Grín, grátur og alsæla

28. janúar 2010

Sumir virðast hafa haldið að ég væri að grínast þegar ég setti pistilinn „Tillaga að lausn” inn á bloggið mitt þann 11. janúar. Einkum var það tillagan um að senda Bjarna Benidiktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson úr landi sem mun hafa vakið furðu. Reyndar var það nú ekki þannig að ég ætlaði þeim að vera verklausum í útlöndum, hreint ekki, því ég ætlaði þeim ekki minna hlutverk en það að bjarga icesave málinu í eitt skipti fyrir öll. Taldi mig hafa nokkra ástæðu til að ætla að þeim kumpánum yrði ekki skotaskuld úr því að koma málinu í trausta höfn eftir öll stóryrðin sem þeir hafa látið frá sér fara um það. Þetta er alveg greinilega misskilningur allt saman hjá mér miðað við undirtektirnar sem hugmyndin hefur fengið og ekki síst ef horft er til þess hve lítið þeim gengur að koma fram með raunhæfar lausnir á málinu. Sem sagt misheppnuð tillaga sem sýnt hefur sig að gengur ekki upp og þá er bara að taka því.

Á dögunum var haldinn fundur á vegum rannsóknarnefndar alþingis fyrir blaðamenn og er því ekki að neita að þar kom ýmislegt fram. Greint var frá því að skýrsla nefndarinnar yrði ekki minni en um 2000 síður og efnið svo krassandi að réttast væri að þjóðinni yrði gefið frí svo hún gæti öll á einu bretti lagst í lestur. Minna mátti það nú ekki vera. Reyfarinn „Karlmenn sem hata konur” er svo dæmi sé tekið um 600 blaðsíður ef rétt er munað og er þá ljóst að hér er um þrisvar sinnum meira rit að ræða. Hafi það farið fram hjá einhverjum þá er þetta að minnsta kosti í annað skiptið sem útgáfu skýrslunnar er frestað og er það vel. Best væri nefnilega að fresta útgáfunni fram undir næstu jól og gefa hana út þá á sem flestum tungumálum og náttúrulega ekki gleyma Zimbabisku; endilega láta hana fylgja með, því þangað virðast útrásar- og frjálshyggjusnillingarnir með hinn dagvistaða foringja sinn hafa sótt sér umtalsverðan efnivið í hrunsmíðina. Fram kom hjá höfundum skýrslunnar að efnið væri bæði dramatískt og ógnvekjandi svo hér er um að ræða reyfara sem örugglega slær í gegn. Nær öruggt er að hann mun seljast í miklu upplagi og skila góðum tekjum inn í íslenskt þjóðarbú. Tvö þúsund síðna reyfari sem bæði vekur hroll og getur fengið stútungskarla til að gráta getur ekki annað en slegið í gegn!

Forseti vor er á skíðum, ef það skildi hafa farið framhjá einhverjum, í smábæ með stóru torgi og á því torgi gerir hann alveg eins ráð fyrir að rekast á málsmetandi Breta og gott ef ekki Hollendinga líka. Eftir því sem lesa má á visir.is, þá hefur Ólafur rætt við blaðamenn af þessu tilefni og leitt þá í allan sannleika um hvernig málin standa á eyjunni með hinar óforsetavænu skíðabrekkur. Samkvæmt því sem lesa má, þá er allt á réttri leið hjá Mörlöndum og m.a. gengið komið svo langt niður að það er farið að verða þjóðinni til góðs og ef þetta er rétt þá er hér um einhverskonar hringferli að ræða, svona eins og þegar hundur bítur í rófuna á sér. Ólafur hlýtur að hafa rétt fyrir sér í þessu sem öðru, þ.e. þegar allt er orðið afspyrnu vont, þá er það fyrst orðið gott. Þeir sem ekki skilja þessa hagfræði verða bara að koma sér á námskeið í faginu sem örugglega verður haldið að Bessastöðum, þ.e. þegar Ólafur má vera að því að bregða sér af skíðunum. Þeir munu örugglega ekki telja það eftir sér að taka þátt í kennslunni þeir Styrmir, Davíð, Ragnar, Ásmundur, Sigmundur og Bjarni, þannig að allir sem vettlingi geta valdið ættu að drífa sig í Bessastaðaspekina.

