Ráðherra á flótta

10. ágúst 2010

  Þrír af fagráðherrum ríkisstjórnarinnar hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu og hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með því, en misjafnlega komast þeir frá þeirri raun. Þegar þau Katrín Júlíusdóttir iðnaðar og orkumálaráðherra og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra gera sér lítið fyrir og taka Helga Seljan í netta kennslustund í almennum mannasiðum, þá leggur Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra á flótta undan fréttamönnum og veit eflaust að hann hefur slæman málstað að verja.

  Fram til þessa hefur margur litið svo á að hagsmunagæsluflokkarnir væru tveir, þ.e. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, en nú hefur staðan breyst og þeir eru greinilega orðnir þrír þar sem Vinstri grænir eru augljóslega komnir í þann hóp. Þegar svona er komið þá er kannski ekki nema von að ritstjóri ,,Fréttablaðsins” ákalli flokk sinn með svohljóðandi orðum: ,, Og hvað með sjálfstæðismenn… […]…Geta þeir kannski kreist upp lítið, hugrakkt tíst í þágu neytenda?”.

  Já, er nema von að örvæntingin geri vart við sig hjá fylgismönnum flokkanna þriggja, horfandi á, að öll fyrirheit um að tekin yrði upp hagsmunagæsla fyrir almenning, en ekki bara fyrir hagsmunahópa, eru vegin og metin og léttvæg fundin. Engum kemur á óvart að Framsóknarflokkurinn telji sitt helsta hlutverk vera að gæta hagsmuna kvótaaðalsins í bændastétt. Það kemur heldur ekki mörgum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn líti svo á að hans helsta hlutverk sé að gæta hagsmuna kvótaaðalsins í útgerðinni, sem og auðstéttarinnar í landinu almennt.

  Það sem kemur frekar á óvart, er að Vinstri grænir skuli telja það sitt æðsta hlutverk í stjórnmálum, þegar flokkurinn er loksins kominn til valda, að gæta þessara hagsmuna framar öðrum. Þjóðrembingsafstaða þeirra varðandi ESB málið er vitanlega vel kunn, svo og hin alkunna útlendingafælni sem þeir eru haldnir, en það hefur ekki legið fyrir skýrt og klárt fyrr en nú að þjóðrembingurinn, er þegar betur er að gáð, ekkert annað en yfirskin. Afstaðan byggist greinilega fyrst og fremst á því að stunda hagsmunagæslu fyrir fyrrnefndan aðal.

  Skipan togaraskipstjórans Björns Vals Gíslasonar sem varaformanns í nefnd um endurskoðun um stjórn fiskveiða, manns sem launaður er af Brimi hf., þrátt fyrir að sitja á alþingi, sýnir vel hvernig VG ætlar að móta stefnu sína í þeim málum. Greinilega er litið svo á, á Vinstri græna bænum, að hagsmunir flokksins fari þrátt fyrir allt saman með hagsmunum útgerðaraðalsins í landinu.

  Og nú liggur fyrir að Vinstri grænir telja hagsmunum þjóðarinnar best borgið með því að vernda kvótaaðalinn til sveita. Jón Bjarnason fer að vísu undan í flæmingi þegar reynt er að ræða við hann um málið, en það sama verður ekki sagt um formanninn Steingrím J., sem af alkunnri rökfimi tekur undir málflutning félaga síns án þess að roðna meira en venjulega.

  Framsóknarflokkarnir eru sem sagt orðnir tveir og kemur víst ekki mörgum á óvart, hitt er öllu óljósara, hve margir Vinstri grænu flokkarnir eru, en fróðlegt verður að fylgjast með hvernig málin þróast hjá þeim.

  Ætla má að einhverjir úr hópnum fylgi Ögmundi í eyðimerkurgöngu hans meðal fallinna frumbyggja Ameríku og kvalara þeirra. Ekki er að efa að femínistar allra heima munu fylkja sér um Atla, meðan einkaeigendur umhverfisins hópa sig um Svandísi og lýðskrumarar allra landa mynda flokk með Lilju Mósesdóttur.  Ein ummæli við „Ráðherra á flótta“

  1. KHS ritaði:

    Leit hér inn af forvitni og rakst á þessar skriftir þínar. Þær eru svo heimóttalegar, eftirapaðar og lausar við allt innlegg frá heilbrigðu genunum hjá þér sjálfum að manni bara ofbýður. Allt eftiröpun frá öðrum sem eru á launum við framleiðsluna. Kanski ert þú það líka. Veit ekki deili á þér.
    Kem ekki til með að leggja fyrir mig að lesa stafkrók eftir þig í framtíðinni. Lifðu heill.
    Kári H. Sveinbjörnsson.