Vinstri græna hnotan
28. júlí 2010
Að undanförnu hefur verið mikil umræða um svokallað Magma mál. Málið snýst um það hvort kanadískum manni með bjartsýnisblindu á íslenskt hagkerfi sé heimilt að kaupa meirihluta í HS Orku á Suðurnesjum af kröfuhöfum banka, sem, er á reyndi, var ekkert annað en froða, enda stóð hann á grunni hins íslenska hagkerfis. Kerfis sem afar fáir vilja setja traust sitt á, nema vera annað hvort Vinstri grænir og/eða kvótagreifar til lands eða sjávar á Íslandi.
Að þessu sögðu verður að taka það fram að svo virðist að forstjóri Magma og félagar, hafi peningavit. Þeir munu hafa haft rænu á að kaupa svokallaðar aflandskrónur fyrir lítið í útlöndum og ætla síðan að nota þær til að greiða fyrir Geysi-græna góssið sem ævintýramenn úr íslenskri pólitík voru fyrir nokkrum árum búnir að einkavinavæða. Þetta hljómar ekki vel fyrir Vinstri græna, né aðra þá sem haldnir eru útlendingafælni og því eru taugar þeirra þandar.
Að til skuli vera menn, búsettir í Kanada, sem hafi trú á að hægt sé að reka fyrirtæki á Íslandi, það þykir þeim ekki gott. Þau vilja nefnilega ríkisvæðingu á sem flestum sviðum og ef það er ekki hægt, t.d. vegna þess að ríkissjóður Íslands á ekki íslenska eðalkrónu, hvorki með gati né heila, þá finnst þeim bara alveg upplagt og sjálfsagt að ráðstafa fjármunum lífeyrissjóðanna til að klekkja á hinu kanadíska bjartsýnissvíni sem þau telja vera að ryðjast inn í hið heilaga íslenska samfélag. Bjartsýni hins kanadíska hefur sem sé smitað svo út frá sér að Steingrímur J. telur fjármagni lífeyrissjóðanna best borgið í áhætturekstri á borð við HS Orku!
Fólkið sem vill hafa allt sitt á þurru og ekkert gera, helst aldrei, hefur sem sagt fundið það út af visku sinni, að peningum annarra sé best borgið með því að spila með þá. Þarna sést inn að beini í Vinstri grænum. Fólkið sem vill hafa helst allt á vegum ríkisins, telur sjálfsagt að ,,hinir” borgi brúsann af ríkisvæðingarhugmyndum þeirra.
HS Orka, er sem stendur í eigu útlendinga, þó ekki sé almennt vitað nákvæmlega hverjir þeir eru og það er útlendingur sem er að reyna að kaupa fyrirtækið. Verði honum meinað um kaupin verður félagið bara áfram í erlendri eigu, hugmyndir um eitthvað annað eru bara vinstri grænir draumórar. Stjórnendur Magma hafa sýnt það viðskiptavit að kaupa íslenskar krónur fyrir lítið til að nota til kaupa á fyrirtækinu HS orku. Það sýnir að mennirnir hafa peningavit, nokkuð sem sárlega skortir í íslensku viðskiptalífi.
Að Vinstri grænir skuli hafa allt á hornum sér varðandi kaup Magma á HS Orku, ætti eitt og sér að vekja fólk til umhugsunar um hvort ekki sé verið að gera eitthvað rétt varðandi fyrirtækið. Þegar Atli, Guðfríður, Ásmundur, Ögmundur og félagar hafa allt á hornum sér varðandi eitthvert mál, þá er allt eins líklegt að menn séu á réttri leið.
Að stinga rannsóknarsnuði upp í hina vinstri grænu órólegu deild er bara gott og klókt, ekki er nema gott eitt um það að segja að flett verði ofan af því hvernig þessi hringekja fór af stað. Þau einu sem geta verið á móti slíkri rannsókn eru þau sem voru í ríkisstjórn þegar einkavæðingin hófst. Hér er nefnilega á ferðinni enn eitt dæmið um einkavinavæðingu þá sem stunduð var í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Sjónvarp allra landsmanna brá á það ráð að hafa eingöngu listamenn í Kastljósinu miðvikudagskvöldið 28. júlí og var það einkar vel til fundið. Kvöldið áður hafði þjóðin nefnilega horft og hlustað á fjármálaráðherrann í sama þætti og ekki átt gott með að greina hvort þar fór Steingrímur J. Sigfússon, Georg Bjarnfreðarson eða bara hinn gamli og góði kunningi Ragnar Reykás.
Hnotan sem Jóhanna varpaði í fang órólegu deildarinnar fór í flækju sem vonlegt var, það hefur aldrei gefist vel að hleypa köttum í hnotur; allt fer í flækju og enginn botnar neitt í neinu. Gerir kannski ekki svo mikið til þegar alvöru kisur eiga í hlut, en verður dálítið snúnara þegar þykjustunni kisur af vinstri grænu gerðinni eru gerendurnir.