Tré sem fóru í súginn

27. desember 2009

 

Hinum nýja formanni Sjálfstæðisflokksins gengur illa að fóta sig á svelli stjórnmálanna og ekki er svo að sjá að reynsla hans af ýmis konar fimleikum á sviði viðskiptalífsins komi honum til góða í formannshlutverkinu. Bjarni hefur tekið þann kúrsinn að neita alfarið að horfast í augu við fortíðina og viðurkenna einfaldlega að foringjastjórnartaktar heyri fortíðinni til, hafi reynst illa og leitt þjóðina út í ófæru sem ekki sé útséð um hvernig ganga muni að komast uppúr.

 

Foringinn mikli, sá sem nýlega var rekinn frá Seðlabanka Íslands eftir að hafa ásamt félögum sínum með eftirminnilegum hætti komið þeirri stofnun á höfuðið, hafði orð á því í ræðu á landsfundi Flokksins að eftirsjá væri í þeim trjágróðri sem farið hefði í skýrslu nefndarinnar sem sjálfstæðismenn komu á laggirnar til að fara yfir afglöp Flokksins undanfarin ár. Upplýstist þar hve umhugað hinum mikla foringja er um náttúruna og hve hann metur hana meira en flokk þann sem hann hafði stjórnað með röggsemi í mörg ár.

 

Ekki verður því samt neitað að mörgum kom umhyggja Davíðs fyrir trjágróðrinum á óvart, margir höfðu nefnilega í einfeldni sinni reiknað með að maðurinn sæi kannski eftir ýmsu öðru og að það væri það sem á honum hvíldi. Á fundinum sannaðist hins vegar að aldrei skal ganga að neinu sem gefnu í lífinu og alls ekki þegar reynslurík mikilmenni eru annars vegar, enda stóðu fundarmenn upp sem einn maður og klöppuðu stórmenninu lof í lófa. Var það að vonum og löngu tímabært að sjálfstæðismenn opinberuðu hollustu sína svo eftir væri tekið. Hafði hann ekki bara staðið sig vel og var ekki allt eins og það átti að vera?

Slíkum spurningum var ekki varpað fram á fundinum. Það er nefnilega þannig, að á þeim bæ er ekki spurt spurninga, þar eru bara gefin svör, svör við óspurðum spurningum. Enginn fundarmanna hafði t.d. leitt hugann að þessu með trén og vafalaust nagaði nú margur skýrsluhöfunda sig í handarbökin fyrir að hafa ekki hugsað út í það (smjörklípu)atriði, en svona er nú lífið og til hvers eru miklir foringjar ef þeir veita mönnum ekki leiðsögn á viðkvæmum stundum?

 

Hafði Hann svo sem ekki alltaf haft svörin á reiðum höndum og leitt hjörðina þangað sem Hann vildi fara? Hvað vorum þau svo sem að vilja upp á dekk og hvers vegna hafði þeim ekki dottið í hug að spyrja hinn mikla leiðtoga áður en trén voru höggvin? Sjálfstæð hugsun þrífst ekki í Sjálfstæðisflokknum, það vissu þau alltaf, en í augnabliks gleymsku höfðu þau látið sér sjást yfir þá staðreynd og nú var bara eftir að sjá hvort það yrði fyrirgefið.

 

Leiðin til þess var valin og hana höfum við horft á hinn nýja formann feta með hjörðina í lest á eftir sér. Ákveðið var að feta sig eftir leið þröngsýni og hagsmunagæslu, nokkuð sem Flokkurinn kann og hefur svo lengi gert. Þjóðin skiptir ekki máli þegar hagsmunir Flokksins eru annars vegar, heldur hagsmunirnir og völdin. Þannig er það og hefur alltaf verið og hin margnefnda þjóð hefur fengið að fylgjast með hvernig Flokkurinn fer að í þeirri stöðu sem hann er búinn að koma henni í. Sýningin fer fram á alþingi og er í boði þjóðarinnar sem kostar líka leikendurna.    

 

Eftir glannalega og fyrirhyggjulausa siglingu sigldi skútan upp í fjöru og ekkert var fyrir stafni annað en brimsorfnir klettar. Skipstjórinn heldur því fram að hann hafi á síðustu stundu hrópað „hart í bak”, en áhöld eru um hvort það sé rétt, því líklegast er að hann hafi í einfeldni sinni trúað því að skútan færi jafnt yfir láð sem lög. Hann var orðinn því vanastur að honum væri hlítt möglunarlaust í blindni rétttrúnaðarins, því var það að er skipið stöðvaðist með brauki og bramli, þá neitaði hann að trúa að tími væri kominn til að fela öðrum að bjarga því sem bjargað yrði.

