Að bogna en ekki brotna

26. mars 2009

Sjálfstæðismenn eru komnir saman á landsfund og er það vonum seinna. Fróðlegt verður að sjá hvort þeir hafa í sér rænu til að taka afstöðu til framtíðarinnar, það er nokkuð sem hefur vafist fyrir þeim fram að þessu.

Þrjóska þeirra er búin að koma þjóðinni í vandræði sem eru af áður ókunnri stærðargráðu, þjóðin horfir nú framan í hroðalegar afleiðingar þess að hafa treyst þeim fyrir landsmálunum undanfarna áratugi. Óskandi væri að hinn 2000 manna kór já bræðra og systra sem samankominn er á landsfundinum hafi nú í sér þá einurð að hrista af sér heimóttarskapinn og þvergirðingsháttinn, horfi til framtíðar og átti sig á að hinir íhaldssömu heimastjórnartilburðir eru runnir sitt skeið á enda.

Ungt fólk í landinu okkar góða þarf að eiga sér einhverja framtíð, framtíð sem er af öðru tagi en hundasúru- og ullarlagðapólitík VG og Sjálfstæðisflokksins. Stefna þessara flokka hefur leitt til glötunar, en rétt er hjá Geir að það voru afar stór mistök að flaðra upp um Framsóknarugluliðið.

Auðvitað er til hæfileikafólk í Sjálfstæðisflokknum og nú verður flokkurinn að virkja það til starfa og gömlu brýnin að fara eftir eðlisávísuninni og draga sig í hlé. Íslenska þjóðin þarf á því að halda, að nýtt og hæfileikaríkt fólk komi fram á völlinn, VG hefur tekið þá ákvörðun að halda sig áfram við súruna, Samfylkingin er klár, Sjálfstæðisflokkurinn er undir feldi og Framsókn er að gufa upp og má það ekki seinna vera.

Afstaða Bjarts á ekki við í nútímanum, er afstaða til lífsins sem hver einstaklingur getur tekið fyrir sig sjálfan, en ekki stjórnmálaflokkur fyrir þjóð sína.

Framtíðarsýnin

24. mars 2009

Sjálfstæðismenn eru farnir að velta fyrir sér framtíðinni og er það vel. Nokkuð er það annað en hægt er að sjá út úr ályktunum VG og að því leiti er auðvelt að vera sammála Hjörleifi, það er fortíðarhyggjan sem þar ræður ríkjum, hundasúru og ullarlagðapólitík í ætt við Bjart í Sumarhúsum.

Bjartur kallinn tók þann kostinn er hann var kominn í þrot, að flytja sig úr einu kotbýlinu í annað. Taldi það vænlegra heldur en að lýta til annarra kosta. Svo er einnig með VG, þau vilja helst hökta í gamla krónufarinu, hvað sem tautar og raular, aldrei að gefast upp og helst halda sig við annars veldis framsóknarmennskuna sem lýst var svo snilldarlega í útvarpsviðtali fyrir nokkrum árum:

Framsóknarmaðurinn gengur ekki að því sem gefnu að ef hann sleppir kaffibollanum sem hann heldur á, þá detti hann og þó hann sjái bollann detta þá reiknar hann ekki með, að víst sé að það endurtaki sig í næsta sinn. Því reynir hann aftur og aftur, út í hið óendanlega.

Rétt er að Samfylkingin verður að gera þjóðinni skýra grein fyrir að ekki er hægt að reikna með að hún myndi stjórn með öflum sem haldin eru óyfirstíganlegri fortíðarhyggju. Þjóðin verður að gera það upp við sig hvort hún vill hökta í sama farinu, standa í stað um fyrirsjáanlega framtíð, eða sækja framá veginn.

Um það snýst valið í kosningunum sem fram fara eftir tæpa fimm vikur.

Framsókn eftir lofti

20. mars 2009

Framsóknarflokkurinn er í vanda: Guðni er farinn , Bjarni er farinn, Kristinn er farinn, Finnur er farinn, Valgerður er að fara, Höskuldur var í korter og er farinn, Björn Ingi er farinn og skildi eldhúsáhöldin eftir og svona mætti lengi telja, nánast út í hið óendanlega.

Stefna flokksins er líklega það eina sem ekki er farið veg allrar veraldar hjá þeim blessuðum, en af hverju fór hún ekki bara líka? Það er náttúrulega vegna þess, að það sem ekkert er, getur ekki farið eitt né neitt. Og því er það að stefnan fer ekki, því ef það gerðist þá hyrfi flokkurinn, þar sem stefna hans er ekki önnur en sú að vera til. Það er að segja Framsóknarflokkurinn er einungis til fyrir sjálfan sig og sína tilvist, svo loftkennt sem það er.

