Draumaland Steingríms

21. janúar 2009

Þeir voru í Kastljósi áðan hjá Sigmari þeir Geir H. og Steingrímur J., athyglisvert og um margt upplýsandi spjall hjá þeim félögum og óskandi að sem flestir hafi fylgst með. Geir kom fram af yfirvegun og reyndi að koma að útskíringum á því sem gert hefði verið að undanförnu og til stæði að gera til að gera fólkinu í landinu lífið sem bærilegast miðað við þær kringumstæður sem uppi eru. Steingrímur var hins vegar við sitt gamla heygarðshorn, hafði nánast allt á hornum sér og fannst ýmist að of lítið hefði verið gert, nú eða  að það sem gert hefði verið hefði ekki verið það rétta. Eftir að Geir og Sigmar höfðu gengið nokkuð hart að Vinstri græna formanninum kom fram að hann heldur sig við það að skila beri láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar með öðrum þeim lánum sem því munu fylgja og gera bara eitthvað annað eða með öðrum orðum breyta Íslandi í einhverskonar Norður-Kóreu Atlantshafsins. Gott var að fá þetta fram og liggur nú ljóst fyrir að það myndi jaðra við sturlun ef Samfylkingin gengi til samstarfs um ríkisstjórn með VG með stuðningi Framsóknar. Vinstri grænir eru einfaldlega ekki stjórnmálaflokkur sem hægt er að byggja á í nútímaþjóðfélagi.

  Umræðan fór fram í skugga mótmælaaðgerðanna sem staðið hafa yfir að undanförnu og hafa náð hámarki síðustu tvo daga. Ekki er líklegt að fólkið sem ráfað hefur um miðbæ Reykjavíkur og ornað sé við varðelda að undanförnu hafi gefið sér tíma til að fylgjast með spjalli þeirra félaga, enda afar upptekið við að ögra lögreglumönnum á milli þess sem það hendir eggjum, skyri og málningu á ýmsar vel valdar byggingar í miðborginni. Svo er líka sá möguleiki fyrir hendi að stemmingin í hópnum sé þannig að hugurinn standi ekki til að hlusta. Enda er  svo komið fyrir æði mörgum  í samfélaginu í dag að örvæntingin ein ræður ríkjum; vinnan farin, íbúðin að fara á uppboð og bíllinn til fjármögnunarfélagsins sem lánaði fé til kaupanna.

  Ömurleg staða sem allt of margir standa í og er auðvitað afleiðing af óráðsíu okkar sem þjóðar á undanförnum árum að ógleymdu því umhverfi sem stjórnvöld sköpuðu fyrir óprúttna fjárglæframenn til að valsa með fjöregg þjóðarinnar og jafnvel sjálfstæði og þessi stjórnvöld voru vitaskuld þau hin sömu og  einkavæddu bankana og símann og sátu í 16 ár í skjóli þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Það hefðu þau vitalega ekki gert nema af því að þjóðin endurnýjaði umboð flokkanna á fjögurra ára fresti og lýsti þar með yfir velþóknun á þeim stjórnarháttum sem ríktu í tíð þessara flokka.Ein ummæli við „Draumaland Steingríms“

  1. Gummi ritaði:

    já, það hefur löngum loðað við landann að kjósa eins pabbi, afi, langafi…… og óralangafi gerðu. Það hefur löngum verið þannig að kjörklefinn hefur ekki verið notaður til að refsa þeim stóðu sig illa í stólunum. Það er mín von að nú verði breyting á. Ég gat reyndar ekki fylgst með viðtalinu við GeirHarð og Steingrím á Móti þar sem ég barðist við vatnsleka, en náði þessu að mestu með öðru eyranu. Getur verið að flokkurinn heiti núna Vinstri sprænir?