 

Það fór nú samt svo að aðrir tóku við og róa nú lífróður til að bjargar, en á móti situr nýr formaður Flokksins með sínu liði og gerir sem hann getur til að trufla áratakið í stað þess að stinga á. Minni spámenn annarra flokka, æða hins vegar um ráðvilltir og skelfingu lostnir, vitandi uppá sig skömmina vegna fylgispektar við strandkapteininn.  

Björgunarkúturinn og fjölin

14. desember 2009

Upp er risin sérkennileg deila milli eiganda DV og formanns Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benidiktssonar. Blaðið hefur að undanförnu greint frá hvernig Bjarni tengist hinni margumræddu útrás og svo er að sjá að formaðurinn hafi ætlað sér stóra hluti í þeim efnum, ef fréttir blaðsins eru réttar.

 

Bjarni mun sem sé hafa verið einn af þeim sem ætluðu að leggja heiminn undir sig eða a.m.k. einhverja sneið af jarðarkúlunni og til þess eru vitanlega tekin kúlulán, eins og kunnugt er. Ekki nema von að Bjarna hafi langað til að taka þátt í geiminu, enda félagsskapurinn ekki af verri endanum og eflaust hafa þeir flokksbræðurnir Tryggvi Þór og Bjarni Ben. talið sig vera í góðum málum. Bjarni, þrátt fyrir ungan aldur, ekki með öllu ókunnur atvinnurekstri eftir íslenska módelinu (N1) og Tryggvi, fyrrverandi bankastjóri, hámenntaður í fræðunum og þar að auki bæði klókur og snjall.

 

Félagsskapurinn við þá Wernerssyni  hefur örugglega verið Bjarna fremur hugnanlegur enda þar á ferð menn sem, ef eitthvað er að marka fréttir, hafa afar gott lag á að gera mikið úr litlu ef ekki engu og það hefur nú ekki þótt slæmt fram að þessu. Annað er svo það að „mikið vill meira” og svo er að sjá að ekki hafi verið nóg fyrir Bjarna að vasast í viðskiptunum, heldur virðist hann hafa komist að því, eins og svo margir af forverum hans, að best af öllu væri að fara líka með stjórn Sjálfstæðisflokksins. Fyrrverandi formenn Flokksins höfðu, þrátt fyrir náin tengsl viðskiptalífið, áreiðanlega ekki látið sig dreyma um þau stórvirki sem hinir ungu útrásarnjólar komu í framkvæmd síðustu ár, eða síðan Davíð hinn snjalli og hundtryggir fylgisveinar hans tóku öll völd í Flokknum.

 

Ýmislegt í þessu ferli öllu er enn á huldu og svo mun verða lengi enn og ekki mun það spilla fyrir að hylja og leyna ef þeim tekst í félagi við hinn hagsmunagæsluflokkinn Framsókn, að viðbættum nokkrum villuráfandi VG- ingum, að hrekja ríkisstjórnina sem nú situr frá. Því um það snýst þetta allt saman, málþófið um icesave og allt það annað sem þau hafa gert til að spilla framgangi mála á þinginu. Koma stjórninni frá og sjálfum sér að og taka síðan til við að hylja, svo mikið sem unnt er, allt það sem vísar á gamla gjörninga. Margt er það sem alls ekki má koma fram í dagsljósið, ef að líkum lætur og listinn yfir hvernig helmingaskiptaflokkarnir hafa farið með fjöregg þjóðarinnar síðustu áratugi er æði langur.

 

Nú er þá komið að því að hinn nýi formaður Flokksins vill feta í fótspor meistara síns og ráða því hvað um er fjallað í fréttum, en hann er bara ekki í sömu aðstöðu og meistarinn var forðum og getur því ekki sett lög á fréttaflutninginn. Það gat nú reyndar ekki hinn stórkostlegi meistari heldur er til átti að taka, þrátt fyrir allar undirlægjurnar sem í kringum hann þrifust. Forseti lýðveldisins greip þar í taumana og stöðvaði svívirðuna og einræðistilburðina og það hefur síðan leitt til þess að hinn fyrrverandi forsætisráðherra er í dagvistun í Hádegismóum og Morgunblaðið, blaðið sem átti að vernda með hinum margfrægu fjölmiðlalögum, verslast upp.

 

Það getur sem sagt verið snúið að vera formaður Sjálfstæðisflokksins, enda um snúinn flokk að ræða eins og frægt er orðið. Ekki er heldur víst að formaður Framsóknarflokksins sé mesti og besti leiðbeinandi hins unga leiðtoga, en varla birtast myndir úr sölum alþingis svo þeir sjáist ekki krunka þar saman. Að fara í geitarhús til að leita að ull þótti einu sinni ekki gott. Að leita leiðsagnar hjá þeim sem enga leiðsögn getur gefið er ekki vænlegt til árangurs.

 

Fjöl Framsóknarflokksins skolaði nefnilega á haf út í síðustu vorleysingum og hefur ekkert til hennar spurst síðan.