N1(H5?)

30. apríl 2009

Af og til berast fréttir sem eru þess eðlis að þær lýsa upp tilveruna og í einstaka tilfelli vekja mann til umhugsunar um hve gott við íslendingar eigum.

 

Með vinnusemi og einstakri elju hefur helstu hetjum Flokksins tekist að sanna fyrir alþjóð hve snjallir og ómissandi þeir eru. Hæfni þeirra í fyrirtækjarekstri er slík, að sáralitlar líkur eru til að Agnes hin ógurlega fari að agnúast út í þá, enda blóð þeirra blátt og flest annað eins og það á að vera.

 

Einu sinni var til olíufélag, í daglegu tali kallað Esso, en hét raunverulega Olíufélagið hf. og var í eigu hermangsfyrirtækisins Reginn hf., allt loddi þetta við hinn fræga framsóknarsmokkfisk. Rekstur þessa fyrirtækis hafði til margra ára gengið ágætlega og vandamálið var helst það hvernig hagnaði af starfseminni yrði fyrir komið, svo breyttist þetta og upp spratt fyrirbrigðið N1.

 

BNT hf er núverandi eigandi félagsins og búið er að sameina það Bílanausti hf., þannig að hægt er að rekast á N1 vítt og breitt um landið öllum til ánægju og yndisauka. Þarna sameinast helmingaskiptaflokkarnir og hlýtur að vera kátt á hjalla hjá þeim Sigmundi Davíð og Bjarna Benidiktssyni, er þeir koma saman í grill og öl á góðri stundu til að gleðjast yfir góðum árangri í rekstri félagsins.

 

Félagið tapaði ellefu hundruð milljónum á síðasta ári og hlýtur það að teljast góður árangur í tapsamfélaginu, einkum ef haft er í huga hve erfitt hefur reynst að tapa á olíusölu. Þetta er vitanlega ekki eins góður árangur og hjá Árvakri, enda ekki saman að jafna, svo miklir reynsluboltar í rekstri sem þar eru annars vegar, bæði innmúraðir og innvígðir og ekki má gera lítið úr þeim Bjarna og félögum, þó þeir hafi ekki náð jafn langt og þar tókst, árangurinn er góður miðað við reynslu og fyrri störf.

 

Það þótti líka ástæða til að verðlauna þá félaga og fékk Bjarni tæpar 5 milljónir og aðrir ýmist meira eða minna. Af tillitssemi við kjósendur var uppgjörinu haldið leyndu fram yfir kosningar, enda alveg ástæðulaust að gera nokkuð til að trufla þær!!

 

Nú er sem sagt búið að birta allt, allt komið upp á yfirborðið, eins og Bjarni hefur svo oft áður tjáð sig um að nauðsynlegt og sjálfsagt sé að gera.

 

Tapið gott og árangursríkt og allir geta unað glaðir við sitt!!

Draugur í flagi?

10. apríl 2009

  Í Bændablaðinu, sem kom út miðvikudaginn 8. apríl á blaðsíðu 8, er umræðuvettvangur sem í fljótu bragði virðist vera fyrir aðsendar greinar. Tvær þeirra eru merktar „Evrópumál” og eru allrar athygli verðar, en eins og mörgum er kunnugt hefur allnokkur umræða farið fram á vettvangi blaðsins um það málefni að undanförnu. Bændasamtökin hafa tekið þá afstöðu til ESB að vera alfarið á móti því að sótt sé um inngöngu, þar sem þau telja að hag bænda sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Um þetta má að sjálfsögðu deila, en niðurstaða samtakanna er þessi, Bændablaðið er gefið út af þeim og er í eigu Bændasamtaka Íslands.

  Önnur greinin sem ber yfirskriftina „Vill ESB landbúnaðinn burt?” er rituð af Önnu Margréti Guðjónsdóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og eins og yfirskriftin ber með sér, veltir hún spurningunni sem í henni felst fyrir sér og eftir að hafa farið yfir málið leggur hún áherslu á að Bændasamtökin komi að því að undirbúa samningsmarkmið Íslands, er þar að kemur.

  Fyrir einskæra tilviljun ber svo við að í sama blaði og á sömu blaðsíðu er grein eftir starfsmann Bændasamtakanna, Jón Viðar Jónmundsson, þar sem hann fer mikinn og leynir sér ekki að afstaða hans til málsins er sú sama og samtakanna.

  Jón dregur hvergi af sér og ræðir um „Drauga[r] um hábjartan dag”, en það munu vera að hans sögn, þeir sem vilja sækja um inngöngu í ESB. Þetta er fyrirsögn greinarinnar og gefur vísbendingu um hvað muni á eftir fylgja og ef hún er lesin rekst lesandinn á, svo dæmi séu tekin, fullyrðingar eins og að fylgjendur ESB aðildar telji að „þjóðarinnar bíði nánast tortíming” ef ekki verði gengið í Evrópusambandið. Skömmu síðar hnykkir Jón á því að Bændasamtökin telji íslenskan landbúnað hafa fátt þangað að sækja. Þá hefur hann áhyggjur af að „mikið skorti á lýðræðislega ákvarðanatöku” hjá sambandinu, sem hann telur einkennast af skrifræði og gríðarlegri miðstýringu og er ekki annað en gott eitt um það að segja að starfsmaður Bændasamtakanna hafi áhyggjur af því atriði.

