Frá því er greint í nýjasta tölublaði ,,Bændablaðsins” að nú sé því dreift með ,,Morgunblaðinu” og er það við hæfi.  Blað Bændasamtakanna styður að mestu sömu sjónarmið og blað sjávarkvótagreifanna og er gefið út af Bændasamtökunum. Rekstur þeirra er kostaður af þjóðinni og þau gefa út blaðið sem sent er inn á flest þau heimili landsins sem í dreifbýli eru, að öðru leyti liggur blaðið víða frammi og er fríblað. Minna má á að í landbúnaði ríkir kvótakerfi sem í flestu er jafn fáránlegt og óréttlátt og það sem er í sjávarútvegnum, þannig að sjónarmiðin í Hádegismóum og við Hagatorg falla eflaust í flestu saman.

  Morgunblaðinu er haldið úti til að berjast fyrir hagsmunum kvótagreifanna í sjávarútvegi og Bændablaðið er málgagn kvótagreifanna í landbúnaði og því er ekkert eðlilegra en að blöðunum sé slegið saman í eitt. Hagsmunirnir eru þeir sömu, kostunaraðilarnir eru einnig að hluta þeir sömu (þ.e. almenningur), þannig að í raun væri bara eðlilegast að blöðin rynnu saman í eitt og gæti nafn hins nýja blaðs þá t.d. Morgunbændablaðið eða kannski væri betra Bændamorgunblaðið. Hér með er lagt til að einhver hagur maður finni gott nafn á ritið, en vegna þess að gera má ráð fyrir að höfuðstöðvar hins nýja blaðs verði í Hádegismóum - ekki er svo líflegt í Bændahöllinni eftir að ráðstefnan góða var blásin þar af um árið - þá má hugsa sér að leggja til eitt nafn enn s.s.: Móabændablaðið.

  Þeir sem hrífast af íslenskri þröngsýni eins og hún gerist verst, nú eða best, eftir því hvernig á það er litið, geta nú glaðst yfir að hafa eignast málgagn sem stendur undir nafni, þ.e. þegar búið verður að finna því nýtt nafn. Í Sovétríkjunum sálugu var gefið út blað, sem reyndar kemur enn út og kallaðist ,,Rödd sannleikans” þegar einhver, sem taldi sig vera góðan í rússneskunni, fjallaði um ritið á gömlu Gufunni fyrir margt löngu. Hvort sú þýðing á nafninu ,,Pravda” er rétt ætlar ritari ekki um að dæma, en hins vegar var það haft fyrir satt að blað þetta væri ekki neitt sérstaklega góður fulltrúi fyrir sannar og áreiðanlegar fréttir á þeim tíma þegar Bréfsnef og  aðrir slíkir fulltrúar manngæsku og góðra gilda réðu ríkjum austur þar.

  Gera verður ráð fyrir að hið nýja sambræðslublað kvótahirðarinnar íslensku verði engu síðra en hið rússneska á sínum tíma og því er ekki neitt nema gott um það að segja að blöðin tvö renni saman. Það er vitanlega þægilegt að ganga að hlutunum á einum stað. ,,Einhvers staðar verða vondir að vera”, var víst sagt í eina tíð og alltaf er gott að geta gengið að hlutunum vísum. Þeir sem hafa hingað til talið sér trú um að ,,Bændablaðið” væri faglegt og hlutlægt blað, sem fjallaði um málefni landbúnaðarins á málefnalegan hátt sjá nú í gegnum grímuna. Það stendur nakið og rúið trausti líkt og keisarinn forðum.

  Hitt blaðið, hið gamla Morgunblað, hefur engu að tapa. Það traust, sem blaðið hafði þrátt fyrir allt skapað sér, fór forgörðum þegar blaðið komst í hendur kvótagreifanna og víst er að traustið jókst ekki við hin alræmdu ritstjóraskipti. Til að endurreisa blaðið þurfti að afskrifa nokkra milljarða sem að mestu féllu á íslensku þjóðina. Hefði blaðið haldið áfram að þróast í átt til víðsýns fjölmiðils eins og það hafði gert í mörg ár, hefði hugsanlega verið þess virði að endurreisa það, en svo fór ekki og ekki er því að treysta að vegur blaðsins aukist við samruna við Bændablaðið.Lokað er fyrir ummæli.