Þannig er það raunar með æði mörg samtök og félög og alls ekki þannig að Framsókn sé sér á báti hvað þetta varðar, það sem er sérstakt við maddömuna er hins vegar að hún þarf sífellt að reyna að láta líta út fyrir að tilvera hennar sé byggð á raunverulegri þörf, að þjóðfélagið geti notið góðs af að flokkurinn sé til og því er það, að alltaf þarf sífellt að vera að finna upp á einhverju sem gengur í fólkið.

Margir muna eftir slagorðunum um: Ísland án eiturlyfja, atvinnu fyrir ég man ekki hvað, mörg þúsund manns, 90% húsnæðislán fyrir alla svo unglingurinn væri ekki lengur að þvælast fyrir á heimilinu og síðan kórónan: Flugvöll á Lönguskerjum!

Nýjasta hugdettan er svo að koma fram með hugmynd sem er svo yfirmáta vitlaus að engu tali tekur, að skera 20% af skuldum landans hvort sem hann þarf þess með eða ekki. Loftbólukennt fyrirbrigði svo ekki sé nú meira sagt og ber þess vitni, að framsóknarmönnum er flest betur gefið annað en að gera sér grein fyrir orsök og afleiðingu.

Munurinn á framsóknarmanni og töframanni er, að töframaðurinn veit í hverju galdurinn er fólginn og að í raun er ekkert ,,hókus pókus” til.

Formaðurinn loftkenndi þyrfti að taka þetta til athugunar.

 Eitt er það fyrirbrigði í stórri flóru Íslenskra millifærslustofnana sem kallað er Bjargráðasjóður, stofnun sem á sínum tíma var komið á laggirnar í góðum tilgangi.  Um er að ræða nokkurskonar tryggingafélag sem gagnvart bændum virkar þannig, að með því að greiða hlut af verðmæti framleiðslu sinnar til sjóðsins kaupa þeir sér tryggingu gegn hugsanlegum áföllum í búskapnum.

Áföllin geta verið af ýmsum toga, s.s. sjúkdómar í bústofni eða afbrigðilegt náttúrufar sem valdið hefur tjóni og sem dæmi má taka kal í túnum.  Hugmyndin að stofnun sjóðsins var ekki, að búa til sjóð til að greiða niður aðföng til búrekstrar enda ekki gott að sjá hvar það gæti endað, né heldur til hvers það gæti leitt.

  Á nýloknu Búnaðarþingi kom fram hugmynd um að nota sjóðinn, þ.e. A deild hans, til að  greiða niður áburðarverð til bænda. Fróðlegt væri að vita hvort þeim sem að hugmyndinni stóðu finnist, ef til vill sjálfsagt að sjóðurinn verði notaður til að greiða niður fóður í hænsnfugla og svín? Ekki er ástæða til að búast við að þeim þyki það, því heldur hefur andað köldu til þeirra búgreina frá bændasamtökunum þar til nýlega, að það rann upp fyrir þeim, að hagsmunir þeirra sem framleiða hvítt kjöt og dökkt, færu á ýmsan hátt saman. Ástæðan er frekar augljós, því ef innflutningur á ódýru hvítu kjöti erlendis frá yrði leifður ótakmarkaður, þá bitnar það ekki bara á framleiðendum hvíta kjötsins innanlands, heldur einnig á þeim sem framleiða hið „hefðbundna” dökka kjöt. Það er nefnilega þannig að lækkað verð á hvítu kjöti myndar þrýsting á, að til dæmis lambakjöt, lækki einnig með nokkuð augljósum afleiðingum á afkomu bændastéttarinnar í heild. Þá má ekki gleyma þeirri áhættu sem fylgir slíkum innflutningi með tilliti til sjúkdómahættu fyrir íslenskan búfénað.

   Hugmyndin er satt að segja svo arfavitlaus að erfitt getur verið að ræða hana af nokkru viti. Allt eins væri hægt að hugsa sér að sjóðurinn væri notaður til að greiða niður fóður til svína og hænsnaeldis, en eins og kunnugt er hefur það hækkað umtalsvert í þeim efnahagslegu hamförum sem gengið hafa yfir að undanförnu. Gera verður ráð fyrir að flestir sjái í hendi sér hve galin slík ráðstöfun fjármuna sjóðsins væri.

