Jón á röngu róli?

4. mars 2010

 

Þessi pistill birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í dag.

 

 

Lengi hef ég haft grunsemdir um að eitthvað væri bogið við tilveruna, að ekki sé allt sem sýnist og að jafnvel margt það sem við göngum að sem gefnu sé alls ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera. Það þykir alveg sjálfsagt að halda því fram að klukkan sé þetta eða hitt, að það sé þessi eða hinn dagurinn. Vikan er svo sögð vera hér eða þar í röðinni af vikum ársins og síðan er því haldið blákalt fram að í ár sé, svo dæmi sé tekið árið 2010. Undantekning á því er sú, að gefinn er kostur á að í ýmsum öðrum samfélögum geti árið hugsanlega verið eitthvað annað.

 

Nú er svo komið að efasemdir mínar í þessu efni hafa aukist til muna og það svo að nú geng ég að því sem gefnu að tíminn sé mun margslungnara fyrirbrygði en haldið hefur verið að manni til þessa. Ýmislegt hefur nýlega komið upp sem bendir til að staðreyndin sé sú að tíminn standi í stað á vissum sviðum og eigi það jafnvel að fara afturábak ef svo ber undir. Hvernig þetta er í raun og veru veit ég vitanlega ekkert um, en nú skal greint frá hvernig á því stendur að ég er farinn að trúa þessu.

 

Það gerðist um daginn þegar ég átti leið um Selfoss að mér datt í hug að ég hefði lent í einhverskonar tímaflökti. Ég var þar á ferð og hafði ekki langt farið þegar ég mætti Lödu Sport bifreið, sem ekið var eftir veginum eins og ekkert væri eðlilegra, en stuttu seinna fylgdi á eftir Lada Topas, gamall kunningi, því ég átti einu sinni eina slíka, og rétt á eftir henni kom gamall Rússajeppi þeirrar gerðar sem yfirbyggðir voru af Íslendingum með tréhúsi. Allar voru þessar rennireiðar í venjulegu brúksstandi að sjá og því alls ekki um það að ræða að hér væru á ferð uppskveraðar dekurdrossíur frá Fornbílaklúbbnum.

Satt að segja taldi ég þetta bara skemmtilega tilviljun sem gaman hefði verið að verða vitni að, en það sem kippti mér niður á jörðina kom úr óvæntri átt, þaðan sem menn eru ekkert sérstaklega mikið að velta fyrir sér Afstæðiskenningunni né öðrum eðlisfræðilegum fyrirbrigðum. Það sem gerðist var að Búnaðarþing var sett með pompi og prakt, prúðbúnir bændur og ýmsir minni spámenn eins og Forsetinn, alþingismenn, ráðherrar og fleiri mættu á staðinn og það var einmitt ráðherra sem kippti mér niður á jörðina, nefnilega landbúnaðarráðherrann. Hann var þarna kominn í öllu sínu veldi, fullur af nútímalegum hugmyndum, visku og þroska og þar kom að hann tók til máls og leiddi þjóð sína í allan sannleikann um hvernig hún ætti að hugsa og ekki síður á hverju rétt og skylt væri að nærast.

 

Ráðherrann, Jón Bjarnason, hafði sem sagt tekið eftir því, að fjórir karlar sem staddir voru í einhverjum fjallakofa höfðu ekki nægjanlega löngun til að eta nestið sitt sem samanstóð af hinum margvíslegasta súrmeti, því er til verður eftir viðeigandi meðhöndlun á íslensku sauðkindinni. Niðurstaða karlanna fjögurra verður eftir nokkra umhugsun sú, að rétt sé að nota sér nýjustu samskiptatækni og panta sér pitsu til að seðja hungrið. Gengur það allt fljótt og vel, þökk sé hinu fullkomna dreifikerfi Símanns. Taka nú karlarnir gleði sína að nýju og hlakka  til að snæða bökuna með íslenskum osti, skinku, hakki, pepperoni og grænmeti, en vara sig ekki á því að þetta háttaleg hafði þeim alveg láðst að bera undir ráðherrann. Það er nefnilega þannig að ekki er sama súrt íslenskt og ósúrt íslenskt, því að hans áliti er súrmeti íslenskara en það sem ósúrt er og ætti kannski ekki að koma á óvart, svo súrir sem þeir geta verið félagarnir í Vinstri- grænum.

 

En hér er komin enn ein sönnunin fyrir því að það er ekki sama tími og tími og ekki er að efa að hinn röggsami ráðherra mun sjá til þess að íslensk þjóð haldi sig framvegis á hans tíma, sem augljóslega er ekki sá sami og þorri þjóðarinnar telur sig vera á. Spennandi verður að fylgjast með hvernig þessi mál koma til með að þróast í framtíðinni, það er að segja ef hún verður þá leyfð: Framtíðin.  Lokað er fyrir ummæli.