Fyrsta færslan

1. janúar 2009

Umhverfis þetta og umhverfis hitt.Jæja, þá er maður farinn að blogga og hér kemur gamalt efni sem á svo sem við í dag, skelli því inn til prufu, kann nefnilega ekkert á þetta en vonandi lærist það!

 

                                                                                                                                                                                      Að undanförnu hafa svonefndir umhverfissinnar farið mikinn í umræðu um þjóðfélagsmál og er jafnvel svo að skilja sem þessi sjálfskipuðu talsmenn guðsgrænnar náttúru telji sig einir þess umkomna að tala máli hennar í tíma og ótíma.Einna frægastur er líklega Ómar nokkur Ragnarsson, grínisti sem kominn er á efri ár og lagði það á sig að sullast um á bátsskel á uppistöðulóni við Kárahnjúka sem frægt varð.Það má ekki virkja við Kárahnjúka, þó reyndar sé nú búið að því, ekki við Hágöngur, Fljótin í Skagafirði, rennsli Þjórsár og svo mætti lengi telja. Sérstaklega er þessu hægri-vinstri-græna fólki uppsigað við, að því er virðist, allt sem hægt er að tengja við iðnað af einhverju tagi. Svokölluð stóriðja er efst á blaði en sjálfsagt er ekki langt í það að allur annar iðnaður verði tekinn fyrir. Ekkert virðist mega iðja annað en tína fjallagrös, spóka sig á gönguskóm á fjallstoppum og góna með heilagri andakt út í loftið vitandi það að launin koma í pósti frá hinu opinbera úr þeirri óþrjótandi peningauppsprettu sem þar er. En hvernig er röksemdafærslan? 

Skoðum það nánar.Skagafjarðarfljótin: Því er náttúrulega haldið fram að um einstakar náttúruperlur sé að ræða, eins og það séu nú einhver ný tíðindi, þar að auki verði ekki hægt eftir virkjun þeirra að stefna ferðamönnum í lífshættu með svokallaðri flúðasiglingu. Svo koma rökin, sem sé þau að rafmagnið verði að nota innan héraðs en ekki flytja það burt til annars og að því er virðist óæðra fólks. Hvaðan skyldi nú koma það rafmagn sem Skagfirðingar  nota, er það kannski framleitt innan Skagafjarðarhéraðs? Þetta heimóttarlega viðhorf hefur einnig verið áberandi á fleiri stöðum og það  er ekki svo að Skagfirðingar séu einir um það. Halda menn kannski að það gangi upp að framleiðsluvörur Skagafjarðar og annara héraða verði eingöngu á markaði innan sveitar? „Hollur er heimafenginn baggi” og allt það en er þetta ekki einum of langt gengið. Sunnlendingar sumir hverjir hafa rætt um það bæði hátt og lengi að ósanngjarnt sé að þar sé framleiddur stór hluti af raforku landsins en ekki notaður innan héraðs. Enginn hefur samt getað bent á hvernig það ætti að gerast og flestir sem komnir eru af barnsaldri vita að suðurströndin er ein samfelld hafnleysa. 

Eitt það nýjasta í málflutningi umhverfisfasistanna er svo það að tala niður til iðnaðarmanna og telja þá ,,gráa” (og væntanlega guggna?) og verður það að teljast óvenju ósvífinn málflutningur af hálfu fólks sem vill láta taka sig alvarlega í þjóðmálaumræðu og helst af öllu komast inn á þing og taka þar með þátt í lagasetningu.  

