Á haugnum

2. apríl 2009

  Á Íslandi er ár hanans. Ár hins hrokafulla monthana, hanans sem hreykir sér efst á haugnum og lætur mikið fyrir sér fara. Hanans sem galar yfir hirð sinni og ætlast til að eftir sér sé tekið, að hópurinn líti upp til hans og lúti honum af lotningu.

  Hann stendur á haugnum, rótar í honum og sletturnar ganga í allar áttir, jafnt á gamla fylgispaka og innvígða, sem hina sem hópnum þykir og hefur alltaf þótt sjálfsagt að ata auri. Það kemur þeim því mjög á óvart þegar slettunum er beinlínis beint að þeim, því hinum hrokafulla monthana sést ekki yfir hið augljósa: að þeir höfðu ekki gert neitt af viti. Líklega er ekkert gert af viti í því haughúsi sem þeir eru staddir í og því er það að gamli yfirhaninn hefur rétt fyrir sér: að það sé með öllu ástæðulaust að höggva skóg í pappír, til að skrifa hugrenningar þeirra á.

  Alveg jafnt og það sem gamli foringjahaninn hefur fram að færa, þá er það allt einskis virði, þau eru aðeins komin þarna saman til að gala, baða út vængjunum og róta þegar til þess er ætlast. Allt er þetta eitt sjónarspil, ekki er gert ráð fyrir að neitt komi út úr samkundunni annað en það sem áður hefur verið ákveðið við sömu kringumstæður. Allt skal vera óbreitt, það hefur gefist svo vel, þeirra heimur er besti heimur allra heima og því er alls ekki ástæða til að hrófla við neinu. Því að vera að því þegar allt er svona gott, eða hefur einhver yfir einhverju að kvarta?

  Nei, svo er ekki og þó, það var nefnilega ekki hlustað á hinn virðulega aurslettuhana, að hans áliti og því er hann óvenju fúll og sletturnar fara vaxandi. Reyndar aukast þær svo mjög að það er farið að vera óþægilegt að vera of nálægt, hrokahaninn er orðinn úfinn og sletturnar berast víða og margar fara þær út úr haughúsinu og hitta fyrir þá sem síst skildi, því nú er hann allt í einu orðinn sá sem varaði við, sá sem enginn hlustaði á, haninn sem vildi þjóð sinni vel og át bara vínber, er önnur og ómerkari hænsn keyptu sér Audi.

  Já, hvað sagði hann ekki.

  Hm, það er nú málið: sagði hann eða sagði hann ekki, það er spurningin í dag en ekki sú sem svo mörg þeirra sem stödd eru í haughúsinu spyrja sig:

  Elskar hann mig eða elskar hann mig ekki?

  Aðalatriðið er samt það sama og alltaf hefur verið, að ata sem mestum auri, um það eru þau þó alveg viss um.

  Því, það sem hefur verið, verður áfram, ekki breyta, ekki breyta, ekki, ekki, ekki…….  Lokað er fyrir ummæli.