  Annað mál er svo það, sem ekki verður rætt um í þessum pistli, hvernig afgreiðslum sjóðstjórnar á umsóknum hefur verið háttað á umliðnum áratugum. Það væri vafalaust verðugt verkefni fyrir duglegan rannsóknarblaðamann að skoða þau mál. Það er nefnilega þannig að, ekki er víst að þær afgreiðslur séu allar málefnalegar, né faglegar og jafnvel ástæða til að ætla að í a.m.k. sumum tilfellum hafi stjórnarmenn misnotað aðstöðu sína til að hygla þeim sem þóknanlegir hafa verið í það og það skiptið (jafnvel skyldmennum), en hafna umsóknum annarra sem ekki voru taldir „verðugir”.

  Þetta verður ekki fullyrt hér og nú, en æskilegt væri að sjóðurinn legði fram:

  Afgreiðslu umsókna undanfarin 20 til 30 ár, á hverju afgreiðslurnar voru byggðar, hvert var tjónið sem óskað var eftir að bætt yrði og ekki síst hvort viðkomandi styrk og eða lánþegar höfðu raunverulegan rétt til aðstoðar. Höfðu þeir t.d. staðið í skilum með iðgjöld sín og ef svo var ekki, hve mikil voru vanskilin og hve lengi hafði viðkomandi ekki greitt til sjóðsins. Þá gæti verið einkar fróðlegt að upplýst yrði hverjum var hafnað og hverjar ástæður þess hafi verið.

  Ekki er ástæða til að ætla annað en að þetta liggi allt fyrir hjá sjóðnum, því um er að ræða virðulega og opinbera stofnun.

Starfsumsóknin

6. mars 2009

Undirritaður sækir hér með um stöðu þá er auglýst hefur verið, þ.e. stöðu Seðlabankastjóra.Hæfi mitt til starfsins er eftirfarandi:

  • Hef ekki starfsmenntun til starfans, enga reynslu sem tengist bankastarfsemi aðra en þá að hafa tekið út innistæðu af reikningi mínum í banka.
  • Get verið fúll, ef svo ber undir (sem er frekar oft) og er einkar laginn að snúa út úr fyrir öðrum.
  • Mér finnst smjör frekar gott og nota það óspart.
  • Er kominn á þann aldur, að reikna má með að ég fari á eftirlaun um það leiti sem ég er kominn með lágmarks hæfni til starfans.
  • Er katta og hundavinur, en enginn sérstakur mannvinur.
  • Er ekki kominn með skalla og get safnað hári og haft það viðeigandi úfið.
  • Þekki ekki forsætisráðherra, en hugsanlega er hægt að bæta úr því.
  • Finnst leitt og óþarft að greiða reikninga óreiðumanna.
  • Þykir gaman að spila Bridge.
  • Get átt það til (frekar oft) að vera hrokafullur og leiðinlegur, ef það á við (sem er oftast).

Virðingarfyllst  Íslenskur ríkisborgari.

  Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur segir máltækið, ef ég man rétt. Ó hve mér leið vel eftir að hafa séð Davíð í Kastljósinu, sagði sjálfstæðismaður um daginn og bætti því við að hann svæfi svo miklu betur eftir að hafa horft á leiðtogann (fyrrverandi?).  Hjarðeðlið er slíkt að minnir á höfrungahjarðirnar sem fyrirfara sér í stórum stíl án þess að sýnileg ástæða sé fyrir því. Það sem hins vegar kemur á óvart í þessu tilfelli er að nú er ekki augljóst hver foringinn/leiðtoginn er. Flokkurinn er í upplausn, stefnu vantar til framtíðar, nema að það sé stefna í sjálfu sér að  hafa enga stefnu í þeim málum sem einhverju skipta.

  Til stendur að halda landsfund og ræða málin, rétta upp hendur á réttri stundu, klappa þegar það á við, því að sögn kunnugra, innvígðra og innmúraðra, þá er umræða og ákvarðanataka á samkomunni hvorki þróuð, né í raun annað en sýndarmennska. Ekki gott ef satt er.

  Hvað um það, Flokkurinn, hinn eini og sanni, að áliti þeirra sem vilja halda í óbreytt ástand, er lagstur í innhverfa íhugun og fróðlegt verður að fylgjast með hvað út úr því kemur, en ekki rétt að búast við miklu.

  Það er nefnilega þannig, að best er að hafa allt eins og það er, ekki gott að segja hvað breytingar geta haft í för með sér, best að sofa dálítið lengur og vona að það sem við blasir sé bara martröð.