Sólin skín björt og fögur dag eftir dag, Eyjafjallajökull heldur í sér og hitastig daganna er sem um miðjan júlí sé á góðu ári, en sólin skín ekki alls staðar. Hún skín ekki í hjörtum fulltrúa spillingarflokkanna á alþingi, þeim líður illa og það svo að einn helsti fulltrúi Morfís- blaðursins er farinn að tala um smjörklípu og finnst þá sumum að verið sé að snúa faðirvorinu upp á andskotann.

  Enginn þarf að vera hissa á að hinn dagvistaði fyrrverandi Seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri málgagns kvótagreifanna, hafi áhuga á að fjalla um allt það sem að þeirri stofnun snýr, nema vitanlega gjaldþrotið sem snilli ritstjórans leiddi yfir bankann og þar með þjóðina. Hitt vekur meiri furðu að ,,önnum” kafnir alþingismenn, sem vel að merkja eru fulltrúar þeirra sömu afla og ritstjórinn þjónar, skuli hafa tíma til að gaspra um ekkert í tíma og ótíma.

  Bankastjórar sem ekki höfðu staðið sig voru látnir taka pokann sinn (ekki einu sinni sviptir svimandi háum eftirlaunum) og í staðinn var ráðinn maður sem getið hafði sér gott orð með störfum sínum erlendis. Maðurinn var ráðinn til starfans á mun lægri launum en hinir brott viknu höfðu haft hver um sig, þannig að allir sjá að hagræði af mannaskiptunum er talsvert. Ekki bara vegna þess að fjármunir til launa viðkomandi sparist þegar fram líða stundir, því einhvern tíma kemur að því að þeir losni af spena ríkissjóðs, heldur ekki síður vegna þess að gera má ráð fyrir að bankanum verði betur stjórnað hér eftir en hingað til.

  Glæpur forsætisráðherra á að vera sá að hún hafi hlutast til um að laun hins nýja seðlabankastjóra yrðu það sæmileg að hugsanlegt væri að hann fengist til starfans. Hefði hún gert það væri það ekki annað en gott og blessað, fyrst hin ringlaða þjóð vill endilega vera að montast við að reka sjálfstætt hagkerfi, sem reyndar er fullreynt að hún ræður ekkert við.

  ,,Hagkerfi” íslensku þjóðarinnar hefur ekki verið neitt annað en prívat hagkerfi spillingarflokkanna tveggja Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Því þarf ekki að koma neinum á óvart hve mikinn áhuga flokkarnir hafa á að halda óskapnaðinum við. Það kemur vitanlega ekki til af öðru en áhuga á að halda við hinu rotna kerfi spillingar og sérhagsmuna.

  Eyðimerkurganga Samfylkingar með hið ráðvillta og allt að því galna VG lið verður helst réttlætt með því að hugsanlega verði hægt að höggva örlítið í rætur spillingaraflanna, en vegna þess hve ráðvilltir græningjarnir eru og fljótir til að flaðra upp um spillinguna – sbr. Heimsýnardaðrið - , þá er ekki nokkur minnsta von til að hægt verði að uppræta allt það illgresi sem plantað hefur sér niður í íslensku samfélagi.

  Spillingaröflin sem fyrrverandi formaður flokksins sem kennir sig við sjálfstæði var búinn að koma auga á áður en lýðveldið var stofnað, áður en flokkarnir tveir voru farnir að helmingaskipta á milli sín hermangi og kvóta. Áður en þeir fundu upp á að ræna þjóðina öllum helstu stofnunum til þess að gefa þær flokksgæðingum.

  Ekki furða að styrkþegunum finnist þeir hafa efni á að gapa og reyna  að níða skóinn niður af heiðarlegu fólki sem er að reyna að uppræta óþverrann sem þeir sáðu.Lokað er fyrir ummæli.