Tillaga að lausn

11. janúar 2010

Alþingi íslendinga kom saman einn dag í síðustu viku og óhætt er að segja að landsmenn hafi fengið að finna af því smjörþefinn að þar hefur enginn neitt lært né neinu gleymt. Málflutningur þeirra Sigmundar og Davíðs, nei Bjarna vildi ég skrifað hafa, var á sömu nótum og fyrir áramót og alls ekki hægt að greina að þeir félagar fagni nýju ári með nýjum tækifærum. Öðru nær, í þeirra huga er allt svart og fremur einkennilega hljómaði það er Bjarni á samkuntu sjálfstæðismanna gerði að sínum hin fleygu orð Jóns Sigurðssonar og félaga: „Vér mótmælum allir”. Mörgum hefði eflaust fundist að betur hefði farið á því hjá Bjarna að hann hefði bara einfaldlega sagt: Ég mótmæli allur!

 

Staðan er sem sagt sú að enn er verið að tala um að ekki megi setja lögin um ríkisábyrgðina á icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu og ástæðurnar sem eru tilgreindar eru tvær.  Ef samningurinn verði samþykktur þá sé það alveg voðalegt vegna þess hve hann sé slæmur. Hin ástæðan á að vera að ef hann verði felldur þá sé allt í voða varðandi þjóðarhag, lánshæfi o.s.frv.. Á þessu hamra stjórnarandstæðingar og stjórnarsinnar ásamt ýmsum hagfræðingum og lögfræðingum innlendum sem erlendum á meðan aðrir með sömu menntun halda því fram að samningarnir séu eins góðir og hægt sé að búast við og að ólíklegt sé að lengra verði komist með hina hollensku og bresku „vini” okkar.  Venjulegt fólk, sem ekki getur stært sig af fyrrnefndum titlum, veit síðan ekki sitt rjúkandi ráð en stendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til málsins hafandi í huga, að niðurstaða þess getur skipt nær öllu fyrir þjóðina til framtíðar litið.

 

Bjarni, Sigmundur og fleiri halda því stöðugt fram að lausn sé til á málinu og hún sé ekki önnur en sú að semja upp á nýtt. Fara þurfi með nýja samninganefnd til Hollands og Bretlands, banka uppá hjá viðkomandi yfirvöldum og fá þau til að samþykkja þeirra hugmyndir að nýrri lausn. Ekki er gott að segja hver lausnin er því þeir hafa stungið upp á mörgu, eða allt frá því að íslendingar borgi ekkert til þess að þeir borgi eitthvað. Hugmyndir þeirra að nýjum samningi eru greinilega óljósar en ekki er hægt að halda því fram að þær séu engar. Þeir og fólkið sem með þeim dansar telur sig hafa lausnina í handraðanum og hún muni ná fram að ganga bara ef talað sé nógu hátt og greinilega, þannig að ekki fari framhjá Gordon og co. að svona skuli þetta nú vera og engan vegin öðru vísi. Með hæfilegri blöndu af stóryrðum og formælingum þá muni þetta allt ganga og viðskiptaveldin tvö lyppast niður og sjá sitt óvænna.

 

Vegna þessa er rétt að leggja til að ríkisstjórn Íslands gangi nú til verka og skipi höfðingjana tvo sem nýja formenn nýrrar samninganefndar, sem þar með yrði tvíhöfða, sem ekki mun af veita. Þeim verði einfaldlega falið að ganga á fund viðkomandi stjórnvalda og víst er að þeim verður ekki skotaskuld úr því. Hve oft hefur það ekki gerst að ólíklegustu menn hafi birst við rúmstokk Bretadrottningar svo dæmi sé tekið og því skyldi ekki verða upp lokið fyrir þeim í númer 10, fyrst hægt er að drekka morgunkaffi með Betu alls óboðinn og óforvarandis?

 

Komi nú þeir félagar og þeirra fólk með nýjan og huggulegan samning sem nánast öruggt er að þeir gera, þá er það auðvitað bara hið besta mál. Þjóðin losnar af klafanum, ekki er þörf á atkvæðagreiðslu um hinn vonda samning og þar myndu sparast um 200 milljónir, sem ættu að duga langt til að borga farareyrir nýju samninganefndarinnar. Framtíð hinnar íslensku þjóðar yrði bæði björt og glæsileg og það sem ekki er minnst um vert: Nokkrar vonir gætu staðið til að formennirnir tveir tækju gleði sína og yrðu ekki eins þjakaðir af svartsýni til framtíðar og þeir eru í dag. Ekki svo lítið atriði það.  

