Í hinu ríkisstyrkta ,,Bændablaði” sem kom út fimmtudaginn 8. júlí er heil blaðsíða lögð undir viðtal við Bjarna Benidiktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Viðtalið er vitanlega í tilefni af því að Sjálfstæðisflokkurinn hélt Landsfund þar sem m.a. var samþykkt tillaga um að aðildarumsóknin að ESB yrði dregin til baka. Tillaga sem er svo barnaleg að ekki hefði hún komið á óvart ef að hefði staðið svokölluð ,,Hreyfing”.

  Hreyfingin er sem kunnugt er afsprengi Borgarahreyfingarinnar, þeirrar sem bauð fram í síðustu alþingiskosningum, fékk fjóra fulltrúa á þing, en var ekki fyrr komin þar inn að hún klofnaði í tvennt, einn hélt áfram að vera ,,borgari”, en hinir þrír sem eftir voru ákváðu, að því eð virðist, að vera á hreyfingu og þangað sækja þau víst nafnið.

  Bjarni stillir sér upp til myndatöku með krosslagðar hendur á brjósti sem, af sumum er talið vera til merkis um að búið sé að loka fyrir nýja strauma og það verður að segjast, að eftir lestur viðtalsins læðist að manni grunur um að það sé tilfellið. Þvergirðingsleg sjónarmið eru allsráðandi og vitanlega er það skýringin á, að einmitt þetta blað hampar hinum endurkosna formanni svo mjög.

  Flestum er ljóst að samþykktin hefur málað Sjálfstæðisflokkinn út í horn í málinu og að ástæða þess að hún var gerð er að á þinginu var samankomin hópur þeirra sem verja vilja hið gamla kvótagreifakerfi. Þeir hinir sömu og standa að Bændablaðinu og þar liggur skýringin á hinni takmarkalausu hrifningu blaðsins á Sjálfstæðisflokknum þessa dagana. Vinstri grænir hafa fram að þessu notið þess vafasama heiðurs að vera í uppáhaldi blaðsins, en nú er það breytt og hrifningin nær orðið til Sjálfstæðisflokksins líka.

  Líkt og barn sem óttast um að nammidagurinn verði ekki virtur, spyr blaðamaður hvort ekki sé nú alveg öruggt að ekki verði hvikað frá samþykktinni um að draga umsóknina til baka, ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi nýja ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsókn. Bjarni svarar skýrmæltur að vanda: ,,Jú, við myndum setja það mál í forgang.[…]…teljum við að þetta sé röng forgangaröðun”. Formaðurinn ætlar sem sagt að draga umsóknina til baka, en á greinilega dálítið erfitt með að segja það skýrt og greinilega vitandi að ef hann stæði frammi fyrir því að þurfa að taka ábyrga afstöðu sem ráðherra, þá er málið ekki svona einfalt, en gott að gaspra meðan engin ábyrgðin!

  Bændablaðið er orðið að viðhengi Morgunblaðsins og eflaust skýrir það aðdáun blaðsins á Sjálfstæðisflokknum að hluta. Helsta ástæðan er þó eflaust sú að hagsmunir kvótagreifablaðanna tveggja falla saman. Bæði blöðin eru að gæta hagsmuna forréttindaaðalsins á Íslandi, en alls ekki hagsmuna þjóðarinnar. Það er flestum ljóst að landbúnaður og sjávarútvegur taka ekki við vinnuafli framtíðarinnar nema að litlu leyti, það skiptir hins vegar hagsmunaklíkurnar engu máli. Það eru hagsmunir kvótagreifanna bæði til sjávar og sveita sem eru aðalatriði í málflutningi blaðanna beggja.

  Þeim sem finnst gaman og gott að borga verðtryggða og himinháa vexti, búa við ónýtan gjaldmiðil sem enginn tekur mark á og greiða fyrir aðföng til rekstrar á margföldu verði miðað við nágrannalöndin – berjast fyrir óbreyttu ástandi. Þau sem vilja reyna að breyta þessu og fleiru, styðja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, en ef ekki, þá að benda á eitthvað annað, því það hlýtur að vera hverjum manni ljóst að það ástand sem ríkt hefur, ekki bara frá Hruninu, er nýjum kynslóðum ekki bjóðandi.

  Börnin okkar eiga annað og betra skilið en samfélag kolkrabba, smokkfisks, kvótagreifa og spilltra viðskiptamanna, að ógleymdum stjórnmálamönnum sem telja sitt æðsta hlutverk vera að gæta hagsmuna peningaaflanna. Aflanna sem steyptu þjóðinni fram af hengifluginu og eru þess algjörlega vanbúin að gera nokkuð til að mýkja lendinguna – gera ekkert annað en gaspra og stunda lýðskrum.



Lokað er fyrir ummæli.