið borið upp, þ.e. íslenskir eðalseðlar til sölu fyrir danska. Það verður að segja það alveg eins og er að bankastarfsmenn í Danmörku árið 1969, í þessum Svendborgska banka, brugðust við af einstakri kurteisi og háttvísi er þeir útskýrðu að svona peninga, sem þeir hefðu reyndar aldrei áður séð, væri ekki höndlað með í þessari peningastofnun og það var meira að segja tekið fram að alls ekkert væri vitað um hvers virði gersemin væri. Hitt væri annað mál að frést hefði af því, að í Kaupmannahöfn væri til banki sem keypti slíka seðla, en það væri af og frá að gengið sem undirritaður kynnti frá Íslandi væri gilt. Þar mundi muna nokkrum tugum prósenta.

 

Hvers vegna er ég að segja frá þessu? Það er vegna þess að eftir að hafa horft og hlustað á þá Aðalstein Baldursson og Ásmund Einar Daðason í þættinum „Silfur Egils” á sunnudaginn var rifjaðist þetta upp. Í þættinum lögðust þeir félagar í þann málflutning að mæra íslensku krónuna á þeim forsendum að hið lága gengi hennar væri, ein bjartasta vonin sem sýndi og sannaði hve nauðsynlegt þetta fyrirbrigði væri. Skemmst er frá því að segja að stjórnandi þáttarins féll í hláturskast þeirrar gerðar sem einkenndi hinn fræga lögreglustjóra Dreyfus er frægur varð í myndunum um Bleika Pardusinn og lái honum hver sem vill.

 

Það kom vitanlega engum á óvart að Ásmundur Einar Daðason formaður Heimssýnar, héldi firrunni fram, en að Aðalsteinn Baldursson verkalýðsforingi frá Húsavík félli í þann pytt kom vissulega á óvart. Að óreyndu hefði verið hægt að halda, að maður sem sífellt er að slá um sig á vettvangi kjarabaráttunnar, jafnvel að leggja öðrum leiðtogum verkalýðsins lífsreglurnar, ræddi málið af meiri yfirvegun og raunsæi. Sannleikurinn er vitanlega sá að engin, alls engin, rök eru fyrir íslenskri krónu, eru ekki og hafa aldrei verið, önnur en þau að hún hentar ágætlega til verðmætaflutninga frá alþýðu til útgerðarauðvalds svo dæmi sé tekið. Til slíkra gjörninga er hún  ágæt, en ef ætlunin er að hér verði bærilegt þjóðfélag til framtíðar þá þarf ýmsu að breyta og afnám íslenskrar krónu er eitt af því sem fyrst þarf að hverfa.

 

Þessu verða verkalýðsforingjar sem aðrir, að gera sér grein fyrir og vitanlega sjá eflaust ýmsir þeirra sem vistað hafa sig í Heimsýn þetta líka, en ást þeirra á krónunni helgast af öðru eins og t.d. gamalli þjóðernisrómantík. Síðan eru líka þeir og þeim má ekki gleyma, sem eingöngu eru að hugsa um eigin hag og stundarhagsmuni og það eru þeir sem ráðið hafa til þessa. Fyrir þeim er ekki að þvælast þjóðernisrómantík né annað þessháttar og skyldu sem flestir hafa það í huga, verkalýðsforingjar sem aðrir.