Skötuselurinn brosir

29. mars 2010

Hann brosir breitt, enda kjafturinn glæsilegur, hvernig sem á er litið, víður og vel tenntur og hentar einkar vel til síns brúks. Það hafði aldrei að honum hvarflað, þar sem hann lúrir og bíður eftir næringunni að frægðarsól hans ætti eftir að skína svo skært og sterkt sem raun ber vitni. Hvernig hefði honum svo sem átt að detta í hug, að hann ætti eftir að verða bæði frægur og vinsæll.

 

Líklega veit hann minnst um það sjálfur, hve frægur hann er orðinn og eflaust hefur hann enga hugmynd um hve tilvera hans hefur megnað að hækka blóðþrýsting mannveranna. Satt að segja snýst líf hans fyrst og fremst um það að lifa af og líklega veltir hann því ekki fyrir sér hve yndislegt og göfugt það er, að vera étinn í endalausum matarveislum. Þaðan af síður leiðir hann hugann að því hve gaman það verði að vera fluttur út eftir að hafa  verið drepinn. Nei, hann spekúlerar ekki svo mjög í þessu, enda heimur hans allmjög frábrugðinn heimi þeirra sem á yfirborðinu búa, svo frábrugðinn að hann hefur ekki hugmynd um að til sé LÍÚ., né nokkur önnur hagsmunasamtök. Það hefur nefnilega ekki verið til siðs að stofna til bandalaga þarna niðri og peningar hafa ekki verið innleiddir og samfélagið er fremur fábrotið.

 

Samt er svo komið, að líf þessa munnstóra og brosmilda náunga hefur öðlast algjörlega nýjan tilgang, göfugan og að mörgu leyti merkan. Það hefur komið í hans hlut að kollvarpa tilveru kvótagreifa og gefa lífi ráðherra á eyjunni aukið gildi. Viðkomudugnaður skötunnar, sem ekki er skata og selsins, sem ekki er selur, hefur fært ráðherranum vopn í hendur í baráttunni við greifana og aldrei þessu vant eru ráðherrar, þingmenn ríkisstjórnarinnar, fylgismenn og margir fleiri sammála. Sammála um að drepa hið brosmilda dýr, éta það síðan og það sem ekki verður komist yfir að éta, verður flutt til annarra landa.

 

Svona geta nú vegir lífsins verið óútreiknanlegir. Af því að fiskur í sjónum gerist duglegur við að eðla sig og fjölga - þrátt fyrir að hafa aldrei átt þess kost að bregða sér á súlustað til upplyftingar og örvunar -, þá fer nánast allt á annan endann. Fram til þessa hefur hann stólað á að hans stóri og allt að því sjálfstæði kjaftur sæi til þess að tryggt verði að hann komist af og verði ekki étinn. Kjafturinn gagnast honum best til að éta aðra. Allt er í heiminum hverfult og hann sem hefur verið svo duglegur við að éta og fjölga sér, sér nú fram á að það verði til einskis. Hinum nýju þjóðfélagsþegnum verður útrýmt af dýrategund, sem býr ekki einu sinni í hafinu og aldrei hafði honum dottið í hug að það væri aðalatriði málsins hver fengi að njóta þess heiðurs að veiða hann, drepa og éta.

 

Einfaldur og saklaus skötuselur getur ekki alltaf skilið hve lífið er flókið. Kannski eins gott. Hann unir nefnilega glaður við sitt þrátt fyrir og kannski vegna þess að hann þekkir ekki LÍÚ og SA, né önnur samtök mannskepnunnar. Það þykir gott að vera vinsæll, en hvort það er gott að vera vinsæll til þess að verða drepinn og étinn er ekki víst og líklega kemur það út á eitt fyrir skötuselinn hver það verður sem náðarinnar nýtur. Hann bara brosir sínu blíðasta og bíður eftir næstu bráð og það gera þeir vafalaust líka sem vilja fá að veiða hann, það er að segja: Bíða eftir næstu bráð, en ekki eins öruggt með brosið.

__ __ __

 

Ráðherra súrmetisins og sjávarútvegs hefur nýlega tekið þá ákvörðun að aldrei þessu vant verði kvótagreifum Íslands ekki færður aukinn veiðiréttur á skötuselnum á silfurfati. Þess í stað verði væntanlegir veiðendur  að greiða fyrir réttinn og í framhaldi af því hrína greifarnir líkt og frekir dekurkakkar og telja illa með sig farið. Hér stígur ráðherrann skref í átt til breytinga á íslensku samfélagi sem ástæða er til að styðja. Það er löngu tímabært að afnema núverandi kerfi og hvert eitt skref sem stigið er á þeirri leið er í rétta átt. Átt frá forréttindasamfélaginu.Lokað er fyrir ummæli.