Unni Brá: Brá.
9. júní 2010
Gott er til þess að vita að á Alþingi skuli sitja þingmenn sem alltaf og ævinlega eru tilbúnir að taka upp hanskann fyrir íslenska þjóð og ekki spillir að viðkomandi sitji á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Unnur Brá Konráðsdóttir er ein af þeim sem stendur á verði og gætir þess að ekkert það sé gert hérlendis né erlendis sem hrukkað eða gatað getur huluna sem breidd er yfir raunveruleikann, nefnilega þann að nákvæmlega engu máli skiptir hvort rætt er um hugsanlega aðild Íslands að ESB 17. júní eða hvern þann annan dag sem mönnum dettur í hug. Það er hins vegar einkar athyglisvert að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli finna fyrir ónotum af slíkri umræðu, flokksins sem ekkert á skylt við umræddan dag nema nafnið eitt.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega alltaf verið flokkur ósjálfstæðisins, daðursins og hermangsins, að ógleymdri hagsmunagæslunni. Flokkurinn sem flaðraði af þvílíkum dugnaði upp um heimsveldið í vestri að sárafá dæmi eru um annað eins í heimssögunni. Þegar Bandaríkin voru að murka lífið úr saklausri bændaþjóð í Asíu á síðustu öld, þá þótti Sjálfstæðisflokknum það bara gott. Þegar sama heimsveldi ruddist inn í Dóminíkanska lýðveldið var það líka bara gott og þegar fasistar steyptu löglegri stjórn Chile af stóli, þá var það Sjálfstæðisflokknum hreinasta ánægjuefni. Nýjast er svo það að flokkurinn styður og hefur alla tíð stutt hið ofbeldisfulla leppríki Bandaríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs og ekki er vitað um eitt einasta fólskuverk sem yfirvöld þar hafa framið sem Sjálfstæðisflokknum hafi ekki þótt afsakanlegt.
Þingmaður sem situr fyrir Sjálfstæðisflokkinn er sem sé viðkvæmur fyrir 17. júní! Í hvaða heimi lifir konan? Veit hún ekki í hvaða stjórnmálaflokki hún er? Ef svo illa er komið fyrir henni, verður að gera þá kröfu til formanns Flokksins að hann hnippi í viðkomandi þingmann og vísi honum veginn, því ekki er gott ef þingmenn hins eðla flokks fara að brölta eftir mjóa veginum. Eins víst að á þeim vegi finnist ekki styrkir og vafningar svo sem þurfa þykir og því væntanlega best að vera ekkert að álpast á slíkar slóðir.