Fyrrverandi dýramálaráðherra, sem nú orðið talar mest til landa sinna af Klörubar á Kanarí, talar fyrir því að stofnuð verði „sérstök öldungadeild fyrrverandi alþingismanna”. Telur Guðni heppilegt að hinir afdönkuðu stjórnmálamenn komi saman með reglubundnum hætti til að miðla af reynslu sinni. Líkast til er ætlunin að miðlað verði kunnáttu í: Hermangi, helmingaskiptum, einkavinavæðingu, þjóðrembu (d: öryggisráðið og innrásin í Írak), undirlægjuhætti við herraþjóðina, ráni á eigum almennings með gengisfellingum og margt fleira mætti telja. Hvernig framkalla skuli algjört hrun á hagkerfi heillar þjóðar verður eflaust ofarlega á listanum og af því sést að hugmyndin er algjörlega ómissandi og verður að komast í framkvæmd sem allra fyrst eða hitt þó heldur. Guðni áttar sig ekki á því að íslenska þjóðin þarf á öllu öðru að halda en gamaldags íslenskri pólitík, hagsmunagæslu og fyrirgreiðslu. Það er löngu komið nóg af slíku.

_ _ _

Ísland er ekki skógi vaxið land og því er víst að leikritið um dýrin í skóginum hefur ekki verið skrifað með það í huga. Það er hins vegar annað mál, að hrifning Íslendinga af hinum ýmsu dýrategundum er slík að með ólíkindum hlýtur að teljast. Örstutt er síðan að Skötuselurinn var á allra vörum og gullfiskar og hænsn hafa notið mikillar hylli í umræðunni undanfarna mánuði.

 

Það fer eftir ýmsu í hvaða sambandi þessir félagar okkar úr lífríkinu eru nefndir og hefur það bæði verið til hóls og niðrunar. Þannig þykir frekar gott að vera við ,,hestaheilsu”, en hins vegar þykir ekki nein sérstök upphefð í því að vera sagður ,,vera með gullfiskaminni” og þó hundinum sé hampað í tíma og ótíma fyrir tryggð og góðar gáfur er víst ekki mjög fínt að vera ,,hundslegur”. Steininn tekur þó úr hvað varðar rangsleitnina í líkindamálinu þegar komið er að vinsælustu jólasteikinni, því ef virkilega þarf að úthúða einhverjum þá er hann sagður ,,svínslegur” og ekki nóg með það, því ekki þykir verra ef hægt er að segja um hann: að viðkomandi sé sóði sem svín. Svínin eru, eins og flestir vita, einhverjar hreinlegustu skepnur sem mannskepnan hefur valið sér til samneytis, þannig að ósanngjarnari getur samanburðurinn ekki orðið. Ekki er þó vitað til að svínin hafi kallað saman fund til að fjalla um málið, en líklega fer að koma að því.

 

Á dögunum komst forsætisráðherra þjóðarinnar svo að orði, að það að hóa saman þingmönnum samstarfsflokksins ,,væri eins og að smala köttum”. Smellin samlíking sem nær allir áttuðu sig samstundis á hve rétt er, því nær ómögulegt er að smala kvikindunum. Ein leið er að vísu fær því hægt er að skelfa kisurnar svo mjög að þær hlaupi endanlega á dyr og leggist út og verði eftir það útigangskettir, en það telst víst ekki vel lukkuð smölun að tapa öllu út í veður og vind. Þegar svo er komið er talið sjálfsagt, að það sem einu sinni voru malandi kisur, séu réttdræpir útlagar og jafnvel gerðir út sérstakir leiðangrar í þeim tilgangi.

_ _ _

 

Jóhönnu er vandi á höndum. Ekki vill hún að svo illa fari að órólega deildin í samstarfsflokknum gerist urðarkettir og því á hún ekki annan kost en að strjúka þeim og klóra í þeirri von að þeir gerist samstarfsfúsir, láti malið nægja og vinni að öðru leiti vinnuna sína.

 

Yfirfressinu í þessu vinstri græna Kattholti er einnig vandi á höndum því það er að honum sótt. Þar fer fyrir gamall þrætubókarkisi sem ekki má vanmeta, en hann er ekki einn á ferð; einn er úr Dölunum og annar úr höfuðborginni og marga fleiri mætti telja. Foringinn þarf því að gæta að sér og halda þeim í hæfilegri fjarlægð, án þess þó að slík styggð komi að þeim að þeir hrökkvi í burtu og komi sér upp sínum prívat kisuhóp.

 

Vinstri grænir héldu fund um ummæli forsætisráðherrans, ekki hefur mikið spurst út, um hvað var malað, en málið er greinilega tekið alvarlega, því hvatamaður fundarins var dýramálaráðherrann sjálfur. Orð forsætisráðherrans vega að vonum þungt í dýraríkinu sem annars staðar og því er ekki að undra að þeir hafi komið saman til malfundar félagarnir í flokki vinstri grænna.

 

Vitanlega er öllum nema vinstri grænum löngu orðið ljóst, að flokkur þeirra er ekki samstarfshæfur í ríkisstjórn, vandinn er bara sá að aðrir kostir hafa ekki verið í stöðunni. Nú er kominn tími til að málin verði skoðuð að nýju og til dæmis kannað hvort Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að átta sig nægjanlega mikið til þess að hann geti talist samstarfshæfur. Hugsandi sjálfstæðismenn eru vissulega til og nú þarf að koma í ljós hvort þeir eru nægjanlega margir til þess að flokkurinn virki. Lokað er fyrir ummæli.