Hringavitleysa

9. apríl 2010

Frá því er greint á vef Mbl.is að búið sé að finna upp kindur sem rýi sig sjálfar og hlýtur það að teljast góð nýjung í allri kreppunni. Næsta skref verður eflaust að ræktaðar verði upp kindur sem éti sig sjálfar og verður þá varla lengra komist í að fullkomna landbúnaðinn. Ekki ónýtt, ef vel tekst til, því þá geta bankar landsins í framhaldinu átt von á að svínaræktin fylgi í kjölfarið og svínin éti sitt eigin beikon, hamborgarahrygg og svínarif.

Þegar landbúnaðurinn verður kominn á þetta stig verður ,,offramleiðsla” fortíðarhugtak sem afar og ömmur framtíðarinnar þurfa að skýra út fyrir barnabörnum sínum með mikilli fyrirhöfn. Bankastarfsemi verður hins vegar vafalaust áfram jafnvitlaus og oftast áður og þar á bæjum geta menn dundað sér við að framleiða svín fyrir svín – eins og kannski hefur alltaf verið gert – án þess að nokkur von sé um að framleiðslan skili hagnaði. Áfram verður hægt, sem ávallt áður, að halda starfseminni gangandi með naglakreistum á almenningi meðan hinir útvöldu tútna út.

Þegar hér verður komið, verður málum landbúnaðarins best komið undir viðskiptaráðuneyti, enda svínaríið hvort eð er komið til bankanna. Hinn hugumstóri og vopnfimi súrmetisaðdáandi í landbúnaðarráðuneytinu getur þá ásamt meðreiðarsveini sínum úr Dölunum snúið sér að öðru, flestum til léttis, nema vitanlega framsóknarmönnum allra flokka, þeim sem ætíð vilja hafa allt eins og það hefur verið frá fornu fari. Hinum, þeim sem léttir við breytinguna, mun líða betur sem því nemur að forneskjan minnkar og hagkvæmni eykst í rekstri samfélagsins.

Atvinnuleysi mun, svo dæmi sé tekið, hverfa mjög auðveldlega og ef eitthvað skyldi nú fara á því að bera, þá er ekki annað að gera en skella mannskapnum í svínarækt eða kinda og allir munu una glaðir við sitt. Hvað getur svo sem verið göfugra en að framleiða svín fyrir svín og prjóna flíkur úr sjálfprjónandi ull af sjálfrúnum kindum?

Fyrirmyndin að þessum starfsháttum liggur fyrir. Bankastarfsemi á Íslandi varðar veginn. Þar hefur ætíð verið haft að leiðarljósi að sem minnst vit sé í því sem gert er, því er hægt að sækja sér þangað ómældan fróðleik um hringavitlausa starfshætti ef á þarf að halda.

Ef það dugar ekki til þá má bregða á það ráð að koma á samsteypustjórn Sjálfstæðis, Framsóknar og Vinstri grænna, því slík samsuða leysir allan vanda með því að búa til annan verri og þá verður allt gott, eða er það ekki?

_ _ _

Fréttir berast nú af því að haustmaður Íslands sé flúinn úr landi og að ekki sé von á honum heim aftur alveg í bráð. Hvort hinn sérkennilega og fylgispaka málpípa hans og einn einarðasti talsmaður frjálshyggju og einkavinavæðingar er farinn líka hefur ekki spurst.

Er kannski komið að því, að aðrar og stærri þjóðir fái nú að njóta hæfileika íslensku  snillinganna?

Er annar þáttur útrásarinnar kannski að hefjast?2 ummæli við „Hringavitleysa“

  1. Valur ritaði:

    .. blessaður nei! hæfileikasnauði-ritstuldar-prófesorinn er víst enn að gjamma upp í Háskóla .. þó hann mætti gjarna láta sig hverfa líka.Um hvort þeir leggi upp í ,,útrás,, efast ég stórlega um. Fólk í útlandinu er ekki jafn ginkeypt fyrir svona Frjálshyggju og þjóðin litla í landinu bláa var á sínum tíma.

  2. Ingimundur Bergmann svaraði:

    Sæll Valur
    Þau hafa nú líka fallið fyrir svona mannskap þarna úti: Þjóðverjar, Ítalir, Spánverjar, Grikkir, Portúgalar, Rússar og ekki má gleyma blessuðum verndurum alheimsins Bandaríkjamönnum og marga fleiri mætti telja.