  Í framhaldinu dregur Jón síðan þá ályktun, að ef Ísland gerðist aðili að sambandinu, þá yrði það „arðrændur og vanþróaður útkjálki”, sem hann greinilega telur að ekki sé í dag. Vitanlega má starfsfólk Bændasamtakanna hafa hverja þá skoðun á stöðu þjóðarinnar sem því sýnist, en draga má í efa að þeir séu margir sem taki undir með Jóni hvað þetta varðar. Að minnsta kosti er líklegt að þeir séu til sem telji að þjóðin hafi verið arðrænd og að það arðrán hafi gengið nokkuð vel, þrátt fyrir að hún sé ekki inna Evrópusambandsins.

  Jón Viðar notar síðan tækifærið til að koma á framfæri aðdáun sinni á Einari Má Guðmundssyni, sem hann telur vera mikinn viskubrunn varðandi uppruna og tilveru sambandsins og upplýsir að þeir félagar telji það ekki vera „Lionsklúbb” og væri fróðlegt að fá að vita hvernig Lionshreyfingin  tengist þessu umræðuefni.

  Í niðurlagi greinarinnar kemst hann svo að þeirri niðurstöðu, að gamlir draugar þjóðarinnar, þau Þorgeirsboli, Skotta og Móri, séu horfin af sviðinu og að í stað þeirra séu komnir aðrir sem heiti Björgvin, Ólína og Árni Páll og verður ekki annað ráðið af textanum en að Jón sakni þeirra eldri og lítist ekki á þá nýju. Hann nefnir Bjarna Harðarson í þessu sambandi, en eins og mörgum er kunnugt er hann mikill fróðleiksbrunnur um verur af öðrum heimi. Ef það er tilfellið að Bjarni hafi komist að því að hinir fornu draugar séu horfnir, þá er ekki gott um það að deila, en víst er að margir landsmenn munu sakna þessara gömlu kunningja og ekki er öruggt að allir sætti sig við hvarf þeirra og er óskandi að Bændasamtökin eigi þar ekki hlut að máli.

  Að starfsmaður samtakanna noti aðstöðu sína til að líkja þjóðþekktum einstaklingum við drauga í blaði þeirra verður að teljast fremur smekklaust. Slíkur málflutningur getur varla talist samtökunum til sóma og er ekki víst að allir bændur kæri sig um að umræðuvettvangur þeirra sé misnotaður á þennan hátt.

Á haugnum

2. apríl 2009

  Á Íslandi er ár hanans. Ár hins hrokafulla monthana, hanans sem hreykir sér efst á haugnum og lætur mikið fyrir sér fara. Hanans sem galar yfir hirð sinni og ætlast til að eftir sér sé tekið, að hópurinn líti upp til hans og lúti honum af lotningu.

  Hann stendur á haugnum, rótar í honum og sletturnar ganga í allar áttir, jafnt á gamla fylgispaka og innvígða, sem hina sem hópnum þykir og hefur alltaf þótt sjálfsagt að ata auri. Það kemur þeim því mjög á óvart þegar slettunum er beinlínis beint að þeim, því hinum hrokafulla monthana sést ekki yfir hið augljósa: að þeir höfðu ekki gert neitt af viti. Líklega er ekkert gert af viti í því haughúsi sem þeir eru staddir í og því er það að gamli yfirhaninn hefur rétt fyrir sér: að það sé með öllu ástæðulaust að höggva skóg í pappír, til að skrifa hugrenningar þeirra á.

  Alveg jafnt og það sem gamli foringjahaninn hefur fram að færa, þá er það allt einskis virði, þau eru aðeins komin þarna saman til að gala, baða út vængjunum og róta þegar til þess er ætlast. Allt er þetta eitt sjónarspil, ekki er gert ráð fyrir að neitt komi út úr samkundunni annað en það sem áður hefur verið ákveðið við sömu kringumstæður. Allt skal vera óbreitt, það hefur gefist svo vel, þeirra heimur er besti heimur allra heima og því er alls ekki ástæða til að hrófla við neinu. Því að vera að því þegar allt er svona gott, eða hefur einhver yfir einhverju að kvarta?

  Nei, svo er ekki og þó, það var nefnilega ekki hlustað á hinn virðulega aurslettuhana, að hans áliti og því er hann óvenju fúll og sletturnar fara vaxandi. Reyndar aukast þær svo mjög að það er farið að vera óþægilegt að vera of nálægt, hrokahaninn er orðinn úfinn og sletturnar berast víða og margar fara þær út úr haughúsinu og hitta fyrir þá sem síst skildi, því nú er hann allt í einu orðinn sá sem varaði við, sá sem enginn hlustaði á, haninn sem vildi þjóð sinni vel og át bara vínber, er önnur og ómerkari hænsn keyptu sér Audi.

  Já, hvað sagði hann ekki.

  Hm, það er nú málið: sagði hann eða sagði hann ekki, það er spurningin í dag en ekki sú sem svo mörg þeirra sem stödd eru í haughúsinu spyrja sig:

  Elskar hann mig eða elskar hann mig ekki?

  Aðalatriðið er samt það sama og alltaf hefur verið, að ata sem mestum auri, um það eru þau þó alveg viss um.

  Því, það sem hefur verið, verður áfram, ekki breyta, ekki breyta, ekki, ekki, ekki…….