Ekki fram heldur afturábak

3. febrúar 2010

Aðalskipulag Flóahrepps hefur legið á borði umhverfisráðherra og beðið úrskurðar í fleiri mánuði en nokkur sem áhuga hefur á skilvirkri stjórnsýslu hefur áhuga á að muna. Nú er úrskurðurinn kominn og vitanlega varð hann nákvæmlega eins og búist hefði verið við af hinum vinstri-græna ráðherra, því vitanlega hafði enginn í raun búist við öðru en hann yrði nei. Spurningin var bara hver fyrirslátturinn yrði, hvað yrði hægt að grafa upp til að skýla sér á bakvið, því ekkert er hinum veruleikafirrtu VG- ingtum ver við en hugsanlega uppbyggingu og viðreisn atvinnulífsins. Þar á bæ er gert ráð fyrir að allir geti lifað á því að spá hver í annan á kostnað ríkissjóðs. Þau trúa því nefnilega enn að sjóðurinn sá sé ótæmandi. Uppsprettuna sem hann nærist á, og er viðhaldið af, muni aldrei þrjóta og að alltaf og ævinlega verði hægt að mjólka hið frjálsa atvinnulíf um nægt fé til að halda henni við.

 

Hvernig á því stendur að fólkið hugsar svona er ekki gott að segja. Ekki er menntunarskorti um að kenna, miklu frekar að hugsunin sé í blindgötu og þá vaknar hin áleitna spurning: Hvernig má það vera að flokkur af þessu tagi er í ríkisstjórn og fer með fjölda ráðuneyta? Hið skelfilega svar liggur í augum uppi: Þjóðin kaus þetta yfir sig. Ringluð og ráðvillt gerði hún það í síðustu kosningum. Gat ekki kosið hrun-,  helminga- og hermangsflokkana einu sinni enn. Lét ekki blekkjast af fagurgala þeirra sem leitt höfðu hana fram af brúnni, en í staðinn var atkvæðunum ráðstafað til þeirra sem ekki geta leitt hana eitt eða neitt. Ekki fram, ekki upp og ekki niður einu sinni, heldur afturábak, eins og komið hefur í ljós og hinn stjórnarflokkurinn er í klemmu, því enginn annar stjórnarkostur er í myndinni. Því miður.

 

Stjórnarseta Vinstri- grænna hefur sýnt sig að vera eitt allsherjar stórslys eins og margir höfðu svo sem búist við. Vegna ofstækiskenndar ESB andúðar, sem byggir á ómengaðri þjóðrembu í bland við minni-máttar-kenndan heimóttarskap, var brugðið á það ráð að slá á útrétta hönd Evrópusambandsins varðandi Icesave samningana, vegna þess eins að VG- ingar máttu ekki til þess hugsa að ESB ætti hlut að því að liðka fyrir réttlátri lausn, enda telja þeir allt af hinu illa sem þaðan kemur og það jafnvel þó það sé gott. Framgöngu umhverfisráðherrans þekkja allir orðið, þaðan kemur ekkert nýtt og ekkert á óvart: Allt er gert sem hægt er til að hindra svo sem verða má uppbyggingu atvinnulífsins. Njóli, hundasúrur og fjallagrös eru það sem þau trúa á fyrir utan það sem áður var á minnst: hinn ótæmandi Ríkissjóð.

 

Ekki er annað að sjá en að framtíð íslenskra stjórnmála sé fremur dökk. Framsóknarflokkurinn er nánast horfinn og það litla sem eftir er birtist sem frammíkallandi angurgapar, Sjálfstæðisflokkurinn sömuleiðis og Samfylkingin er sem þurfandi heimasæta sem engan finnur biðilinn sem mannsbragur er að. Forsetinn leikur sóló, rennir sér á skíðum og spjallar við fína fólkið eins og hann er vanur og ekkert nýtt í því, enda leikurinn vafalaust fyrst og fremst hugsaður til að fiska til baka vinsældir sem farnar voru að dvína.  Lokað er fyrir ummæli.