Reynslan af VG

7. febrúar 2010

„Vinstri- græn”, hvað þýðir það? Þar sem um stjórnmálaflokk er að ræða, þá liggur nokkuð beint við að álykta sem svo að orðið „vinstri” standi fyrir einhverskonar sósíalisma, en þá vaknar spurningin: Fyrir hvað stendur „græn” í þessu sambandi? Niðurstaða ritara var á sínum tíma að hér væru saman komin þau sem vildu þjóðfélag sem byggðist á félagshyggju og jöfnuði og vildu einnig taka tillit til náttúrunnar á þann hátt að ekki væri yfir hana gengið að óþörfu. Háleit markmið og ekkert annað en gott um þau að segja, en fljótlega kom í ljós að í raun lá „fiskur undir steini” og alls ekki auðséð hvernig orðið „vinstri” getur átt við þessa stjórnmálahreyfingu.

 

Það segir sína sögu um hve þessi hugtök geta verið öll á reiki að stjórnmálamaðurinn Guðni Ágústson notaði orðið sósíalisti ævinlega sem skammaryrði um hina vinstri- grænu vini sína og taldi það skýra hve mjög þau væru á móti atvinnustarfsemi að þau væru sósíalistar. Þetta segir ef til vill meira um hve góður stjórnmálaskóli Framsóknarflokksins er, en hvernig hinir vinstri- grænu eru pólitískt innréttaðir, því eins og flestir vita þá gerðu hinir gömlu sósíalistar sér mjög vel grein fyrir því, að það að fólk hefði vinnu væri algjör undirstaða þess að einhver von væri til að hagur alþýðunnar gæti staðið til bóta og hér skilur á milli þeirra „vinstri- grænu” og raunverulegra vinstri stjórnmálaflokka. „Vinstri- græn” hafa nefnilega sýnt það og sannað með framgöngu sinni að þau hafa alls engan skilning á að fólk þurfi að hafa vinnu til að komast af. Helst er svo að sjá að í þeirra augum sé flest öll atvinnustarfsemi, a.m.k. sú sem ekki er rekin af hinu opinbera, af hinu illa, óhrein starfsemi sem sé að engu hafandi.

 

Nú er svo komið að þau eru búin að vera í stjórn á annað ár og ekki er hægt að segja að það hafi gengið vandræðalaust: Heilbrigðisráðherrann lagði niður skottið og sagði sig frá ráðherradómi á fremur vandræðalegan hátt, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrann gengur oftast nær ekki í takt við hina stjórnarliðana og má reyndar þakka fyrir ef honum tekst að ganga í takt við sjálfan sig, heilbrigðisráðherrann, sú sem við tók af Ögmundi hinum brotthlaupna, er þekktust fyrir glórulaust ofstæki úr búsáhaldabyltingunni og umhverfisráðherrann er orðin fræg að endemum fyrir að leggja steina í götur allra þeirra framkvæmda sem hún getur með einhverju móti haft áhrif á. Nýjasta dæmið í þeim efnum er afgreiðsla hennar á skipulagsmálum hreppanna við vestanverða Þjórsá.

 

Formaður þessa flokks fer með eitt mikilvægasta ráðuneytið í ríkisstjórninni sem kunnugt er og þar hefur komið í hans hlut að fara fremstur varðandi samningana um Icesave málið og hvernig skildi það nú hafa gengið til hjá hinum vígreifa flokksformanni. „Verkin sýna merkin” og skemmst er frá því að segja að eftir liggur hörmungin ein. Vegna ESB andúðar sinnar tók hann málið út úr því sáttaferli sem það var komið í og hóf samninga við Hollendinga og Breta upp á sitt eindæmi. Blásið var á Brussel- viðmiðin og helst gæti maður haldið að Steingrími hafi gengið það til að sýna og sanna að hann og hans fólk gætu á einu augabragði komið í höfn máli sem aðrir hefðu ekki ráðið við.

 

Hvað er komið í ljós: Svo er að sjá sem samningurinn sé misheppnaður og flest sem bendir til að það hafi verið mikið lán að forsetinn neitaði að staðfesta lögin um ríkisábyrgðina. Það er illa komið fyrir þjóð sem þannig ver atkvæðum sínum að annað eins skaðræðisafl kemst til valda eins og hefur sýnt sig vera varðandi Vinstri- græn. Kostirnir voru raunar ekki margir því ekki var efnilegt að kjósa yfir sig flokkanefnurnar sem grófu þá gröf sem þjóðin er nú í og næg eru skrílslætin búin að vera á þingi þó Borgarar yrðu ekki fleiri, ekki svo að skilja að þau hafi ein staðið fyrir þeim. Nei, þar hafa sjálfstæðis- og ekki síst framsóknarliðar staðið fyllilega fyrir sínu og hljóta allir að sjá að komið er nóg af slíku.

 

Framsóknarmenn þurfa að leggjast í lúsarleit að flekklausum manni eða konu til að taka við forystu í flokknum og kannski tekst það, Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera slíkt hið sama og þar sem í þeim flokki eru mun fleiri en þeir sem sitja á þingi þá hlýtur það að takast. Í framhaldinu þarf síðan að taka höndum saman og leiða þjóðina út úr brimgarðinum, inn í ESB, losna við íslensku krónuna og Seðlabankann, því húsnæði hlýtur að vera hægt að finna verðugra hlutverk en að sýsla með handónýta gervipeninga sem enginn vill, né hefur nokkurn tíman viljað hafa eitt eða neitt með að gera.Lokað er fyrir ummæli.