Undirritaður átti þess kost  síðastliðið sumar að fara í kynnisferð um álverið í Straumsvík, álver sem við ættum að vera stolt af ef eitthvað er. Það verður að segjast eins og er að allt var það til fyrirmyndar hvað varðar umgengni og aðbúnað starfsmanna og getum við ekki bara verið stolt af að því er stjórnað af konu, glæsilegum fulltrúa „hins veika kyns”? Miðað við það sem þar var að sjá þá held ég að svokölluðum umhverfissinnum  væri nær að snúa sér að hefðbundnari atvinnuvegum þessarar þjóðar, hvernig er t.d. háttað umgengni landbúnaðar og sjávarútvegs um náttúru  landsins, hvað með uppblástur á hálendi og víðar og rústun togaraútgerðar á hafsbotninum með botnvörpum að ógleymdum drauganetum, brottkasti og fleira mætti sjálfsagt telja.  

Þáttur fjölmiðla í öllu þessu er líka allnokkur. Hver kannast ekki við glamrið að undanförnu eins og t.d.: Bændur við Þjórsá fagna niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði. Ekki er sagt hverjir, hve margir og fleirtöluorðið „bændur” getur þess vegna þýtt aðeins tveir bændur, kannski fleiri, hver veit en víst er að verið er að láta að því liggja að bændur almennt séu ánægðir með niðurstöðu kosninganna. Varðandi Þjórsárvirkjanirnar skyldu menn hafa í huga að það er búð að margvirkja ána og það sem fyrirhugað er í viðbót skiptir nánast engu máli, um er að ræða lítil inntakslón sem nánast að öllu leiti eru í núverandi farvegi árinnar. Urriðafoss, líklega eini foss (ef foss skyldi kalla) landsins sem á sér sérstakan talsmann, mun að einhverju leiti hverfa en þar sem hann er lítið annað en nafnið eitt, þá er ekki mikill missir að því. 

Fyrir skömmu komu fram hugmyndir um að leggja heilsársveg yfir Kjöl, veg sem ef vel tækist til myndi létta á umferðarþunga á þjóðvegi 1. Ekki var að því að spyrja, hárin nánast risu á umhverfissinnum, sem svo kalla sig, helst var svo að skylja að ekki mætti ræða hugmyndina, hvað þá meira. Ekki svo að hún sé gallalaus en mætti eflaust lagfæra og ef vel tekst til komast að vitrænni niðurstöðu. Alla vega er full ástæða til að leita leiða til að létta umferðarálaginu af hringveginum eftir því sem unnt er. Er eitthvað sérstaklega heillandi við rykmökkinn og drulluausturinn sem er á núverandi Kjalvegi? Þau sem tóku þátt í því að mynda Samfylkinguna gerðu það í þeirri von að með því yrði hægt að þoka góðum málum fram á veg. En sumir tóku þann kost að ganga til liðs við hreyfingu sem kallast Vinstri græn. Það hefur orðið hlutskipti þeirra að berjast gegn nánast öllu sem til framfara horfir og æði oft undir yfirskini náttúruverndarsjónarmiða. Formaður þeirra var einu sinni landbúnaðar og samgönguráðherra, ef einhver er nú búinn að gleyma því, þau sem það muna, muna ef til vill að hann gerðist katólskari en páfinn í reglufestu er hann var kominn í ráðherrastólinn. 

Því er að ástæða er til að hvetja fólk til að hugsa sig vel um áður en það kastar atkvæðum sínum í komandi alþingiskosningum á glæ með því að kjósa öfgaflokkana hvort sem er til hægri eða vinstri, hvort heldur þeir kenna sig við frjálslyndi, flokkur sem daðrar leynt og ljóst við rasisma, eða þá sem telja sig hafa höndlað stóra sannleikann varðandi umhverfismálin. Það er ekki langt í atvinnuleysi og afturhald ef þau komast til áhrifa í landsmálunum. 

Ingimundur BergmannEin ummæli við „Fyrsta færslan“

  1. Guðný Kristjánsdóttir ritaði:

    Þú ert helv… góður penni elsku frændi, gaman að kíkja á ykkur, til hamingju með nýjasta meðliminn, ég veit ekki nema Gógó hafi húmorinn þinn, hún er allaveg góður penni líka.
    kveðja til ykkar allra
    Guðný