Skrattinn á veggnum

9. janúar 2010

Forseti lýðveldisins kvað upp þann úrskurð á dögunum að lög frá alþingi varðandi icesave skuldbindingarnar skyldu fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sannaðist þar hið fornkveðna að „lítil eru geð guma“, að lýðskrumið er númer eitt en þjóðarhagur einhverstaðar þar langt fyrir neðan í huga Bessastaðabónda. Stjórnarandstæðingar höfðu óskað eftir þessum úrskurði, en svo kynlega brá við að þegar þeim er orðið að ósk sinni þá leita þeir allra leiða til að hindra að hún verði að veruleika. Það er sem sagt talað tungum tveim og sitt með hverri og væri kannski nær að segja að þeir tali mörgum tungum og sitt með hverri þeirra og ekki nóg með það, hver tunga skiptir um málflutning með óreglulegu millibili sem enginn getur spáð fyrir um hvenær muni gerast.

 

Birgitta grét af gleði er synjun forsetans lá fyrir, tvær grímur runnu á Bjarna Benidiktsson og félaga og Sigmundur Davíð gladdist. Það kom ekki á óvart að Framsóknarforinginn gerði það, honum virðist líða best ef allt er á leiðinni norður og niður og helst lengra en það. Bjarni reynir nú í ofboði að koma því inn hjá fólki að mynda þurfi þverpólitíska samstöðu (svo!) um að leysa málið og lætur að því liggja að ekki þurfi annað til en að íslenskir pólitíkusar fallist í faðma, að þá muni icesave vandræðin nánast hverfa eins og dögg fyrir sólu. Virðist hann telja að er Bretar og Holllendingar verði vitni að þeim vinahótum muni þeir komast við og falla frá kröfum sínum í einskærri hrifningu yfir hve þroskaðir og ástríkir hinir íslensku stjórnmálamenn séu orðnir. Á eftir Bjarna trítla nú hinir minni spámenn, bæði hin grátbólgna Birgitta og Sigmundur bölsýni, því hvorugt má til þess hugsa að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslan sem þau svo heitt og innilega áður þráðu.

 

Það er nefnilega runnið upp fyrir þeim að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer, að frá þeirra sjónarhóli mun hún fara illa. Verði lögin samþykkt mun með tímanum sannast að hrakspár þeirra eiga ekki við rök að styðjast en verði þau felld, þá er allt í uppnámi varðandi icesave hörmungina og Ísland einangrað út í kuldanum í samfélagi þjóðanna og engan vegin séð hvernig úr þeirri flækju verður greitt.

 

Þeir sem málað hafa skrattann á vegginn eru að miklum hluta þeir sem áttu stærstan þátt í að skapa vandann og fóru mest í góðærinu. Nú þykjast þeir vilja glíma við vin sinn úr neðra, en þegar á herðir þá kemur í ljós að þau meina ekkert með því og geta í raun ekkert annað en talað. Þau sitja á koppnum en geta ekki gert það sem til er af þeim ætlast og hvað gera þau þá? Þau orga, það er það eina sem þau geta og það munu þau gera um ókomna tíð en eitt er víst, að hvernig sem þau láta þá geta þau ekki fengið heiminn til að lúta að sinni stjórn. Áður en þau verða fær um það þurfa þau að hafa getu til að stjórna sér sjálfum.

 

Að halda því fram að samstaða íslenskra stjórnmálamanna geti úr því sem komið er breitt einhverju er fals eitt því boltinn er ekki hjá þeim, boltinn er hjá íslensku þjóðinni og síðan má ekki gleyma því að samningurinn gengur ekki út á það að íslenskir stjórnmálamenn komi sér saman heldur að þjóðirnar þrjár Íslendingar, Holllendingar og Bretar geti komið sér saman og samningur milli þeirra liggur fyrir. Sá samningur verður ekki tekin upp bara af því stjórnarandstaðan á Íslandi hafi skipt um skoðun. Engu skiptir hvernig íslenskum stjórnarandstæðingum líður því er enginn að velta fyrir sér í Bretlandi né Holllandi. 

Það er hin ískalda staðreynd sem staðið er frammi fyrir. Það er skiljanlegt, að fyrrverandi sveitarstjórnarmaðurinn Kristján Júlíusson horfi með hrolli fram á að lögin verði felld með þeim afleiðingum að m.a. fjármögnum sveitarfélaganna sé í uppnámi.

