Í Sunnlenska fréttablaðinu því sem út kom í síðustu viku er lítill greinarstúfur eftir þingmanninn Unni Brá Konráðsdóttur. Vonandi er að sem flestir hafi haft tækifæri til að lesa ritsmíðina, þó ekki sé nema vegna þess hve einlæg og opinská hún er.

  Í umræðunni að undanförnu hefur oftar en ekki komið fram að óskað er eftir ,,gegnsæi” og að helst allt sé uppi á borðinu. Flestir hafa eflaust talið að átt væri við í stjórnsýslunni, en nú er ljóst að til er a.m.k. einn þingmaður sem lítur svo á að rétt sé að opinberaðar séu bæði leyndustu hugsanir og þrár.

  Í pistlinum upplýsir Unnur hvers vegna hún hafi gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Það sé vegna þess hve ,,karakter” flokksins sé góður og það er hinn margnefndi ,,karakter” sem ,,heillaði” og vegna hans er hún gengin til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

  Ekki kemur fram hjá Unni hvaða ,,karaktereinkenni” það eru hjá flokknum sem hrifu hana svo mjög á sínum tíma. Var það til að mynda afstaða hans til yfirgangs Bandaríkjanna er þau fóru eldi og eimyrju yfir fátækt Asíuríki? Var hún svona hrifin af stuðningi flokksins við innrásina í Írak, hermanginu, eða bara stjórn flokksins á efnahagsmálum þjóðarinnar? Stjórnsnillinni sem leiddi af sér hrunið svo sem alkunnugt er.

  Að sögn Unnar felst hinn einstaki ,,karakter” Sjálfstæðisflokksins í því að hann er ,,traustsins verður”, en ekki er víst að allir deili þeirri skoðun með henni. Ástæða er til að setja spurningarmerki við hve traustur flokkurinn sé nú um stundir. Formaðurinn nýtur ekki nema rétt rúmlega 60% fylgis á landsfundinum, fundi sem kallaður var saman til að kjósa nýjan varaformann, en eigi að síður þótti rétt að kjósa til öryggis um formanninn líka, svona eins og til að fá úr því skorið hvort flokksmenn mundu vefja sig um hann allir sem einn. Það gerðu sem sagt ekki nema sex af hverjum tíu.

 Unnur er afar hrifin af að flokksfundurinn skyldi álykta um að aðildarumsókn að ESB skyldi dregin til baka. Sem vonlegt er þá telur hún greinilega að slík samþykkt sé mikið afrek og verður að segja það eins og það er, að þar hefur hún rétt fyrir sér. Hafi markmið fundarins verið það helst að kynna flokkinn sem afturhaldsaman og þröngsýnan þjóðrembuflokk, þá tókst það vissulega mjög vel. Þjóðinni má nú ljóst vera að í Sjálfstæðisflokkinn verður ekki leitað eftir víðsýni, framsýni, né viðleitni til að leita eftir nýjum hugmyndum.

  Það er miður, að staðan í stjórnmálum þjóðarinnar skuli vera sú sem hún er. Er ekki nóg fyrir íslenska þjóð að sitja uppi með afturhaldsflokkinn Vinstri græn í ríkisstjórn, þó ekki bætist við annar enn verri afturhaldsflokkur í stjórnarandstöðu?

  Unnur Brá játar trú sína á sjálfstæði Íslands og telur að það verði best tryggt með yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar. Hún segir hins vegar ekkert um hverjir eiga að fara með þessi yfirráð. Á landsfundinum alræmda voru hins vegar mættir fulltrúar kvótagreifa til lands og sjávar og hin makalausa samþykkt ber þess merki og því hlýtur að mega draga þá ályktun að þannig vilji Unnur hafa það: Auðlindirnar í höndum handvalinna einkavina.

  Þingmaðurinn lýsir hrifningu sinni á ,,karakter” Sjálfstæðisflokksins og trú á ,,sjálfstæði Íslands”. Hvernig það fer saman er hins vegar óupplýst og vægast sagt vandséð.



Lokað er fyrir ummæli.