Viljinn til að hylja

5. júlí 2009

Undanfarnar vikur hefur verið hægt að fylgjast með því hvernig þörfin til að komast hjá því að horfast í augu við afleiðingar stjórnartímabils Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur þjakað þá þingmenn sem sitja í nafni þessara flokka. Engu er líkara en þeir hafi ekki verið á nokkurn hátt meðvirkir í að búa til það umhverfi efnahagsmála sem svo illa hefur reynst og valdið að stórum hluta hruninu sem yfir hefur dunið. Afneitunin er slík að er foringinn, hinn eini og sanni, sá sem allt veit, allt getur og gerir betur en annað fólk, að eigin áliti, fer frammúr sér með yfirlýsingar og vaðal sem í raun gerir ekki annað en opinbera ábyrgð hans á hvernig komið er, þá dettur þeim ekki í hug að koma honum til hjálpar og segja sem svo: Við berum nú líka ábyrgð á hvernig komið er, þetta er ekki allt þér að kenna. Nei, hann er látinn sitja einn uppi með skömmina, sem hann finnur reyndar ekki á eigin skinni, þannig að líklega er ofætlan að gera því skóna að félagar hans finni til sinnar ábyrgðar.

 

Stjórnarandstaðan er ekki með í spilinu í dag og virðist ekki heldur hafa verið með áður en ósköpin dundu yfir. Vissulega er það hlutverk stjórnarandstöðu að veita aðhald, stíft, málefnalegt og helst af öllu uppbyggilegt. Á það hefur nær ætíð skort og er núverandi andstaða ekkert einsdæmi í því sambandi, en núna eru engir venjulegir tímar, því frá lýðveldisstofnun hefur annað eins eða sambærilegt ekki yfir dunið. Á slíkum tímum hefði verið hægt að búast við að stjórnmálamenn væru ekki í hinu gamla fari, að þeir kæmu fram af meiri yfirvegun og reyndu að láta gott af sér leiða. Því er ekki að heilsa, því miður og við getum ekki reiknað með að stjórnarandstaðan bæti það upp sem á vantar hjá stjórnarliðum. Að minnsta kosti er ekki hægt að sjá að þinglið andstöðunnar sé í nauðsynlegu jafnvægi til að geta starfað þannig; þar eru hróp, frammíköll og svívirðingar það sem þau helst hafa til málanna að leggja.

 

Hvers vegna? Hvað veldur þessari framgöngu? Hafa þau eitthvað að fela, er eitthvað sem þau vilja ekki að upplýsist og komi upp á yfirborðið? Óttast þau kannski að rannsókn mála leiði í ljós ábyrgð þeirra á því hvernig komið er, að víða leynist fiskur undir steini varðandi hvernig stjórnsýslunni var hagað í tíð þeirra. Það sem upplýst var fyrir kosningar um risaframlög til flokkanna var ef til vill aðeins toppurinn á ísjakanum.

 

Við erum mörg sem teljum að svo sé, en ekki er víst að núverandi stjórnarandstaða deili með okkur áhuganum á að allt komi upp á borðið sem miður hefur farið. Kannski það sé ástæðan fyrir framgöngu þeirra, að þau vilji allt til vinna að sundra núverandi ríkisstjórn og setjast sjálf við stjórnvölinn og geta þar með verið í betri aðstöðu til að hylja og sópa undir teppið. Það getur hins vegar reynst skammgóður vermir, því á endanum kemur sannleikurinn í ljós. Þau ættu að leiða hugann að því að oft er best að ljúka óþægilegum málum af og byrja að nýju með hreint borð.Lokað er fyrir ummæli.