Lán í óláni
23. júní 2010
Hvenær tekur maður lán og hvenær tekur maður ólán? Að taka íslenskt verðtryggt lán er ólán vegna verðtryggingarinnar, að taka óverðtryggt íslenskt lán er líka ólán vegna okurvaxta sem koma í stað verðtryggingar og að taka erlent lán, sem er raunverulega erlent, er líka ólán ef maður er íslendingur með tekjur í furðumyntinni ísl. krónur.
Líf hins skuldþyrsta íslendings er sem sagt fremur flókið, eða réttara sagt var það, þangað til hæstaréttardómurinn féll á dögunum og nú liggur það fyrir að ef maður er svo lánsamur að geta fundið einhvern lánfúsan og sem er nógu illa að sér í lögum, þá getur allt farið vel. Ólán verða að láni, svo er hinum vísu dómurum fyrir að þakka sem sáu villuna í lánasamningunum níu árum eftir að farið var að lána ólánin, sem nú virðast vera að breytast í lán fyrir lántaka, en að sama skapi martröð fyrir lánveitendur. Sannast þar hið fornkveðna að sá hlær best sem síðast hlær. Íslenskt peningakerfi er svo vitlaust, vanþróað og glært að ekki er til annars en hlæja að.
Stórasta land í heimi er þá bara það fáránlegasta þegar betur er að gáð, hafandi haft viðskiptaráðherra til margra ára sem fátt vissi kannski um viðskiptamál, en vissi þó að ekki mætti lána ólán sem tryggð væru í erlendri mynt og gætti þess vandlega að segja engum frá. Vafalaust rétt af Valgerði að þegja þunnu hljóði yfir vitneskjunni, því eflaust hefði enginn trúað framsóknarkonunni ef hún hefði opinberað sannleikann. Reynslan af stjórnsnilli framsóknarmanna enda slík, að fæstum hefði komið til hugar að taka mark á, ef varúðarorð hefðu komið úr þeirri áttinni - framsóknarmönnum fer víst flest annað betur en skynsamleg hagstjórn.
Deilt er um hver skuli borga. Lánveitendur vilja fá sitt og benda á Ríkið, sem eins og allir vita nema Vinstri grænir, er blankt. Gamall þingmaður og kunnur flokkaflakkari bendir á lánþegana og finnst þeir réttir til að borga, en þeir eru líka blankir og þar að auki nýbúnir að vinna málið fyrir hæstarétti. Það virðist hafa farið framhjá Kristni, enda ekki alltaf ljóst hvert hann er að fara í málflutningi sínum og er vorkunn þó hann ruglist dálítið í málinu, því hver gerir það ekki. Hundruð hámenntaðra lögfræðinga hefur í áranna rás legið yfir lánasamningunum sem til umræðu ertu og ekkert séð athugavert.
Merkilegt hve glögg Valgerður hin norðlenska er, að hafa tekið strax eftir veilunni og líklega eins gott að hún gætti þess að segja engum frá, því þá hefði þjóðin ekki getað sukkað eins verklega og raun ber vitni. Framsóknarmenn hafa haft þá skoðun að lán skuli ekki greiða heldur velta þeim yfir á aðra með alkunnum millifærslum. Hins vegar hafa þeir verið þeirrar skoðunar að ólán væru allt annarrar gerðar og því væri rétt og skylt að ólántakendur greiddu þau og því var það að þeir fundu upp hina alræmdu verðtryggingu sem enginn skilur, ekki einu sinni framsóknarmenn, sem þó hafa einstaka hæfileika til að greina kjarnann frá hisminu. Þeir sjá oft einfalda lausn á flóknum vandamálum og er tuttugu prósenta síbyljan gott dæmi þar um.