Árshátíð

25. janúar 2009

  Það var haldin árshátíð í Andabæjaryfirbanka þrátt fyrir og kannski vegna þess að undirbankarnir voru komnir á hausinn og fyrirtækin líka og íbúarnir höfðu ekkert annað  að gera en að ráfa um götur og skemmta sér við trumbuslátt, bæði til þess að halda lífi í bænum og einnig til að halda á sér hita. Því var það að Jóakim aðalönd og félagar hans í yfirbankanum töldu mest áríðandi að koma nú saman til að halda árshátíð. Og hvað ætli þeir hafi nú verið að halda uppá?

  Jú, það var verið að halda uppá alveg einstakan árangur við að rústa Andabæjarsamfélaginu. Það hafði sem sagt tekist á undraverðan hátt að koma því á kaldan klakann, akkúrat eins og þeir Jóakim og félagar höfðu ætlað sér. Nánast allt var komið á vonarvöl; peningatankurinn var orðinn galtómur og ekki nóg með það heldur var komið á hann stærðar gat, þannig að nokkuð tryggt var að ef  að í hann kæmu peningar þá lækju þeir jafnharðan úr honum  og meira að segja var svo um hnúta búið að tryggt var að enginn gæti höndum komið yfir það sem þannig læki út.

  Einnig var búið að ganga frá því að vinabæirnir voru orðnir afhuga samskiptum við Andabæ og vildu sem minnst af honum vita, höfðu reyndar eindregið ráðlagt Jóakim að snúa sér til Plútó varðandi það að fylla á peningatankinn. Plútó hafði brugðist vel við og sent múrara til að múra í gatið og akkúrat núna var verið að gera tilraun með að setja í hann smá slatta af peningum og kanna hvort tankurinn læki.

  Þetta virtist allt vera á réttri leið og því var það að Jóakim bauð til árshátíðar, þar  var nú glaumur og gleði, matur góður og skemmtiatriðin líka. Ekki spillti það fyrir að Jóakim hélt eina af sínum frægu ræðum undir borðum, allir hlógu og vitanlega á réttum stöðum því svo var um hnúta búið að gefið var viðeigandi merki þegar það átti við.

  Eitt var samt dálítið skrítið við þetta allt saman og það var að mikill hluti skemmtiatriðanna fór fram utan dyra og höfðu gestirnir ekki hugsað fyrir því að þeir þyrftu að vera bæði úti og inni á sama tíma en svona vildu Jóakim og félagar hafa það vegna þess að þeir höfðu alltaf svo gaman af að koma á óvart.

  Árshátíðin lukkaðist vel, allir fóru saddir og glaðir heim að henni lokinni og svartklæddir þjónar með hjálma eins og í stjörnustríðsmynd fylgdu veislugestum til bíla sinna ef svo illa hafði tekist til að drykkirnir höfðu stigið þeim til höfuðs.

  Leikhúsi fáránleikans eru engi takmörk sett.Lokað er fyrir ummæli.