Shangri-la

28. maí 2010

  Svandís, Lilja, Ögmundur, Atli, Ásmundur, Jón, Álfheiður, Steingrímur… Svandís er ráðherra, það er Álfheiður líka og svo vitanlega Steingrímur, en ekki er víst alveg öruggt að Jón verði ráðherra til lengdar, þó hann sé það í dag. Landbúnaðar- Jón og sjávarútvegs er ekki alveg öruggur með að fá að halda stöðu sinni í ríkisstjórninni og víst er að eftirsjá verður að honum fyrir þau sem gaman hafa af uppákomum allskonar. Jón hefur nefnilega haft alveg einstakt lag á að vekja á sér athygli, en hvort það hefur verið honum og málaflokkum þeim sem hann fer með til framdráttar er annað mál, en íslenska þjóðin hefur alltaf gaman af sérkennilegum einstaklingum og kann því vel að meta þá takta sem Jón hefur tamið sér. Jón brosir ævinlega í viðtölum, líkt og Skötuselurinn sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, segir oft eitthvað skondið og furðulegt og þjóðin skemmtir sér.

  Forveri hans, sá sem var á undan Einari vestfirðingi, hafði það fyrir sið að kyssa bæði kýr og strúta til að vekja athygli á hve yndislegar þessar skepnur eru; fékk að vísu í magann af kossaflensinu við þá síðarnefndu, en það jafnaði sig allt saman. Jón gæti allt eins tekið til við að gera eitthvað í þessu líkt og er þá alveg öruggt að engum mun leiðast sem á horfir. Hver gæti t.d. ekki hugsað sér að horfa á Jón í faðmlögum við sætan og krúttlegan hrút sem ekki er búið að súrsa, nú eða þá gölt sem ekki er orðinn að beikoni. Huggulegur geithafur með laglegt hökuskegg tæki sig líka ábyggilega vel út í víðum faðmi Jóns, en ekki er víst að við fáum nokkurn tíma að njóta þessa og það er miður.

  Nú mun vera komið að því að hagræða í Stjórnarráðinu og finnst mörgum að það megi ekki seinna vera. Til stendur að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt og því er það að styttast mun í ráðherratíð Jóns, þessa uppáhalds allrar þjóðarinnar, en Jón getur þó alltaf gengið í Besta flokkinn hjá nafna sínum og þar á hann heima. Ekki vegna þess að hann sé svo góður í að segja aulabrandara, því enginn kemst með hælana þar sem Jón besti hefur tærnar í því efni, heldur vegna þess að Jón græni gæti dempað nafna sinn niður með súru þegar Jón besti gengur of langt í glöðu (sem hann náttúrulega gerir aldrei).

  En ef Jón gengur í Besta flokkinn, eða það sem betra væri, stofnar Besta flokksdeild fyrir norðan, hvað verður þá um félaga hans? Ásmundur gæti náttúrulega stofnað Bestu flokksdeild í Dölunum og auðvitað er bara sjálfsagt og eðlilegt að Svandís stofni mannasiðadeild á vegum Besta flokksins í Reykjavík. Álfheiður gæfi svo öllu liðinu heilbrigðisvottorð (ekki áminningu), Lilju, Ögmundi og Atla, ekki mun af veita. Ekki er gott að segja hvað verður um Steingrím ef þetta gengur eftir, hann hefur jú eiginlega ekki gert annað en reyna að vera til friðs eftir að hafa klúðrað Icesave- inu, en hugsanlegt er að finna mætti honum hlutverk í Brussel.

__ __ __

 

  Fyrrverandi útvarpsmaður steig fram og kvað upp úr með að samflokkskona hans, sem ekkert hafði til sakar unnið annað en vera dugleg við að afla fjár til að standa straum af kosningabaráttu sinni, skyldi útlæg úr pólitíkinni vera og segja af sér. Þáttagerðarmaðurinn telur sér greinilega trú um að sviðið verði hreinna fyrir framabrölt hans í pólitíkinni þegar borgarstjórinn fyrrverandi er farinn úr þeirri sömu tík. Vonandi er ekki verið að kasta steinum úr glerhúsi, tíminn mun leiða það í ljós. Lausir ganga hins vegar á eftirlaunum, kreistum undan nöglum almennings í landinu, vitringarnir þrír sem höfðu það af með snilli sinni að setja Seðlabankann á hausinn. Enginn nefnir þá og greinilegt er að ekki á við þeim að hrófla.

   Það hefur stundum þótt skynsamlegt að velja sér andstæðinga við hæfi og ekki mun vera verra ef þeir finnast innan eigin raða.Ein ummæli við „Shangri-la“

 1. Anna Sigríður Guðmun ritaði:

  Sæll Ingimundur. Ég bíð bara eftir að lanbúnaðarvörur verði einungis ræktaðar í blómapottum? Kjöt ræktað í blómapottum…?
  Er það ekki bara það sem við viljum?
  Í Bandaríkjunum eru skepnur pyntaðar og sjá aldrei sólarljós né nýtt gras, hvað þá eitthvað annað af því sem jörðin okkar hefur uppá að bjóða? Afleiðingarnar af neyslu þess eru ekki góðar!
  Hvað finnst þér?
  Ekki veit ég hvað er best! Hafðu það gott Ingimundur minn. M.b.kv.