Krossgöturugl

3. janúar 2009

Lenti í því mér alveg að óvörum að heyra glefsu af þættinum Krossgötum í Ruv. núna eftir hádegi.

Svo virtist sem safnað hefði verið í þáttinn viðmælendum sem allir ættu það sameyinlegt að eiga sér þá hugsjón helsta að valda sem mestum skandal í samfélaginu, með því sem blessað fólkið telur sér trú um að séu mótmælaaðgerðir. Til dæmis að taka þá var það ekki talið tiltökumál að valdið hefði verið tjóni á búnaði Stöðvar2 þar sem að eigendur stöðvarinnar væru ,,glæpamenn”. Ekki heyrði ég að þessum málflutningi væri mótmælt af stjórnanda þáttarins, en víst getur það hafa farið framhjá mér. Það er sem sagt dómstóll götunnar skipaður þessu sjálfumglaða og að eigin áliti hugsjónafólki sem á að ráða för.

Einhverju gáfnaljósinu dettur í hug að dæma einhvern og kalla hann glæpamann og þá er hann það bara. Er það þetta sem við viljum að taki við þegar þjóðin rís uppúr öskustónni. Eru þetta hinir nýju vormenn Íslands, vonandi ekki, en gott er að viðkomandi opinberi sig í tíma þannig að hægt sé að varast.2 ummæli við „Krossgöturugl“

  1. Gógó ritaði:

    Ég heyrði einmitt viðtal við grímuklæddan mótmælanda í vikunni sem sagði að mótmælendur væru ekki skríll - hún væri til dæmis þrítug og ætti börn! Það er nú aldeilis mikil huggun í því að vita að fólk um þrítugt sem á börn skuli þar af leiðandi ekki vera skríll.

    Skyldi þessi staða fría fólk af fleiru? Ætli þetta grímuklædda fólk geti þá ekki flokkast undir að vera “pakk” heldur? Þá er nú fokið í flest skjól og vantar stórlega réttnefni á þetta fólk sem mér finnst vera lítið annað en pakk.

  2. Ágúst Halldórsson ritaði:

    Sæll Ingimundur og gleðilegt ár og til hamingju með blogg. Ég veit ekki hvort þetta blessast hjá mér, en það má reyna. Ég var að lesa ummæli í sambandi við grímuklæddu mótmælendurna. Það hangir víst fleira á spítunni en að vera þrítugur og eiga börn. Ég hef heyrt að sumir þyrðu ekki að koma fram með bert snjáldrið af ótta við að verða fyrir ofsóknum; vera sagt upp vinnu o. s. frv. eða hvað?