Að bogna en ekki brotna

26. mars 2009

Sjálfstæðismenn eru komnir saman á landsfund og er það vonum seinna. Fróðlegt verður að sjá hvort þeir hafa í sér rænu til að taka afstöðu til framtíðarinnar, það er nokkuð sem hefur vafist fyrir þeim fram að þessu.

Þrjóska þeirra er búin að koma þjóðinni í vandræði sem eru af áður ókunnri stærðargráðu, þjóðin horfir nú framan í hroðalegar afleiðingar þess að hafa treyst þeim fyrir landsmálunum undanfarna áratugi. Óskandi væri að hinn 2000 manna kór já bræðra og systra sem samankominn er á landsfundinum hafi nú í sér þá einurð að hrista af sér heimóttarskapinn og þvergirðingsháttinn, horfi til framtíðar og átti sig á að hinir íhaldssömu heimastjórnartilburðir eru runnir sitt skeið á enda.

Ungt fólk í landinu okkar góða þarf að eiga sér einhverja framtíð, framtíð sem er af öðru tagi en hundasúru- og ullarlagðapólitík VG og Sjálfstæðisflokksins. Stefna þessara flokka hefur leitt til glötunar, en rétt er hjá Geir að það voru afar stór mistök að flaðra upp um Framsóknarugluliðið.

Auðvitað er til hæfileikafólk í Sjálfstæðisflokknum og nú verður flokkurinn að virkja það til starfa og gömlu brýnin að fara eftir eðlisávísuninni og draga sig í hlé. Íslenska þjóðin þarf á því að halda, að nýtt og hæfileikaríkt fólk komi fram á völlinn, VG hefur tekið þá ákvörðun að halda sig áfram við súruna, Samfylkingin er klár, Sjálfstæðisflokkurinn er undir feldi og Framsókn er að gufa upp og má það ekki seinna vera.

Afstaða Bjarts á ekki við í nútímanum, er afstaða til lífsins sem hver einstaklingur getur tekið fyrir sig sjálfan, en ekki stjórnmálaflokkur fyrir þjóð sína.Ein ummæli við „Að bogna en ekki brotna“

  1. Gógó ritaði:

    Fátt er um fína drætti verð ég að segja, en ég kvarta ekki mikið svo lengi sem fylgi VG hrynur þegar á hólminn er komið. Fólk sem þetta hefur ekkert að gera með að stjórna þjóðfélagi sem þessu þar sem flestir lenda bæði í uppgripum og kröggum einhverntíma um ævina. Þeir hefðu mögulega eitthvað erindi í þjóðfélagi þar sem stéttaskipting er mikil og fólk fast í sinni stétt, en ekki hér. Fólk sem sér engan mun á háum launum og mikilli vinnu ætti einnig að halda sér til hlés.

    Ég hvet fólk til að lesa bréf sem ungur læknir sendi Ögmundi og ekki síst skal hvetja fólk til að veita athygli innihaldslausu svari Ögmundar. Maður minn er náttúrulega ungur læknir (unglæknir sem kallað er) og því veit ég að það sem þarna kemur fram er satt og rétt:
    http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/4470/