Enn um lánamál
25. júní 2010
Þann 23. júní skrifaði undirritaður hugleiðingar vegna dóms hæstaréttar varðandi svokölluð gengistryggð lán. Pistillinn var ritaður í hálfgerðum galsa, en nú skal reynt að bæta um og bæta nokkru við.
Á þeim tíma sem liðið hefur frá því pistillinn ,,Lán í óláni” var ritaður hefur ýmislegt verið að ljóstrast upp sem ritari vissi ekki um áður. Nú liggur t.d. ljóst fyrir, að það var ekki bara Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi viðskiptaráðherra sem vissi allan tíman að lánin voru ólögleg. Alls ekki. Það vissu líka þingmennirnir sem enn sitja á þingi og greiddu á sínum tíma atkvæði með setningu laganna þann 19. maí 2001 þeir: Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson og Pétur Blöndal. Það vissu líka margir burt flognir þingmenn s.s. Davíð Oddson, Halldór Ásgrímsson og Kristinn H. Gunnarsson.
Það vekur athygli að Kristinn H. Gunnarsson skuli vera á þessum lista yfir menn sem vissu, en þögðu þunnu hljóði og furðuleg grein hans í ,,Fréttablaðinu” á dögunum þar sem hann leggur til að dómurinn verði að engu hafður hlýtur að skoðast í því ljósi, að þar tjáði sig maður sem vissi meira en hann lét uppi.
Er hinn almenni neytandi fer í verslun til innkaupa, hvort sem verslunin er greiðasalan á horninu, viðskiptabanki hans eða allt þar á milli, þá gerir hann ráð fyrir að verið sé að höndla með löglega vöru. Því er það, að þau sem ginntust til að taka gengistryggðu lánin og í langflestum tilfellum eru ekki lögfrótt fólk, reiknuðu vitanlega með því að um væri að ræða löglega gjörninga. Flestir hafa eflaust hugsað sem svo, að gera mætti ráð fyrir að krónan gæti hugsanlega sveiflast ca. 10% eða svo til eða frá, en það er algjör ofætlan venjulegu fólki að reikna með því að krónugarmurinn allt að því hyrfi, sem hún hefði líkast til gert ef ekki hefði verið gripið inn í.
Ábyrgð þeirra sem að lagasetningunni stóðu er mikil, en mest er hún þeirra sem allan tímann vissu, að á hverjum einasta degi var verið að gera ólöglega og stórvarasama lánasamninga, en sátu hjá og þögðu. Þeir þrír sem hér voru áður nefndir eiga vitanlega ekki nema einn kost í stöðunni, þ.e. segja af sér þingmennsku og hafna öllum eftirlaunum frá þjóð sinni. Hinir 33 fyrrverandi þingmenn, ráðherrar og seðlabankastjórar verða vitanlega einnig að víkja úr núverandi embættum, ef einhver eru og afsala sér eftirlaunum. Ekki er hægt að ætlast til að þjóð sem enn á ný stendur frammi fyrir því að þurfa að endurfjármagna bankakerfi sitt geti sætt sig við neitt annað.
Hinir, þ.e. þeir sem stýrðu lánastofnununum af blindri græðgi og einskis svifust, brutu lög og vissu að þeir voru að gera það, koma ekki til með að eiga sjö dagana sæla. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að allir sem ábyrgð bera á hinum ólöglegu lánum verði látnir fara þegar í stað og í þeirra stað fengið til starfa fólk sem ekki hefur stundað brotastarfsemi svo vitað sé.
Þau sem vissu en þögðu og ekkert sögðu, voru á þingi þegar umrædd lög voru samþykkt, en sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, þurfa að skoða hug sinn vel. Hvers vegna sátu þau hjá? Það veit ritari ekki, en gott væri að fá það upplýst.
Það er að koma æ skýrar í ljós að reikningurinn sem þjóðin þarf að borga eftir stjórnarár Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks verður stór. Afar stór. Einungis vextirnir af lánunum sem virkjuð voru á dögunum frá Norðurlöndunum og Póllandi er 12 milljónir á dag. Viðskilnaður flokkanna tveggja á sér engin dæmi í Íslandssögunni og verður vonandi lengi í minnum hafður.