Flokkur án fortíðar?

17. janúar 2009

Í dag komu saman sér til skemmtunar félagar í gamla Framsóknarflokknum eða því sem eftir er af honum. Það átti óneytanlega vel við að það skyldi bera  uppá sama dag og Einar K. Guðfinnsson ákvað að úthluta 30000 tonna kvóta til nokkurra vel valinna kvótagreifa.

Þannig er að kvótakerfið er skilgetið afkvæmi Framsóknarflokksins, flokksins sem helst svo makalaust vel á formönnum, flokksins sem býr nú um stundir við allt að því óbærilegt offramboð á mönnum sem eiga sér þá ósk helsta að verða formenn yfir leifunum af því sem einu sinni var. Flokksins sem afrekaði það að flæma Guðna Ágústson úr formannsstóli líklega vegna þess eins að hann er ekki spilltur af því eiginhagsmunapoti sem einkennt hefur flokkinn um langa hríð. Flokksins sem átti sinn þátt í að skapa það ömurlega ástand sem  ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar nú um stundir.

Það er óneytanlega merkilegt að hægt skuli vera að kalla saman hóp manna til að halda þing í þvílíkum flokksrústum sem hér er um að ræða á tímum sem eru þannig að flestir sem tengst hafa flokknum að ógleymdum höfuðbólinu sem kennir sig við sjálfstæði (hvílíkt öfugmæli) vildu helst óska þess að upplifun dagsins í dag sé bara martröð sem þau vakni sem fyrst af. En það munu þau því miður ekki gera og mun skömm þeirra verða greipt í sögu þjóðarinnar um ókomna tíð og væntanlega verða notuð í sögukennslu framtíðarinnar sem dæmi um víti til að varast.

Þau samþykktu það í dag að ræða mætti við ESB, svona eins og að tekin væri ákvörðun um það á heimili að horfa mætti á sjónvarpið sem hvort sem er væri logandi á.

Ekki er annað að sjá en flokkurinn sé kominn í stríð við bændur landsins eða að minnsta kosti Bændasamtökin en sem kunnugt er þá eru þau eindregið á móti öllum hugmyndum um inngöngu í Evrópusambandið og eru það að öllum líkindum ein bestu meðmæli sem Evrópusambandssinnar hafa fengið fyrir sínum hugmyndum.

Þannig er nú komið eftir markvissa aðför Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að fjármálakerfi þjóðarinnar að það er ein rjúkandi rúst og ekki er séð fyrir endann á hvernig eða hvort muni takast að slökkva eldana sem þessir flokkar kveiktu.

Ekki virðist annað vera hægt en að leita á náðir ESB og hefði eflaust átt að gera það fyrir löngu en þannig var með þessa flokka báða að mikilmennskan var slík að það var af þeirra hálfu ekki talið koma til greina og draumurinn var sá að koma á fót íslenskri fjármálamiðstöð sem öllu slægi við og eins og dæmin sanna var byggð upp svipað og píramídi sem stendur á hvolfi og ekki nóg með það er hvorki stagaður né studdur á nokkurn hátt!

Óneytanlega hefði það verið skemmtilegra að leita til ESB á meðan ástandið var betra og menn gátu staðið uppréttir í þeim leiðangri en það töldu fjármálasnillingarnir í framsókn og sjálfstæðisflokknum ekki koma til greina og því verðum við að sæta því að fara í leiðangurinn allt að því á hnjánum.

Vonandi er að samningamönnum okkar verði vel tekið ef til kemur ekki mun af veita eftir það hörmulega hrun sem flokkarnir tveir hafa kallað yfir þjóðina.Lokað er fyrir ummæli.