 

„Í upphafi skyldi endirinn skoða“ var einu sinni sagt. Gott hefði verið ef Kristján, Bjarni og félagar hefðu haft það í huga er þeir lögðu upp í þann leiðangur sem svo ömurlegan endi hlaut, hefðu verið gagnrýnni, sjálfstæðari og ekki eins illa haldnir af blindri foringjadýrkun. Víst er þeim vorkunn að standa frammi fyrir þjóðfélagi í ómældum hremmingum og að hið fallna átrúnaðargoð sé vistað á daginn í Hádegismóum. Ef þeim er vorkunn, þá er hinum ekki síður vorkunn sem sitja uppi með afleiðingar 20 ára stjórnar flokks þeirra á efnahagsmálum þjóðarinnar án þess að hafa átt hinn minnsta þátt í að honum var falið að fara með þau mál.

Lýðskrum

5. janúar 2010

Hann reið með björgum fram hann Ólafur í sumar sem frægt er orðið. Reiðskjótinn ku hafa stigið fæti í holu með þeim afleiðingum að hann hnaut og Ólafur féll.

 

Það hefur margan hent að falla af baki og er svo sem ekki í frásögur færandi, en fall Ólafs í dag er sínu alvarlegra, afdrifaríkara og verra. Satt að segja væri betra að hann héldi sig við hinn fyrri sið, þ.e. þann að falla af baki hesta er honum sýnist svo, en láta ógert að falla sjálfur á prófinu og fella þjóð sína. Betra væri að hann leiddi hana götuna fram á veg, miðlaði henni af þekkingu sinni á alþjóðamálum og kunnáttu í hvernig samskiptum þjóða í millum sé háttað og best fyrir komið.

 

Líkast til er til of mikils ætlast að gera ráð fyrir að hann geri það, hann hefur líklega of lengi verið á turninum, fyrir ofan og utan alla venjulega baráttu fyrir lífinu. Glysið hefur líkast til verið full mikið og fjarlægðin frá hinum venjulega alþýðumanni mörg síðustu árin algjör, utan hvað hann hefur komið í glæsiheimsóknir og klappað börnum á kollinn og veifað almenningi með staðlað bros á andlitinu.

 

Hann hefur ekki þurft að berjast í því að skrapa saman til að eiga fyrir útborgun launa og væntanlega ekki þurft að standa frammi fyrir því að sannfæra bankastjórann um að bráðum muni koma betri tíð. Ekki þurft að endurtaka það aftur á næsta greiðsludegi, haldandi því fram að stjórnvöld séu nú að vinna í því að laga ástandið og þetta sé alveg að koma.

 

Nei, það er ekki veruleiki Ólafs. Veruleiki hans er allt annar s.s. einkaþotur, fimm stjörnu hótel og boðsferðir á kostnað íslenskrar alþýðu eða annarrar alþýðu að ógleymdu uppihaldi auðjöfra við hin ýmsu tækifæri. Hann þekkir nánast ekki annað en það sem fylgir hinni þægilegu áskrift að launum frá hinu opinbera. Þannig hefur það æxlast fyrir honum og því er ekki við því að búast að hann hafi mikla tilfinningu fyrir lífsbaráttu þeirra sem ekki eru í sömu stöðu og hann.

 

Það er gjá milli þings og þjóðar, en ekki bara þar, það er nefnilega að myndast gjá milli þeirra sem hafa allt sitt á þurru og hinna sem hafa það ekki. Þeirra sem ekki fá launin sín í áskrift og þurfa að hafa fyrir því að hafa eitthvað að gera og einnig hinna sem berjast við að halda fyrirtækjum sínum gangandi frá degi til dags.

 

Frést hefur að Ólafur sé á leið til Indlands. Þar í landi er boðið upp á útreiðar af ýmsu tagi og er t.d. fílareið afar vinsæl á þeim slóðum. Vonandi verður ferð Ólafs ánægjuleg í alla staði, glæsimenn og konur sem hann mun hitta á þeim slóðum hin bestu og óskandi að fátæk og betlandi alþýða þvælist ekki fyrir fyrirfólkinu.

 

Og ef Ólafur skyldi nú bregða sér í útreiðatúr á fíl í Indlandsferðinni þá er vonandi að skepnan verði vel valin og traust, að hann komi heill heim og geti horfst í augu við þjóðina norrænu sem hann skildi eftir í vanda eftir að hann féll fyrir lýðskruminu.