Og fúleggin springa..

10. mars 2010

Rétt um þrjár vikur eru til páska og því ekki seinna vænna að fúleggin springi framan í þjóðina. Það er þá meiri von til, að á hátíðinni sjálfri verði friður fyrir slíkum uppákomum. Það var látið heita svo að kosið væri um Icesave málið í kosningunum sem fram fóru um síðustu helgi. Hið rétta í því máli mun vera að kosningin hafi verið sjónarspil til þess eins að Bessastaðabóndinn gæti náð vopnum sínum gagnvart þjóð sinni, enda kom ekki annað út úr atburðinum en það, að Icesave-ið er áfram í sínu gamalkunna frosti sem aðferðafræði VG- foringjans kom málinu í. Þangað fór það og ekkert útlit er fyrir að þaðan muni það fara eitt eða neitt á næstunni. Fyrir því eru ýmsar ástæður og sú helsta: að nú liggur viðsemjendum Íslendinga ekkert á lengur, önnur er að Vinstri grænir geta ekki gert upp við sig hvaða skoðun þeir vilji hafa á málinu og sú þriðja er að stjórnarandstaðan spilar á þá líkt og púkinn á fjósbitanum í fullkomnu ábyrgðarleysi þeirra sem enga ábyrgð bera, né vilja bera.

 

Og nú berast þær fréttir, að til að koma á friði innan VG, standi til að taka Ögmund Jónasson inn í ráðherralið stjórnarinnar og sýnir það hve illa málum er komið. Össur svaraði því til í viðtali á dögunum að hann væri nú bara ráðherra á plani. Skondið svar, sem vísar í þekkta þáttaseríu er gengið hefur í sjónvarpi, en ekki átti undirritaður von á að svona stutt væri í að Bjarnfreðarson gengi inn á sviðið. Því ef Össur er starfsmaðurinn á plani, þá er Ögmundur augljóslega hin fræga aðalpersóna þáttanna, það er hinn títtnefndi Bjarnfreðarson. Samlíkingin er, ef að er gáð, ekki svo fráleit þar sem persóna þessi lítur á sig sem hreinræktaðan komma af gamla skólanum, er fastur fyrir og stendur á sínu. Þá er hann með þrætubókina á hreinu og algjör snillingur í því að firra sig ábyrgð.

 

Þannig eru málin þá að þróast. Þegar flestum finnst sem kominn sé tími á að endurnýja og fríska upp á ríkisstjórnina, hressa hana upp og gefa ferskari blæ, þá er það gert með því að víkja til hliðar einni forneskjunni fyrir aðra, þ.e. Jóni fyrir Ögmund. Nokkuð sem mun hressa bæta og kæta þá sem barist hafa í því að styðja stjórnina til góðra og nauðsynlegra verka, eða hvað? Halda menn ekki að það sé gaman að geta bent á það sem dæmi um hve bjart sé yfir ráðherraliðinu að Ögmundur Jónasson sé aftur orðinn ráðherra. Hvort menn hefi ekki tekið eftir því og nú verði allt gott: Vinstri grænir verði ljúfir sem lömb og muni ganga einhuga til þeirra verka sem gera þurfi, ekki þurfi fólk lengur að óttast sundurlyndisfjandann sem þar heldur til, því Ögmundur hafi nefnilega troðið kvikindinu ofaní skúffu og læst henni vel og vandlega.

 

Góð saga og ekki mikið verri en ýmsar aðrar sem ganga meðal þjóðarinnar, skemmtisaga en annað ekki. Fólki finnst nefnilega ekki lengur að stjórn landsins sé, né eigi að vera skopleikur í fáránleikastíl. Það er komið að því að almenningur er búinn að fá nóg og með fullri virðingu fyrir Ögmundi Jónassyni, þá er það bara þannig að flestir eru búnir að fá nóg af tuðinu, þrætubókarstaglinu og flaðrinu upp um stjórnarandstöðuflokkana.

 

Einkastríð Ögmundar er í besta falli pínlegt, kjánalegt og lyktar af falsi. Ef ætlunin er að ganga í að leysa málin þá verður að hafa dug og kjark til að gera það, en ekki vísa því stöðugt yfir á þá sem í raun hafa engan áhuga á að lausnin finnist.  2 ummæli við „Og fúleggin springa..“

 1. Eva Sól ritaði:

  Ég held að fals sé það síðasta sem þú getur sakað Ögmund um. Hann er heill í því sem hann gerir og ólíkt Steingrími vill hann ekki ganga á bak kosningaloforða og er tilbúinn að láta stólinn af hendi frekar en að gerast ómerkingur orða sinna.

  Þegar þú talar um kjark velti ég fyrir mér hvort þú sért að tala um álíka þor og þegar stjórnarliðar tróðu Icesave2 ofan í kokið á þingmönnum og þeir samþykktu nauðbeygðir. Ég verð ævinlega þakklát Ólafi Ragnari fyrir að taka þar í taumana.

 2. Ingimundur Bergmann svaraði:

  Takk fyrir tilskrifið Eva Sól.
  Með því að skrifa lyktar af falsi tel ég mig vera að segja að Ögmundur sé á brúninni þegar hann leitar til stjórnarandstöðunnar. Ögmundur á að vita betur en svo að gera ráð fyrir að þau hafi raunverulegan áhuga á að leysa málið.
  Varðandi Icesave málið þá er það þannig, að sem bóndi þá veit ég að það þarf að gera fleira en gott þykir. Hvernig heldur þú að færi ef ég, svo dæmi sé tekið, hreinsaði ekki skítinn undan skepnunum, þó ég gæti vissulega hugsað mér að gera ýmislegt annað frekar. Málið fékk stjórnin í arf og það þarf að ljúka því rétt eins og hverju öðru skítverki sem koma þarf frá.
  B.k.
  I.