Fjósbitapólitík

22. janúar 2009

Þann 18. des. síðastliðinn birtist þessi grein eftir mig í Morgunblaðinu, ég held að hún eigi enn við og hér kemur greinin:

  Nú er fjör og nú er gaman, púkarnir á fjósbitanum fitna sem aldrei fyrr, allir eru gerðir tortryggilegir, nær allt er talið vafasamt og mikið má vera ef flestir eru ekki skyldir einhverjum, t.d. synir feðra sinna, og svo eru menn víst líka svilar sem mun vera það voðalegasta.

  Neikvæðnin ræður ríkjum, nornaveiðar eru stundaðar og það stjórnmálaafl sem út á þetta gerir blómstrar og þenst út eins og púkinn á bitanum forðum, Vinstri græn eru samkvæmt skoðanakönnunum orðin stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og því er það að þeir krefjast kosninga. Strax. Því fleiri slæmar fréttir sem berast, ekki er skortur á þeim, því betur þrífast þeir. Allt það slæma sem yfir okkur dynur er sem sagt hinum eða þeim að kenna, við komum hvergi nærri, nei við Vinstri græn erum ekki sek um að hafa dansað í kringum gullkálfinn. Þau eru á móti: ESB., evru, virkjunum, nema þær séu ekki komnar almennilega á dagskrá, álverum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.s.frv. Man einhver eftir einhverju sem þau eru ekki á móti?

  Ég man eftir einu: greiðslum úr ríkissjóði, já og öðru: hallareknu ríkisútvarpi, vafalaust mætti fleira finna en líklega er það flest þessu sama marki brennt.

  Fjölmiðlarnir dansa með og keppast um að flytja sem flestar neikvæðar fréttir, einkum þó Kastljós, Stöð 2 og að sjálfsögðu DV og kemur það svo sem ekki á óvart. Ríkisstjórnin sem reynir eins og hún getur að halda þjóðfélaginu gangandi er gerð tortryggileg á alla lund, Fjármálaeftirlitið líka, svo ekki sé minnst á Seðlabankann og einkum uppgjafa stjórnmálamann sem þar hangir á sínu eins og hundur á roði og á að bera alla ábyrgð á því hvernig komið er. Hver trúir því í alvöru og hvernig á það að leysa allan vanda að senda hann heim? Ekki að hann sé ómissandi, það er örugglega öðru nær, en að hann einn hafi valdið alþjóðlegri fjármálakreppu hlýtur að teljast nokkuð langsótt.

  Það er frekar auðvelt að vera stjórnmálamaður með völd á landstjórninni þegar allt leikur í lyndi, hægt er að selja öll blómlegustu fyrirtæki þjóðarinnar s.s. banka og síma og allt hvað heiti hefur og ekki spillir fyrir ef efnahagsumhverfið er almennt í heiminum gott. Svona eins og bóndi sem selur kýrnar sínar og hefur næg auraráð á meðan hann er að eyða því sem fyrir þær fæst, en verra er að taka við búinu þegar það sem þannig fékkst er allt búið og farið út í veður og vind. Því er heldur ekki að neita að æði mörg vorum við sem tókum þátt dansinum í kringum kálfinn gyllta og líkaði bara vel.

  Jafnmörg könnumst við ekkert við það í dag og nú er dæmt, hneykslast, rægt og mænt upp í Steingrím J. lemjandi ræðupúltið á Alþingi og allt að því froðufellandi af ofsa. Er ekki komið nóg af þessu og kominn tími til að gera eitthvað uppbyggilegra, snúa sér að því að leysa vandamálin í stað þess að ærast og ragna?

  Ekki er annað að sjá en að það séu margir í því að reyna að finna lausnir á málunum, vel menntað og gáfað fólk, við Íslendingar erum nefnilega svo heppin að eiga nóg af því. Það lætur kannski ekki eins hátt í því og hinum – en leggjum við hlustir.Lokað er fyrir ummæli.